Þann 27. nóvember, boðaði ég til rafræns heilbrigðisþings. Þema þingsins var mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu, með áherslu á tækni og nýsköpun, en þingið í ár er þriðja heilbrigðisþingið sem ég boða til í ráðherratíð minni sem heilbrigðisráðherra. Við þurfum að styrkja og efla menntun heilbrigðisstarfsfólks, bæta starfsumhverfi þess, vinna að tryggri mönnun heilbrigðiskerfisins og efla vísindi og nýsköpun, og í ljósi heimsfaraldurs og áhrifa faraldursins þurfum við mögulega að nálgast það markmið með nýjum leiðum.
Um þetta var fjallað á heilbrigðisþingi sem fram fór í gær. Um 600 manns fylgdust með þinginu í beinu streymi og fjölmargar spurningar og athugasemdir bárust inn á þingið í gegnum vefinn. Upptöku af þinginu má sjá á vef þingsins, www.heilbrigdisthing.is.
Fyrirlesarar og þátttakendur í umræðum komu úr ýmsum áttum; meðal annars frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, heilbrigðisstofnunum og ráðuneytum, landlæknisembættinu, háskólum landsins og úr nýsköpunargeiranum og það var magnað að heyra hversu mikill kraftur, reynsla og metnaður býr í fagfólkinu okkar. Áhersla á heildræna sýn á viðfangsefnið, aukin þverfagleg vinna og samvinna, meiri sveigjanleiki, aukin áhersla á nýsköpun og nýtingu tækninnar voru allt atriði sem bar á góma á þinginu og allt eru þetta hugtök sem eru lykilatriði í fámennu samfélagi.
Heilbrigðisstefna sem samþykkt var í júní 2019 snertir þema heilbrigðisþingsins með beinum hætti í ár. Einn af sjö aðalköflum stefnunnar, Fólkið í forgrunni, fjallar um mannauðinn og gott og öruggt starfsumhverfi sem og mikilvægi þess að tryggja örugga mönnun í heilbrigðisþjónustu með vel menntuðu, hæfu og áhugasömu starfsfólki. Heilbrigðisstefna er nokkurs konar áttaviti fyrir okkur þegar kemur að þessu en umræðan á þinginu var líka dýrmætt innlegg í þessa umræðu.
Ég stefni að því að afrakstur þingsins verði grunnur að þingsályktunartillögu til Alþingis um stofnun landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu. Landsráðið hefði það hlutverk að vera ráðgefandi vettvangur um mönnun heilbrigðisþjónustunnar og menntun heilbrigðisstétta. Hugmyndin er sú að í því sitji fulltrúar frá háskólum, heilbrigðisstofnunum og tengdum stofnunum. Ég er viss um að stofnun ráðsins verður jákvætt skref.
Mig langar að þakka öllum sem fylgdust með heilbrigðisþingi fyrir að vera með okkur í gær, hlusta, spyrja spurninga og miðla reynslu sinni. Fyrirlesarar og þátttakendur eiga svo sérstakar þakkir skildar. Takk fyrir gott og árangursríkt heilbrigðisþing. Heilbrigðisþjónusta hér eftir sem hingað til byggir á öflugu og vel menntuðu starfsfólki. Menntun og mönnun í heilbrigðisþjónustu er því eitt mikilvægasta viðfangsefni samfélagsins til framtíðar.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.