PO
EN

Heilbrigðisþjónusta fyrir alla, óháð efnahag, búsetu og uppruna

Deildu 

Það kemur ekki á óvart að flestir Íslendingar telja heilbrigðismál vera mikilvægustu málin, en 67,8% svarenda í nýlegri könnun Maskínu nefndu heilbrigðismálin sem stærsta kosningamálið fyrir kosningarnar 25. september nk. Gott samfélag á að tryggja öllum góða heilbrigðisþjónustu. Það er stefna Vinstri grænna. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafa unnið að eflingu heilbrigðisþjónustu við alla landsmenn, á öllum sviðum, óháð efnahag, búsetu og uppruna.

Heildstæð heilbrigðisstefna og framtíðarsýn

Í fyrsta skipti hefur verið mörkuð heildstæð stefna þar sem heilbrigðisyfirvöld og stofnanir heilbrigðiskerfisins munu skapa heildrænt kerfi sem tryggir sjúklingum samfellda þjónustu á réttu þjónustustigi þar sem saman fara gæði, öryggi, skilvirkni og hagkvæmni.AUGLÝSINGhttps://static.airserve.net/kjarninn/websites/kjarninn/adzones/grein-g1/banner123157.html

Svandís Svavarsdóttir lagði fram heilbrigðisstefnu til 2030 með það að leiðarljósi að almenningur á Íslandi búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra landsmanna er tryggt með eftirfarandi framtíðarsýn fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi:

  • Íslensk heilbrigðisþjónusta er á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir er hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar.
  • Árangur heilbrigðisþjónustunnar er metinn með því að mæla gæði þjónustunnar, öryggi hennar, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar.

Heilbrigðisstefnan var samþykkt af Alþingi með miklum meirihluta atkvæða og mótatkvæðalaust í júni 2019.

Til að lýsa nánar framtíðarsýninni eru í stefnunni sett fram sjö lykilviðfangsefni:

  • Forysta til árangurs
  • Rétt þjónusta á réttum stað
  • Fólkið í forgrunni
  • Virkir notendur
  • Skilvirk þjónustukaup
  • Gæði í fyrirrúmi
  • Hugsað til framtíðar

Í heilbrigðisstefnunni er gerð grein fyrir þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir:

Ævilíkur landsmanna hafa aukist mikið á síðustu áratugum og þjóðin er að eldast. Þessari þróun fylgja ýmsar áskoranir, meðal annars fyrir velferðarkerfið þar sem þarf að mæta vaxandi þjónustuþörf eftir því sem öldruðum fjölgar hlutfallslega. Vaxandi heilbrigðisvandi vegna lífsstílstengdra og langvinnra sjúkdóma valdið auknu álagi á heilbrigðiskerfið á síðustu áratugum.

Um þessar helstu áskoranirnar er fjallað nánar í stefnunni: 

Heilabilun er dæmi um langvinnan sjúkdóm sem hrjáir einkum eldra fólk.

Langvinnir sjúkdómar herja ekki einungis á eldri kynslóðina; hjarta- og æðasjúkdómar, krabbamein, lungnasjúkdómar, sykursýki og geðsjúkdómar. Þessir sjúkdómar eru taldir valda um 70% dauðsfalla á heimsvísu árlega.

Offita er vaxandi vandamál á Íslandi, bæði hjá börnum og fullorðnum og getur haft alvarlegar heilsufarslegar og félagslegar afleiðingar.

Mönnun heilbrigðisþjónustu er alþjóðleg áskorun, ekki hvað síst stöður hjúkrunarfræðinga og lækna.

Ný lyf og lyfjanotkun. Ein mikilvæg áskorun er að framboð nauðsynlegra lyfja sé nægjanlegt, og tryggja gæði þeirra og örugga notkun. 

Kaup á heilbrigðisþjónustu er ein af áskorununum framundan. Útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi nema ríflega 200 milljörðum króna á hverju ári, sem svarar til um 8,7% af vergri þjóðarframleiðslu landsmanna.

Margvísleg tækifæri felast í þeim áskorunum sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir og mikilvægt að nýta þau:

Heilsuefling og bætt lýðheilsa. Með því að leggja áherslu á að fyrirbyggja sjúkdóma og auðvelda fólki að velja heilbrigðan lífsstíl má draga úr líkum á því að það búi við slæma heilsu síðar á ævinni eða seinka því að heilsunni hraki.

Góð geðheilsa og andlegt heilbrigði stuðlar  að  því að einstaklingar geti tekið fullan þátt í samfélaginu, notið hæfileika sinna og lagt sitt af mörkum.

Gott aðgengi að öruggum lyfjum og skynsamleg notkun þeirra skiptir máli fyrir góðan árangur heilbrigðisþjónustunnar og getur haft mikil áhrif á heilsu fólks og vellíðan.

Tækninýjungar í heilbrigðisþjónustunni og uppbyggingu innviða í þágu m.a. í upplýsingatækni geta nýst í heilbrigðisþjónustu og aukið gæði og skilvirkni hennar.

Efling heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar notenda í heilbrigðiskerfinu er grundvölluð á lögum og um hana ríkir almenn sátt í samfélaginu.

Komugjöld í heilsugæslu hafa markvisst verið lækkuð og tilvísanakerfi hefur verið innleitt vegna þjónustu við börn, sem tryggir þeim hana án kostnaðar.

Landspítalinn er hornsteinn íslenska heilbrigðiskerfisins og staða hans mun styrkjast eftir því sem uppbyggingu hans vindur fram, m.a. með nýjum meðferðarkjarna, rannsóknahúsi og sjúkrahóteli. Unnið að því að efla dag‐ og göngudeildarstarfsemi Landspítala. 

Um framkvæmd heilbrigðisstefnunnar segir m.a.:

  • Það mun krefjast skipulegra vinnubragða og sameiginlegs átaks allra hagsmunaaðila ef takast á að koma heilbrigðisstefnunni í framkvæmd fyrir lok ársins 2030. Heilbrigðisráðuneytið ber endanlega ábyrgð á því að hrinda þessari stefnu í framkvæmd.
  • Fjallað er um fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu og veiteindur heilbrigðisþjónustu á ólíkum stigum.
  • Við alla þessa vinnu þurfum við að skapa menningu sem stendur föstum fótum í sameiginlegum gildum, gildum sem veraða okkur leiðarljós á þeirri vegferð að skapa þjónustu sem miðast við þarfir notenda og tryggir þeim samfellda og örugga þjónustu.
  • Mikilvægt eins fljótt og auðið er að hefjast handa við endurskoðun fjármögnunar- og greiðslukerfa heilbrigðiskerfisins og innleiðingu á gæðaáætlun.

Hvað hafa Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur gert til að efla heilbrigðisþjónustu við alla landsmenn?

  • Aukið framlög til heilbrigðismála á kjörtímabilinu um 73,8 milljarða.
  • Lagt 26 milljarða til byggingar nýs Landspítala, á ætlað er að nýtt þjóðarsjúkrahús verði tekið í notkun 2025-2026. Vinna við meðferðarkjarna hófst í ársbyrjun, skóflustunga að nýju rannsóknahúsi var tekin í byrjun september og bygging á bílastæða- og tæknihúsi að hefjast. Þá er hönnun á 3.800 fermetra byggingu endurhæfingar húsnæðis við Grensásdeild að hefjast.
  • Opnað sjúkrahótel við Landspítala, sem markar þáttaskil fyrir sjúklinga af landsbyggðinni og fjölskyldur og aðstandendur sjúklinga.
  • Ýtt af stað uppbyggingu aðstöðu til liðskiptaaðgerða á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og aðstöð til móttöku sjúkrabíla þar, ráðgert að taka í notkun um áramót.
  • Aukið framlög til heilsugæslunnar um 25% til að tryggja að heilsugæslan verði raunverulegur fyrsti viðkomustaður.
  • Lækkað greiðsluþátttöku sjúklinga sem er nú komin á par við Norðurlönd og lagt niður komugjöld fyrir aldraða og öryrkja. Einnig hefur kostnaður aldraða og öryrkja við tannlækningar lækkað verulega, með lækkun gjaldskrár lækkuð og hækkkun hlutfalls Sjúkratrygginga í kostnaðinum.
  • Aukið framlög til geðheilbrigðismála um 1 milljarð, þar af um 800 milljónum til geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar. Ráðstafað 102 milljónum króna í þverfagleg átaksverkefni á vegum Landspítala sem miða að því að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungt fólk.
  • Fjölgað hjúkrunarrýmum um 140 á tímabilinu, sem er hluti af stórátaki í fjölgun hjúkrunarrýma. Samhliða fjölgun hjúkrunarrýma hefur verið unnið að því að efla dagdvöl, heimaþjónustu og heilsueflingu aldraðra, þannig að fólk sem það kýs geti búið heima sem lengst.
  • Stuðlað að aukinni fjarheilbrigðisþjónustu og nýsköpun í tæknilausnum á sviði heilbrigðisþjónustu, sem jafnar aðgengi að heilbrigðisþjónustu um allt land og eykur verðmætasköpun.
  • Elft sjúkraflutninga með endurnýjun sjúkrabílaflotans með útboði á 25 nýjum.
  • Lögfest neyslurými sem byggja á hugmyndafræði skaðaminnkunar, þ.e. að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar ávana- og fíkniefna. Í vikunni gerðu svo Sjúkratryggingar Íslands, í samræmi við ákvörðun heilbrigðisráðherra, 20 milljón króna samning við Rauða krossinn á Íslandi til skaðaminnkunarverkefnis Frú Ragnheiðar um skaðaminnkandi þjónustu fyrir einstaklinga í vímuefnavanda árið 2021.
  • Lagt fram á Alþingi sl. vor frumvarp um afglæpavæðingu fíkniefnaneyslu, sem er mikilvægt skref til að vernda líf og heilsu einstaklinga sem lifa við alvarlegan fíknisjúkdóm og stigið stórt skref í átt frá refstistefnu í fíkniefnamálum þannig að litið sé á neytendur fremur sem sjúklinga en afbrotafólk.
  • Gert breytingar varðandi réttindi langveikra barna, en nú eiga eiga nú öll börn fædd með skarð í gómi rétt á 95% greiðsluþátttöku vegna nauðsynlegra tannréttingameðferðar.

Mikilvægt er að næsta ríkisstjórn haldi áfram uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og framkvæmd á heilbrigðisstefnunni, sem Alþingi samþykkti samhljóða. Þar treysti ég Vinstri grænum best.

Ingileif Jónsdóttir er prófessor í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hún er í 19. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavík suður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search