PO
EN
Search
Close this search box.

Heildarlög um sjávarútveg

Deildu 

Fyrir viku birtust drög að frumvarpi til heildarlaga um sjávarútveg ásamt drögum að þingsályktun um sjávarútvegsstefnu. Í þeim var byggt á þeirri stefnumótunarvinnu sem átti sér stað undir formerkjum „Auðlindarinnar okkar“ og lauk með skýrslu á haustdögum. Frumvarpið er yfirgripsmikið og lagðar eru til útfærslur á þeim tillögum sem fram komu í stefnumótunarvinnunni. Núgildandi löggjöf er jafnframt einfölduð og uppfærð. Með þessum umbótum eru sköpuð skilyrði til aukinnar sáttar um sjávarútveg og frekari árangurs í málaflokknum. Sjávarútvegslöggjöf er í dag að finna í mörgum ólíkum lagabálkum, sem samdir eru á áratugum og því er orðið tímabært að samræma löggjöfina þannig að hún standist kröfur nútímans.

Deilt hefur verið áratugum saman um sköpunarsögur fiskveiðistjórnarkerfisins. Þær deilur hafa verið fyrirferðarmiklar á vettvangi stjórnmálanna en þær má líka finna á kaffistofum, fermingarveislum og í jólaboðum. Veruleikinn er flóknari en flestar þessar sköpunarsögur, en niðurstaða þeirra kerfa sem við Íslendingar höfum byggt upp í gegnum áratugina er kerfi þar sem margt í sjávarútvegi er til fyrirmyndar en annað ekki. Skoðanakannanir sýna djúpstæðan samfélagslegan ágreining um greinina. Það er óviðunandi að mikill meirihluti þjóðarinnar telji eina okkar mikilvægustu grein einkennast af óheiðarleika. Einungis með því að kveikja ljósin getum við komist áfram. Þannig eru lagðar til í frumvarpinu breytingar á skilgreiningum hugtaka um yfirráð og tengda aðila til samræmis við aðra löggjöf sem gildir á Íslandi. Þá er lagt til að víkka út upplýsingaskyldu á stærri útgerðir og skerpt á heimildum stofnana til þess að geta viðhaft viðvarandi eftirlit með eignarhaldi og eignatengslum.

Þessi þáttur er lykilatriði vegna þess að sjávarútvegurinn hvílir á þremur stoðum sjálfbærrar þróunar. Á umhverfislegri, efnahagslegri og á samfélagslegri stoð. Ef samfélagslega stoðin er hunsuð á kostnað annarra mun það verða til þess að veikja greinina sem heild, enda er stóll með tvo fætur ekki stöðugur. Með þessu frumvarpi er einnig verið að leggja til að festa frekar í sessi sjónarmið umhverfisréttar og vistkerfisnálgun. Þannig er betur tryggt að langtímahagsmunir samfélagsins séu virtir enda er það sem er gott fyrir hafið gott fyrir okkur öll.

Þessi drög munu vafalítið kalla fram ýmis sjónarmið, enda eru víða hagsmunir í sjávarútvegi. Þessi sjónarmið verða metin áður en kemur til kasta Alþingis að fjalla um málið síðar í vetur. En með því að umræðan verði opin og lýðræðisleg um sjávarútveg tel ég að við getum náð fram mikilvægum umbótum en ekki síst langþráðar forsendur fyrir aukinni sátt um greinina til framtíðar.

Grein birtist í Morgunblaðinu 30.nóvember

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search