Search
Close this search box.

Heildarúttekt á heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma

Deildu 

Ég hef ákveðið að ráðast í heildarúttekt á þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma. Dr. Helga Sif Friðjónsdóttir mun annast úttektina. Í úttektinni verða einnig skoðaðir möguleikar á frekari samhæfingu heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu, einkum með tilliti til endurhæfingar, búsetuúrræða og stuðningsmeðferðar fyrir einstaklinga í bataferli. 

Embætti landlæknis gaf á liðnu ári út samantekt um aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegna notkunar áfengis og vímuefna. Samantektin, sem byggir á gögnum frá heilbrigðisstofnunum, undirstrikar fyrst og fremst mikilvægi samræmingar í skráningu, viðmiða og verklagi þegar kemur að meðferð við áfengis- og vímuefnavanda. Eins og fram kemur í skýrslu embættisins hafa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Sameinuðu þjóðirnar gefið út viðmið um meðferð vegna vímuefnaneyslu. Þar er m.a. lögð áhersla á að meðferð þurfi að fela í sér þjónustu sem er í boði úti í samfélaginu og nær til jaðarsettra hópa. Ein af tillögum embættis landlæknis er að stefna í áfengis- og vímuvörnum verði endurskoðuð og gildi til ársins 2030 og að stefnunni fylgi tímasett aðgerðaáætlun .

Brýnt er að móta nýja stefnu til framtíðar í þessum málaflokki með heildstæðum tillögum um samþættingu og samvinnu fyrsta-, annars- og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu þar sem jafnframt yrði skoðaður fýsileiki þess að samþætta heilbrigðis- og félagslega þjónustu gagnvart notendum. Forsenda nýrrar stefnumótunar er heildarúttekt á núverandi þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við fólk með vímuefnasjúkdóm. Einnig þarf að skoða hvar núverandi heilbrigðisþjónusta byggir á gagnreyndri þekkingu/klínískum leiðbeiningum og hvar eru brotalamir hvað þetta varðar. Beitt verður aðferðafræði Benchmarking best practice sem nýtist vel til að greina hvaða eiginleikar stofnana/þjónustuveitenda leiða til hámarksárangurs og einnig til að greina kosti og ókosti núverandi þjónustukerfis og meta hvaða atriði þarf að færa til betri vegar. Hér á landi hefur ekki tekist að stíga nauðsynleg skref í samþættingu heilbrigðis- og félagslegrar þjónustu sem byggist á þeirri hugmyndafræði fíknifræða að vímuefnavandi hafi lífsálfélagslegar orsakir og því árangursríkast að samþætta og veita heildræna velferðarþjónustu og eftirfylgd fyrir fólk með vímuefnasjúkdóm.

Ég bind miklar vonir við þessa vinnu, sem er löngu tímabær. Úttektin verður svo grundvöllur ákvarðana og aðgerða á þessu mikilvæga sviði velferðarþjónustunnar.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search