Search
Close this search box.

Heimafengin hollusta

Deildu 


Árið 2020 mun marka mikil tímamót á Austurlandi þegar sveitarfélögin Djúpavogshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Fljótsdalshérað verða sameinuð. Við siglum því inn í nýjan áratug í gjörbreyttu landslagi. Að mörgu er að hyggja og í þessum pistli ætla ég að fjalla sérstaklega um smáframleiðslu matvæla.

Smáframleiðsla matvæla á Austurlandi hefur sennilega aldrei verið fjölbreyttari eða einkennst af jafn mikilli nýsköpun og um þessar mundir. Margir smáframleiðendur hafa sprottið upp og gefið samfélaginu aukinn lit og líf. Þetta mátti glöggt sjá á Matarmarkaði Búrsins sem haldinn var í Hörpu fyrir jól. Hlutfall Austurlands var ansi hátt og vakti það athygli gesta. 

Þetta er ekki sjálfgefið enda er rekstrarumhverfi smáframleiðenda ekkert til að hrópa húrra fyrir. En það er mikið í húfi, því staðbundin framleiðsla á matvælum er gríðarlega mikilvæg út frá sjónarmiði umhverfis, heilbrigðis, efnahags og menningar. En ekki nóg með það heldur snýst þetta líka um matvælaöryggi landsmanna. Við þurfum því sem samfélag að úthugsa leiðir til að styðja við þessa framleiðslu, auka hana og efla.

Stjórnvöld munu von bráðar kynna fyrstu matvælastefnu sem unnin hefur verið fyrir Ísland. Mjög jákvætt skref og löngu tímabært. Það er mikilvægt að sveitarfélög geri slíkt hið sama og hlúi þannig að framleiðendum heima í héraði. Hugsi allt sem næst sér. Sveitarfélög ættu að hafa það í innkaupastefnu sinni að velja alltaf umhverfisvænsta kostinn sem hlýtur að vera sá sem lágmarkar flutninga og þar með kolefnisspor.

Allir geta lagt sitt af mörkum

Framleiðsla og neysla á matvælum í heiminum í dag er ósjálfbær. Matarsóun er risastórt umhverfismál. Eins og staðan er í dag er talið að þriðjungi hráefna og tilbúinna matvæla sé hent. Til að stemma stigu við þetta þurfum við að leggja áherslu á hringrásarhagkerfi sem byggist í því að nýta aðföng á skynsamlegri hátt og minnka sóun. Þannig drögum við úr álagi á auðlindir jarðar. Í lífrænni ræktun er slíkri hringrás iðulega beytt. Allur lífrænn úrgangur  sem fellur til er nýttur sem áburður og engin eiturefni eru nýtt við ræktun eða framleiðslu. Vonandi sjáum við fleiri bændur og framleiðendur taka upp slíkt verklag á árinu og á komandi árum.

              Miðað við hversu mikil gróska er á Austurlandi í þessum efnum er ljóst að hugafarsbreyting er að eiga sér stað. En betur má ef duga skal. Rekstrarumhverfi smáframleiðenda er erfitt og til að einstaklingar missi ekki móðinn í miðri á er mikilvægt að styðja betur við þá. Ég bind vonir við matvælastefnu fyrir Ísland á nýjum áratug og vona að við fáum ferskari og umhverfisvænni sýn á landbúnað, bæði sem framleiðendur og sem neytendur. Það er pólitísk ákvörðun að búa til jarðveg fyrir fjölbreyttan, öflugan og umhverfisvænan landbúnað. Vonandi sjáum við eitthvað þokast áfram í jöfnun drefingarkosnað raforku og að nýr áratugur fari ekki í að ræða það mál sem löngu er fullrætt. Mikilvægt er að bæta afkomu bænda og framleiðenda, styrkja markvisst þá sem framleiða matvæli sem hafa góð áhrif á náttúru og lýðheilsu. Einstaklingar og fyrirtæki geta líka lagt sitt að mörkum með neysluvenjum sínum. Það er mikið í húfi.

Berglind Häsler, eigandi Havarí í Berufirði og stjórnarmaður í VG.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search