PO
EN
Search
Close this search box.

Helmingur fylgdarlausra flóttabarna hverfur

Deildu 

Evrópuráðsþingið lýsti í gær þungum áhyggjum af stöðu fylgdarlausra barna í Evrópu. Helmingur barna sem koma fylgdarlaus til Evrópu hverfur af móttökumiðstöðvum innan tveggja sólarhringa. Þau eru oft fórnarlömb mansals, þrælkunar og kynferðisofbeldis.

Skýrsla sem Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaforseti Evrópuráðsþingsins og þingmaður VG, vann fyrir Evrópuráðsþingið varð grunnur að ályktun sem samþykkt var þar einróma. Þar eru lagðar til breytingar á lögum ríkjanna sem samþykktu hana til að veita börnum á flótta aukin réttindi. Meðal þess sem ályktunin felur í sér er sú krafa að börn fái alltaf opinberan fylgdarmann sem yfirvöld útvegi. Slík fylgd getur komið í veg fyrir að börnum sé rænt og þau seld í kynlífsþrælkun eða beitt kynferðisofbeldi.

Meðal ákvæða er að þjóðir skuli skapa örugg og lögleg úrræði fyrir börn á flótta. Stuðla skuli að því að sameina fjölskyldur og stækka flóttamannakvóta. Þá skuli börn fá að tjá skoðun sína við stjórnvöld í málum sem varða þau.

Einnig eru tilmæli í skýrslunni til stjórnvalda um pólitíska stefnumörkun, þar á meðal um frávísun flóttabarna og aukin framlög á fjárlögum til málaflokksins, börnum til heilla.

Evrópa getur aðstoðað Mexíkó

Sendiherra Mexíkó ávarpaði fundinn sem sérstakur gestur og óskaði eftir samstarfi við þingið við að leysa þann vanda sem upp er kominn á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Koma þurfi í veg fyrir að börn lendi í mansali og verði fórnarlömb kynferðisofbeldis.

Mikill samhugur var um ályktunina á þinginu að sögn Rósu Bjarkar. Til að mynda hafi enginn greitt atkvæði gegn henni, sem sé fágætt.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search