PO
EN

Hér er allt í himnalagi!

Deildu 

Þessa dagana keppast meirihlutaflokkar sveitarstjórna um það að dásama það sem þeir telja að hafi áunnist undir þeirra stjórn á síðasta kjörtímabili – og að allt sé í himnalagi.

Er þá allt í himnalagi hjá okkur í Fjarðabyggð eða hvað?

Rýnum þetta aðeins:

● Ákall er eftir íbúðarhúsnæði í Fjarðabyggð, úr því skal bætt á næstu árum.
● Vöntun er á sálfræðiþjónustu, úr því skal bætt á næstu árum.
● Aðgengi fatlaðs fólks er mjög ábótavant, það þarf að skoða og bæta úr á næstu árum.
● Jaðarsetning og ójöfnuður, ekki gott ef svo er en úr því skal bæta á næstu árum.
● Úrræði í geðheilbrigðismálum, skoðum það á næstu árum.
● Grunn- og leikskólar, þar er allt orðið rosalega frábært en allt sem mætti laga verður samt bætt á næstu árum.
● Halli er á rekstri sveitarfélagsins, það er ýmist eða bæði sagt vera eðlilegt eða þá vegna heimsfaraldursins en úr því verði bætt – einhvern tímann.
● Vandræðagangur er gagnvart stöðu hinsegin málefna, kvenfyrirlitningar og rasisma, fordæmum það en annars ekkert.
● Úrgangsmálin, þau eru ekki rædd og líklega er þá vandamálið í þeim málaflokki ekki til.
● Umgengni og nýting náttúruauðlinda, það er ekki sýnilegt eða rætt og þá er vandamálið í þeim málaflokki líklegast ekki til.
● Loftslagsváin er alvarlegt vandamál svona á tyllidögum og planið er að reisa grænan orkugarð, fáum fullt af störfum því tengdu og björgum heiminum!

Það virðist afskaplega mikið verið talað um að allt sé orðið frábært en líka að ekkert sé nógu gott og þau vilji lengri tíma til að gera allt frábært.

Eftir að hafa hlusta á framsögur og lesið greinar frá meirihluta flokkunum hér í Fjarðabyggð setur mig hljóða. Staðan er ekkert frábær og nei hér er ekki allt í himnalagi.

Ég veit það fyrir víst að íbúar Fjarðabyggðar sjá vel að staða mála í ofangreindum atriðum sem og fleirum er hreinlega ekki góð. Við í VG í Fjarðabyggð gerum okkur grein fyrir því að brýnt er að bókhald sveitarfélagsins verði opnað til að veita aðhald í rekstrinum, bæta þarf úr ójöfnuði á öllum sviðum samfélagsins og efla þarf geðheilbrigðisþjónustu og aðgengismál strax. Við munum jafnframt aldrei sofna á verðinum gagnvart rasisma og kvenfyrirlitningu.

Anna Berg Samúelsdóttir, náttúru- og landfræðingur, skipar annað sæti VG í Fjarðabyggð og hefur starfað hjá stjórnsýslu Fjarðabyggðar sl. sex ár en siglir á ný mið á komandi sumri.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search