Search
Close this search box.

Herðum róðurinn

Deildu 

Jafnt stjórnmálamenn sem fræðimenn, og fjölmargir aðrir, eru sammála um að herða verulega á aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Á það við um bæði samdrátt í losun (sem nemur árlega að lágmarki 8 til 10 milljónum tonna koltvísýrings á Íslandi) og kolefnisbindingu með margvíslegum aðferðum. Við bætist aukin áhersla á viðbrögð við afleiðingunum – það sem jafnan nefnist aðlögun. Henni verðum við nú þegar að gefa meiri gaum en hingað til. Fella stefnu og áætlanir að stefnu og áætlunum sem varða minni losun og aukna bindingu.

Góðar tillögur hafa komið fram á Alþingi, auk stjórnarfrumvarpa sem mörg hver boða breytingar í þessum efnum. Nefni mál nokkurra VG-þingmanna á Alþingi. Ólafur Þór Gunnarsson leggur til að ferðaþjónustufyrirtækjum verði gert skylt að bjóða viðskiptavinum kolefnisjöfnun. Andrés Ingi Jónsson vill hamla olíuleit á umráðasvæði okkar með skilyrðum, Kolbeinn Óttarsson Proppé stingur upp á Loftslagsbanka sem lánar fé til árangursríkra verkefna í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ég legg fram frumvarp um breytingar á tekjuskattslögum. Samkvæmt því má hliðra 0,85% af skattskyldum tekjum lögaðila fram hjá tekjuskatti, ef upphæðin er notuð til kolefnisjöfnunar. Þar er átt við aðferðir svo sem skógrækt, uppgræðslu auðna og illa farins lands, endurheimt votlendis og dælingu koltvísýrings ofan í jarðlög þar sem hann myndar skaðlaust efnasamband (steind). Þetta eru ekki sjömílnaskref en mikilvæg engu að síður og merki þess að loftslagsmál eru unnin skilvirkt, þvert ofan í þvaður og rangfærslur um loftslagsmál. Þvert á afneitun óhæfra ráðamanna á alþjóðavísu.

Loftslagsbaráttan vinnst ekki nema ríki, jafnt og sveitarfélög sem fyrirtæki og almenningur, myndi lið. Þess vegna er Reykjavíkurborg aðili að Parísarsamningi fjölmargra borga og stórfyrirtækja og nýverið gerðist Akureyri og fleiri aðilar/stofnanir á Norðurlandi að samkomulagi og áætlun um aðgerðir til góðs. Þess vegna framleiðir bóndi metan á vélar úr úrgangi og útgerð fyrir sunnan skiptir svartolíu út fyrir minna mengandi eldsneyti.

Sjálfbærar auðlindanytjar og hringrásarhagskerfi er sú framtíðarsýn sem verður að vísa okkur veginn. Hefðbundinn hagvöxtur verður að víkja að hluta fyrir „grænum skilningi“ á framtíð manns á jörðinni. Við verðum að endurvinna a.m.k. 90% þess sem við notum og breyta bæði framleiðslu- og neysluháttum að ýmsu leyti. Margir vita þetta en fleiri þurfa að slást í hópinn og hjálpa til við að leysa feiknin öll af verkefnum.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG í Suðurkjördæmi

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search