PO
EN
Search
Close this search box.

Hið jákvæða í því neikvæða

Deildu 

Fjarvinnsla, fjarfundir, fjarvinna – allt er þetta orðið raunveruleiki margra síðustu mánuði vegna samkomubanns. Minn vinnustaður, Alþingi, hefur ekki farið varhluta af því þar sem að stór hluti starfsins fer nú fram á internetinu í stað hefðbundinna funda. Ég tel þetta vera jákvæða þróun að mörgu leyti, fundirnir alla jafna styttri og hnitmiðaðri. Margir þeirra sem koma fyrir nefndir Alþingis af landsbyggðinni hafa lengi kallað eftir betri tæknilausnum til að spara kostnað við að ferðast til Reykjavíkur á einn fund og svo heim samdægurs.

Ég vona að í framtíðinni eigi þetta eftir að halda sér í einhverri mynd enda gott að hafa slíka valkosti. Það væri heillaspor fyrir landsbyggðirnar og rennir stoðum undir það sem ég hef sagt í mörg ár, að störfum almennt og ekki síst hins opinbera er mörgum vel hægt að sinna án tiltekinnar staðsetningar. Fyrir þær stofnanir sem lengst voru komnar í þessari þróun hefur samkomubannið haft minni áhrif en þær sem börðust gegn straumi tímans. Það er ekki lögmál að stofnanir og störf á þeirra vegum þurfi allar að vera á suðvestur horninu. Í mörg ár þóttu fjarfundir og fjarvinna óyfirstíganleg hindrun í atvinnusköpun á landsbyggðinni. Mörgum þótti það óhugsandi að stofnanir gætu verið með dreifðar starfsstöðvar um landið. Þetta viðhorf hvarf á einni nóttu þegar allir þeir sem höfðu möguleika á voru skikkaðir til að vinna heima.

Ég var í bæjarstjórn þegar Ólafsfjörður og Siglufjörður sameinuðust í Fjallabyggð árið 2006 og þá voru engin Héðinsfjarðargöng. Allir nefndarfundir fóru fram í gegnum fjarfundabúnað sem þó var engu líkur því sem við höfum úr að moða í dag en gekk þó afskaplega vel. Þá sannfærðist ég endanlega um að fjarvinna þarf ekki að vera svo flókin. Auk þess hafa námsmenn í fjöldamörg ár stundað fjarnám af ýmsu tagi og gengið ágætlega.

Þá hefur fjarheilbrigðisþjónusta tekið risavaxið stökk úr því að vera langtímamarkmið í að vera veruleiki margra. Göngudeildin sem komið var á fót á ógnarskömmum tíma fyrir covid sjúklinga sinnir eftirliti að hluta til í gegnum síma og hefur þannig sinnt nauðsynlegri þjónustu án þess að auka á hættuna á frekari smiti og sinnir margfalt fleirum en með hefðbundnum hætti og á skemmri tíma. Notkun á netspjalli Heilsuveru hefur einnig aukist gríðarlega síðustu mánuði. Þetta eru atriði sem skipta miklu máli. Með tilkomu háhraðatenginga um allt land í gegnum ljósleiðara verður þetta möguleiki alls staðar. Þetta eykur möguleika bæði fyrir þau sem veita þjónustuna en ekki síst þeirra sem nýta hana. Ímyndum okkur hversu fljótlegra það er að fara í 15 mínútna heimsókn til læknis í gegnum snjalltæki í stað þess að fara á bílnum eða í strætó. Þessi tími er fljótur að safnast saman, sérstaklega þegar fólk býr í dreifbýli og þarf að ferðast um langan veg til að nálgast heilbrigðisþjónustu, sem á að vera aðgengileg fyrir alla. Ég hef trú á því að tæknin verði til þess að heilbrigðisþjónustan verði fjölbreyttari í dreifbýlinu þar sem oft hefur gengið illa að manna ýmsar stöður og margskonar þjónusta bara alls ekki til staðar.

Þó að áhrifin af þessum faraldri séu að nánast öllu leiti neikvæð, þá er mikilvægt að við lærum og nýtum okkur til framtíðar það sem er jákvætt. Tæknin hefur gjörbylt því hvernig hægt er að stunda skrifstofuvinnu og við þurfum að nýta tækifærin sem í því felast. Þetta mun einnig færa landsbyggðarþingmenn nær sínum heimaslóðum þar sem að hægt verður að sinna margs konar vinnu meira rafrænt. Þannig getum við þingmenn verið nær kjósendum okkar stærri hluta ársins, heimsóknir og samtöl bæði á gamla mátann en ekki síður yfir netið skipta miklu máli. Það er okkar stærsta lýðræðislega hlutverk og því mjög mikilvægt að við nýtum okkur tækni dagsins í dag til þess að sinna því sem best.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search