Í nóvember í fyrra boðaði ég til matvælaþings, fyrsta matvælaþings sem boðað hefur verið til hér á landi. Þar var umræðuefnið drög að matvælastefnu fyrir Ísland til 2040, og á þinginu komu saman fulltrúar þeirra margvíslegu hópa sem vinna að framleiðslu, sölu og dreifingu matvæla á Íslandi. Umræður og athugasemdir sem fram komu á þinginu nýttust við áframhaldandi vinnu við matvælastefnuna í ráðuneytinu. Stefnan var svo samþykkt á Alþingi í sumar.
Matvælastefnu er ætlað að vera leiðarstef í ákvarðanatöku, svo auka megi verðmætasköpun í innlendri matvælaframleiðslu, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru. Í stefnunni er framtíðarsýn í innlendri matvælaframleiðslu lýst þar sem meðal áherslumála eru fæðuöryggi, loftslagsmál og hringrásarhagkerfi.
Í ár verður boðað til annars matvælaþings þann 15. nóvember og umfjöllunarefni þingsins er hringrásarhagkerfið í samhengi við matvælastefnu. Meðal aðalmarkmiða matvælastefnu er að matvælaframleiðsla sem byggist á nýtingu lifandi auðlinda standist öll viðmið um sjálfbærni nýtingar og í stefnunni er líka kveðið á um það markmið að styðja hringrásarhagkerfið með rannsóknum og þróun, bæði í fullvinnslu og fullnýtingu afurða – auk þess sem fram kemur að stuðla skuli að minni matarsóun og minna kolefnisspori matvælaframleiðslu.
Gestafyrirlesararnir Ladeja Godina Košir frá Circular Change samtökunum í Slóveníu og Anne Pøhl Enevoldsen frá dönsku matvælastofnuninni munu flytja erindi á þinginu. Auk þess verða á dagskrá fjögur pallborð þar sem horft verður til verður á mismunandi stiga framleiðslukeðjunnar sem og tækifæra og áskorana sem tengjast hringrásarhagkerfinu á mismunandi stigum framleiðslunnar.
En af hverju skiptir máli að hugsa um hringrásarhagkerfið í samhengi við framleiðslu matvæla? Það skiptir máli því matvælaframleiðsla verður að byggja á gildum sjálfbærrar þróunar. Við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun að framleiða mat fyrir sístækkandi samfélag, eins og margar aðrar þjóðir heims, og því fara áhrif matvælaframleiðslu á loftslag, vistkerfi og náttúruauðlindir vaxandi. Þess vegna er grundvallaratriði að takmarka neikvæð áhrif matvælaframleiðslunnar á vistkerfi og loftslag eins og kostur er – og forsenda þess að við getum það er að við eflum hringrásarhagkerfið. Við þurfum að vinna markvisst að því að efla hringrásina, þ.e. viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er með það að markmiði að lágmarka auðlindanotkun og myndun úrgangs.
Það er ljóst að við verðum að stuðla að aukinni hringrás í matvælaframleiðslunni til þess að minnka álag á náttúruauðlindir, og ég vonast til þess að matvælaþing í ár verði mikilvægt innlegg í þá vinnu. Ég hlakka til matvælaþings og hvet öll til að skrá sig til þátttöku!
Grein mín, Hringrás í hverju skrefi, birtist í Morgunblaðinu í dag, 2. nóvember