Search
Close this search box.

Hringrásarhagkerfið – hvar stöndum við?

Deildu 

Ef við ætlum að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins þarf að hraða grænum umskiptum svo um munar. Umskiptin frá hefðbundnu, línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi er forsenda árangurs í loftslagsmálum og uppbyggingu lágkolefnissamfélags framtíðar. Margar skilgreiningar eru til á hringrásarhagkerfi, en í einföldu máli snýst það um að segja skilið við óþarfa sóun og endurhugsa neyslumunstur og framleiðslu með hringrásarhugsun að leiðarljósi. 

Þetta stóra verkefni felur í sér vinnu á mörgum fagsviðum, og krefst þátttöku og samvinnu milli ríkis og sveitafélaga, fyrirtækja og einstaklinga. Þótt nýsköpun, hugvit og þátttaka einkageirans skipti máli, þurfa stjórnvöld að leiða umskiptin með skýrum reglugerðum og innviðum sem hvetja til breytinga. Úrbætur á úrgangsmálum og ferlar sem breyta úrgangi í auðlind eru mikilvæg í þessu samhengi, en eru þó einungis hluti af þeim umfangsmiklu umskiptum sem hringrásarhagkerfi felur í sér. 80 prósent af umhverfisspori vöru er ákvörðuð þegar hún er hönnuð, svo það þarf í raun að endurhugsa alla framleiðslu og innviði út frá hringrásarsjónarmiði. 

Því þrátt fyrir aukna vitundarvakningu og breytingar á síðustu árum, fellur einungis 8,6 prósent hagkerfisins á hnattrænum grundvelli undir hringrásarhagkerfi og einungis 2,4 prósent af hagkerfi Noregs er í hringrás. Þó ekki séu til nákvæmar tölur um hringrás í íslensku hagkerfi, er ljóst að sóknarfærin eru gríðarleg og tækifærin til að brúa bilið mörg.

Miklar framfarir á kjörtímabilinu

Á liðnu kjörtímabili hafa verið tekin mörg mikilvæg skref sem marka stefnumótun í átt að hringrásarhagkerfi, með áherslu á að styðja framsæknar og fjármagnaðar aðgerðir í þágu sjálfbærni. Aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum endurspeglar þennan metnað, en samkvæmt henni munu að minnsta kosti 500 milljónir króna vera veittar til verkefna í þágu uppbyggingar hringrásarhagkerfisins. Aðgerðaráætlunin er mikilvægt tól í grænum umskiptum, og hefur að geyma 40 aðgerðir sem ná til meðal annars orkuskipta í samgöngum, matvælaframleiðslu, kolefnisförgun og landgræðslu. 

Alþingi samþykkti nýlega frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra um lögfestingu markmiða um kolefnishlutleysi Íslands fyrir árið 2040. Lagasetningin festir markmiðið í sessi óháð valdhöfum og skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis. Ný heildarstefna umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum Í átt að hringrásarhagkerfi var nýlega gefin út, en stefnan snýr að því að bæta endurvinnslu úrgangs, draga úr myndun hans með úrgangsforvörnum og draga stórlega úr urðun. 12 af 27 aðgerðum stefnunnar um meðhöndlun úrgangs voru lögfestar í frumvarpi sem lagt var fram af ráðherra á vorþingi. 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur almennt lagt mikla áherslu á að vinna með sveitafélögum og stofnunum og byggja innviði sem stuðla að sjálfbærni, og hefur meðal annars stutt verkefni sem vinna að framtíðarlausnum í úrgangsmálum sem koma í stað urðunar.

Leiðin áfram 

Þó margt hafi unnist á kjörtímabilinu eigum við enn langt í land til að skapa sjálfbært hagkerfi sem byggir heildrænni nálgun sem skapar jafnvægi milli samfélags, efnahags og náttúru. Það er margþættur ávinningur fólginn í því að draga úr kolefnislosun og minnka sóun. Velmegun til frambúðar er einungis möguleiki með sjálfbærari nýtingu auðlinda. Hringrásarhugsun þarf að fléttast inn í alla stefnumótun, og það eru tækifæri til að auka hringrás og sjálfbærni í flestum kimum atvinnulífsins. Ísland hefur sterkar forsendur til þess að vera frumkvöðull á þessu sviði, og á næsta kjörtímabili munum við þurfa að ganga enn lengra í því að flýta fyrir umbreytingu hagkerfisins. 

Höfundur er doktorsnemi í umhverfis- og þróunarfræði og í 3. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Reykjavík.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search