Search
Close this search box.

Hryllingurinn á Gaza

Deildu 

Heimsbyggðin og hvert og eitt okkar fylgist með vanmætti og sorg með þeim hörmungum sem nú eiga sér stað á Gaza-ströndinni. Gegndarlausar árásir á saklausa borgara undir því yfirskini að um sjálfsvörn sé að ræða eru löngu gengnar langt yfir öll þau mörk sem alþjóða- og mannúðarlög setja og eru einfaldlega óverjandi. 

Ísraelsk stjórnvöld bregðast á engan hátt við áköllum alþjóðasamfélagsins um að beina ekki árásum gegn almennum borgurum með þeim afleiðingum að fleiri en 15.000 Palestínubúar hafa verið myrtir, þar af fleiri en 6.000 börn. Skammvinnt vopnahlé hefur nú tekið enda og aftur er mannúðaraðstoð og eldsneyti haldið frá svæðinu. 

„Gegndarlausar árásir á saklausa borgara undir því yfirskini að um sjálfsvörn sé að ræða eru einfaldlega óverjandi.“

Ísland hefur talað skýrri röddu á alþjóðavettvangi og verður að halda því áfram og um leið afla málstaðnum fylgis. Krafan er um vopnahlé, rannsóknir á stríðsglæpum og að alþjóðalögum sé fylgt. Að endingu snýst þetta þó allt um að átökin verði stöðvuð, ekki tímabundið, heldur til frambúðar og leiðir fundnar til að leita sátta og koma á varanlegum friði á svæðinu.

Alþingi Íslendinga samþykkti, eitt fárra þjóðþinga, þingsályktun um stöðuna á Gaza þann 9. nóvember sl. Í henni er fjallað um að tafarlaust skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza, fordæmingu á hryðjuverkaárás Hamas og öllum aðgerðum ísraelskra stjórnvalda sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og valda óbærilegri þjáningu óbreyttra borgara á svæðinu. Á vef utanríkisráðuneytisins er vitnað í texta ályktunarinnar sem allir þingmenn greiddu atkvæði sitt með og hún sögð kristalla afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs

Í ályktun þingsins er ríkisstjórninni falið að beita sér fyrir aukinni mannúðaraðstoð til Gaza og fyrir rannsóknum á mögulegum stríðsglæpum. Ríkisstjórnin hefur gert hvort tveggja með því að auka framlög sín til mannúðaraðstoðar um 240 milljónir króna og kalla eftir rannsókn á stríðsglæpum hvarvetna á alþjóðavettvangi. Einnig hefur ríkisstjórnin aukið fjárframlög til Alþjóðlega sakamáladómstólsins til að stuðla enn frekar að því að stríðsglæpir verði rannsakaðir. Ályktun Alþingis hefur styrkt málflutning Íslands og til hennar verið vísað víða, m.a. í atkvæðagreiðslu UNESCO til ályktunar um neyðaraðstoð til Gaza. Þá hefur afstöðu íslenskra stjórnvalda ítrekað verið komið á framfæri við sendiherra Ísraels. 

Eins og í öllum stríðum eru fórnarlömb þessa hryllilega stríðs bara venjulegt fólk – og í mæli sem enginn getur nokkru sinni náð utan um eru það núna börn. Það er skylda okkar að halda áfram að beita þeim þrýstingi sem við getum, því að þrátt fyrir að vera ekki fjölmenn þjóð getum við áfram talað skýrt um okkar viðhorf og skoðanir. Með því að samþykkja Palestínu sem sjálfstætt ríki árið 2011 tókum við skýra afstöðu og með henni stöndum við. Komið hefur fram að Útlendingastofnun hefur samþykkt umsóknir 100 einstaklinga um fjölskyldusameiningar frá Palestínu frá því að stríðið hófst – nú þarf að tryggja að þau komist hingað heilu og höldnu og halda áfram að samþykkja slíkar umsóknir. 

Alþingi þarf einnig að taka til umfjöllunar og klára þingmál þingflokks Vinstri grænna um merkingar á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu. Þar vilja okkar þingmenn fela ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana og merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu á viðeigandi hátt. Þarna getum við öll lagt okkar að mörkum og sniðgengið vörur frá Ísrael.

Við erum einhuga um að þetta ástand er hryllilegra en orð fá lýst og að beita þurfi öllum ráðum til að friður komist á í Palestínu. Sama hve smá við erum á alþjóðavísu þá getum við öll gert eitthvað. Deilt á samfélagsmiðlum, mætt á mótmæli og samstöðufundi og styrkt málefnið svo eitthvað sé nefnt. Um leið verðum við að halda utan um, styðja og bjóða velkomin þau sem hingað leita að skjóli og friði.

Elín Björk Jónasdóttir og Hólmfríður Árnadóttir, stjórnarkonur í VG

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search