Search
Close this search box.

Hugrekki í húsnæðismálum

Deildu 

Reykjavík hefur staðið sig best allra sveitarfélaga í uppbyggingu óhagnaðardrifins húsnæðis fyrir leigjendur verkalýðsfélaga og félagsbústaða, eldra fólk, stúdenta, og fatlað fólk. Næstu ár verða engin undantekning miðað við áætlanir núverandi meirihluta. Þrátt fyrir það eru of margir í vandræðum á húsnæðismarkaði. Valkostir eru fáir, almennur leigumarkaður ótryggur og húsnæði of dýrt á meðan í nágrannalöndum okkar er meiri fjölbreytni leiguíbúða, búsetuíbúða og eignaíbúða sem íbúar geta flakkað á milli eftir þörfum.

Stjórnvöld eiga að bregðast við þessu og finna leiðir til að gera betur svo hér verði til öruggur og stöðugur húsnæðismarkaður, þar sem heimili fólks kostar ekki 70% af ráðstöfunartekjum þess. Hinn „frjálsi markaður“ hefur fengið sitt tækifæri og mistekist. Hér eru tækifæri til að ganga lengra.

Vinstri græn í Reykjavík vilja að hið opinbera fari nýjar leiðir til að skapa aðgengilegan, öruggan og stöðugan húsnæðismarkað. Við ætlum því að leggja áherslu á að Reykjavíkurborg stígi inn sem öflugt hreyfiafl á húsnæðismarkaði og hafi þannig bein áhrif á húsnæðisuppbyggingu strax í dag og til framtíðar.

Við viljum að Reykjavíkurborg byggi sjálf húsnæði og leigi til íbúa á viðráðanlegu verði. Markmiðið verður að byggja 500-1.000, bjartar, umhverfisvænar og óhagnaðardrifnar leiguíbúðir á ári sem bætast við fyrirliggjandi húsnæðisáætlanir Bjargs, Búseta, Stúdenta o.fl. Húsnæðið myndi standa öllum Reykvíkingum til boða og tæki leiga mið af tekjum þeirra. Fyrirkomulagið er vel þekkt erlendis, t.d. í Helsinki og Vínarborg sem oftar en ekki eru taldar vera lífvænlegustu borgir í heimi.

Ég hef trú á því að þetta sé hægt og ætlum við Vinstri græn að beita okkur fyrir því borgin taki húsnæðismálin enn fastari tökum, geri ríkari kröfur til verktaka og tryggi að byggt sé á lóðum sem er úthlutað. Íbúar eiga að geta valið um hvort þeir kaupi, leigi, eignist búseturétt eða flakki á milli eftir því hvað hentar hverju sinni og hvar fólk er statt í lífinu.

Hlutverki borgarinnar í húsnæðismálum lýkur aldrei en það er orðið ljóst að hún þarf að gera meira. Þar kemur til kasta okkar Vinstri grænna fáum við aukið vægi 14. maí því við ætlum að ganga lengra.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search