Við Vinstri græn lögðum nauðsynlegan grunn að framförum í loftslagsmálum á kjörtímabilinu eftir pólitískan doða áranna á undan. En við viljum taka stærri skref og hlaupa hraðar til að ná enn frekari árangri. Nýlega kynntu Ungir umhverfissinnar Sólina, einkunnir fyrir stefnur stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum. Stefna VG fékk næsthæstu einkunn allra flokka. Einungis munaði 0,9 stigum á fyrsta og öðru sætinu. Atkvæði greitt VG er atkvæði greitt árangri í loftslagsmálum með náttúruvernd í öndvegi. Það höfum við sýnt. Við í VG sjáum tækifærin sem felast í breyttum heimi með lágkolefnishagkerfi, sterku hringrásarhagkerfi, grænum störfum og loftslagsvænni nýsköpun.
VG vill að Ísland setji sér sjálfstætt markmið um samdrátt í losun um að minnsta kosti 60% árið 2030 og að landið verði óháð jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi árið 2045. Við viljum að umskiptin yfir í grænt hagkerfi verði réttlát og sanngjörn. Við viljum banna olíuleit og olíuvinnslu við Ísland og efla almenningssamgöngur og hjólreiðar. Við viljum tryggja sjálfbæra nýtingu lands og halda áfram að efla endurheimt votlendis, því þannig getum við dregið stórkostlega úr losun Íslands. Við viljum auka landgræðslu og skógrækt enn frekar og binda þannig meira kolefni úr andrúmsloftinu.
Á kjörtímabilinu höfum við snúið blaðinu við í loftslagsmálum og lagt grunn að loftslagsvænni framtíð með fjölda aðgerða. Munurinn á Vinstri grænum og öðrum stjórnmálaflokkum þegar kemur að umhverfismálum er sá að við munum eftir náttúruverndinni. Við viljum ná orkuskiptum í öllum geirum án þess að ráðast í óásættanlegar fórnir á stórbrotinni náttúru Íslands. Án inngripsmikilla virkjana sem skerða víðerni og sökkva landi. Og það er vel hægt. Hægri- og miðjuflokkar gefa að venju lítið fyrir náttúruverndina og minna hefur heyrst frá öðrum flokkum vinstra megin í pólitík hvað hana varðar.
VG boðar aukinn metnað og hugrekki til að takast áfram á við loftslagsmálin af krafti með náttúruvernd í öndvegi. Það skiptir máli hver stjórnar.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra skipar 1. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi