Search
Close this search box.

Hugsum ferðaþjónustuna upp á nýtt

Rósa Björk

Deildu 

Það er hásumar og bjartra daga og langra nátta ber að njóta vel. Eflaust er sumarið líka langþráður léttir hjá mörgum eftir heimsfaraldur sem tekist hefur vel að glíma við hér á landi, en er því miður enn í vexti í öðrum löndum.

En kannski líka er einstaklega gott að njóta sumardægra og nátta, þegar við vitum af afleiðingum faraldursins á komandi hausti og vetri. Við sjáum því miður fram á áframhaldandi hátt hlutfall atvinnulausra og enn meiri efnahagssamdrátt. Spáð er einni dýpstu efnahagskreppu á heimsvísu á friðartímum og nýlega uppfærð efnahagsspá OECD spáir mun verri stöðu efnahagsmála á Íslandi en áður var talið. Við þess konar aðstæður skipta viðbrögð, sýn og stefna öllu máli.

Endurhugsum og endurmetum ferðaþjónustuna

Stóra greinin sem við verðum að koma með skýr viðbrögð og stefnu við COVID-19 er ein af grunnatvinnugreinum okkar; ferðaþjónustan. Sem stóð árið 2018 fyrir 11% af vergri landsframleiðslu og tugir þúsunda manna hafa starfað við undanfarin ár. Greinin var því miður veik fyrir svona risa-áfalli. Hún var skuldsettasta atvinnugrein landsins fyrir heimsfaraldurinn og var ekki byggð á nægilega sjálfbærum grunni sem sást í of háu hlutfalli greinarinnar af efnahagsreikningi ríkissjóðs. Atvinnuleysi hafði aukist í greininni fyrir COVID-19 en ekki bólaði á neinum skýrum viðbrögðum stjórnvalda við þeirri stöðu.

Það voru líka vonbrigði þegar ráðherra ferðamála lýsti því yfir í svari sínu við óundirbúinni fyrirspurn í vor á Alþingi um framtíðarsýn á ferðaþjónustuna, þrátt fyrir mikinn vilja til að byggja ferðaþjónustuna upp á nýtt að „við værum ekki að fara að breyta um neinn kúrs þegar kemur að stefnuramma og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030“.

Nú er nefnilega tækifærið til að byggja upp ferðaþjónustuna upp á nýtt með breyttum kúrsi.

Uppgangur ferðaþjónustunnar eftir hrun var okkur nauðsynleg efnahagsleg viðspyrna, en ekki átakalaust eða án vaxtarverkja. Of mikill ágangur á náttúru, of mikil skuldsetning, dökkar og slæmar vinnuaðstæður starfsfólks í greininni og áætlanir byggðar á of veikum grunni voru veiku hliðar ferðaþjónustunnar en á móti hefur ferðaþjónustan á Íslandi líka þroskast mjög á stuttum tíma og þjónustan orðið betri og verðmætari.

Tækifærin eru fjölmörg – á réttum forsendum

Aðstæðurnar sem blasa nú við færa okkur sögulegt tækifæri til að gera hlutina betur en fyrr. Að staldra við og ákveða með hvaða hætti við viljum vinna gegn atvinnuleysinu og efnahagssamdrættinum, sem hefur komið í ljós og mun verða verri, en um leið takast á við langstærstu ógn okkar tíma, loftlagsbreytingar. Þá er lag að við byggjum upp atvinnugrein eins og ferðaþjónustuna á sjálfbærum grunni og með grænum, umhverfisvænum áherslum. Með sjálfbærum rekstri og að greinin grundvallist utan um umhverfisvernd og ábyrga náttúruupplifun. Ekki leggja ofuráherslu á að allt verði eins og áður, að hingað komi aftur sem fyrst alltof mikill fjölda ferðamanna og að ágangur og álag á bæði náttúru og innviði verði of mikill.

Aðalaðdráttarafl Íslands er íslensk náttúra sem er kannski enn verðmætari í breyttum heimi þegar við höfum fengið tækifæri til að nema staðar og endurmeta umhverfi okkar og heilsu. Náttúru landsins ber að verja og vernda fyrir hvers kyns ágangi, en um leið tryggja að við getum öll uppgötvað hana og sýnt öðrum á ábyrgan hátt af virðingu og með umhyggju.

Samfélagsleg áhrif ferðaþjónustunnar á byggð, líf og atvinnutækifæri fólks þarf að skoða, rannsaka og meta enn meir, sem og ruðningsáhrif hennar á aðrar greinar. Mennta þarf fleira fólk inn í greinina og búa til alvöru menntastefnu utan um ferðaþjónustuna, því þannig skapast verðmæti til framtíðar í stað þess að halda áfram að byggja upp ferðaþjónustu á erfiðum láglaunastörfum á vertíðar-takti. Við höfum líka tækin og tólin til að nýta til að endurhugsa hlutina upp á nýtt í ferðaþjónustunni; ný skýrsla, sem nefnist „Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030“, var unnin í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og greinarinnar og leggur grunninn að nýrri aðgerðaáætlun 2020-2025 sem er nú í vinnslu. Þá aðgerðaáætlun þarf að endurmeta upp á nýtt. Hæfnisetur ferðaþjónustunnar var stofnað árið 2017 sem er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni og fagmennsku starfsfólks í ferðaþjónustu á Íslandi að ónefndu gæða- og umhverfiskerfinu Vakanum.

Byggjum upp endurnýjaða stefnu og sýn ferðaþjónustunnar til framtíðar, út frá þeirri reynslu sem heimsbyggðin hefur gengið í gegnum undanfarna mánuði. Ekki á ofvexti og of miklum ágangi, ekki á ofurskuldsetningu og freistnivanda um að allt eigi að vera eins og fyrir COVID-19. Skammtímalausnir og óbreytt stefna er nefnilega ekki málið. Heldur skýr, græn framtíðarsýn sem býr til sjálfbær atvinnutækifæri til framtíðar.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, alþingismaður.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search