Ríkisstjórnin setti sér þau markmið í stjórnarsáttmála að beita sér fyrir umbótum í húsnæðismálum og bæta aðgengi að öruggu húsnæði, m.a. með uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Það var gert í ljósi þess að þróunin hafði verið sú að afar erfitt ástand hafði skapast á leigumarkaði og miklar hindranir stóðu í vegi þeirra sem vildu komast af leigumarkaði og inn á séreignamarkaðinn. Biðlistar í félagslega reknar leiguíbúðir voru langir og ljóst að allt of stór hópur almennings hefur þurft að verja gríðarlega stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í húsnæðiskostnað. Þá lagði verkalýðshreyfingin mikla áherslu á umbætur í húsnæðismálum í aðdraganda kjarasamninga. Það var því mikilvægt að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins náðu saman á síðasta ári um hefja umfangsmikla vinnu við að greina stöðu húsnæðismála, leggja til úrbætur og skipuleggja aðgerðir.
Samvinna skilaði umfangsmiklum tillögum til úrbóta
Fyrstu afurðir þessarar vinnu voru tillögur tveggja hópa. Annars vegar var átakshópur um húsnæðismál sem greindi húsnæðismarkaðinn og lagði fram 40 tillögur að úrbótum og aðgerðum. Hins vegar hópur sem greindi stöðu ungs fólks og tekjulágra sem stóðu frammi fyrir sínum fyrstu fasteignakaupum og lagði fram tillögur að úrbótum og aðgerðum um hvernig unnt væri að greiða leið þeirra inn á fasteignamarkaðinn. Óhætt er að fullyrða að aldrei hafi áður legið fyrir jafn ítarleg greining um stöðuna í húsnæðismálum ásamt tillögum að úrbótum. Þessi vinna skilaði því að tillögur að úrbótum í húsnæðismálum urðu fyrirferðarmiklar í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningum. Þar er m.a. kveðið á um uppbyggingu 1.800 félagslegra íbúða í gegnum stofnframlög, innleiðingu hlutdeildarlána fyrir ungt fólk og tekjulága, endurskoðun húsaleigulaga til að bæta réttarstöðu leigjenda, framlengingu úrræðis um að hægt sé að ráðstafa séreignarsparnaði inn á íbúðalán, fyrstu skrefin í átt að afnámi verðtryggingar og að hægt verði að nýta tilgreinda séreign lífeyrisiðgjaldsins til húsnæðiskaupa.
Farsæl hagstjórn grunnur að jákvæðri þróun á húsnæðismarkaði
Þó að beinar úrbótaaðgerðir séu nauðsynlegar til að lagfæra stöðu húsnæðismála er farsæl hagstjórn ekki síður mikilvæg og þar hefur tekist vel til á undanförnum árum þrátt fyrir ýmsar áskoranir.
Þegar staðan á húsnæðismarkaði er skoðuð þá birtast skýr merki um að farsæl hagstjórn sé farin að leiða til jákvæðrar þróunar. Frá því að kjarasamningar voru undirritaðir hefur Seðlabanki Íslands lækkað meginvexti sína um 1,5 prósentustig og hafa þeir aldrei verið lægri. Þetta hefur skilað sér í því að vextir á óverðtryggðum lánum hjá lífeyrissjóðum og bönkum hafa lækkað. Þessi góða staða skiptir sköpum og léttir greiðslubyrði margra heimila um hver mánaðamót. Á sama tíma hefur hægt á hækkun húsnæðisverðs. Á fyrstu átta mánuðum ársins mælist hækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu 0,5%, í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins er hækkunin 4,6% og annars staðar á landsbyggðinni 3,7%. Samanborið við hin miklu stökk í hækkun húsnæðisverðs á undanförnum árum virðist ákveðið jafnvægi vera að nást á húsnæðismarkaði.
Þó að húsnæðisverð hafi hækkað mikið undanfarin tíu ár erum við nú þegar farin að sjá jákvæða þróun hjá fyrstu kaupendum. Á öðrum fjórðungi þessa árs voru 27,7% af öllum íbúðakaupum fyrstu kaup sem er hæsta hlutfall síðan mælingar hófust árið 2008 en þá var hlutfallið 7,5%. Vísbendingar eru um að ýmsar aðgerðir hins opinbera auk kaupmáttaraukningar hafi vegið þungt í að hlutfall fyrstu kaupenda hefur hækkað nokkuð stöðugt frá árinu 2009.
Áskoranir til staðar
Þegar litið er til leigumarkaðarins blasa við okkur áskoranir. Leiguverð hefur haldið áfram að hækka umfram verðlag, árshækkun á höfuðborgarsvæðinu var 5,2% á meðan verðlag hækkaði um 3%. Engin breyting hefur orðið á hlutfalli leigjenda sem telja ólíklegt að þeir muni kaupa sér fasteign (92%) þó að nú séu vextir í sögulegu lágmarki. Hægt er að draga ýmsar ályktanir af því en ein af þeim hlýtur að vera að ótryggt ástand á leigumarkaði undanfarin ár ásamt miklum hækkunum á leiguverði skapi slíkt umhverfi að fólk sjái leiguhúsnæði ekki sem færan kost til framtíðar. Hér skiptir uppbygging félagslegs íbúðakerfis miklu máli þannig að fleiri geti nýtt sér langtímaleiguhúsnæði með sanngjarnri leigu. Einnig bind ég vonir við að þegar aðgerðir sem kynntar voru í vor til að greiða leið ungs fólks og tekjulágra inn á fasteignamarkaðinn hafa verið útfærðar og komnar til framkvæmda verði það til þess að bæta þessa stöðu.
Næstu skref
Það er ljóst að farsæl hagstjórn og aðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hafa þegar orðið til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði og skapa aukið húsnæðisöryggi. Vinnunni er ekki lokið þótt hún sé hafin og hafi þegar skilað árangri. Frumvörp um margar þeirra aðgerða sem ég hef talið upp hér að framan hafa verið eða verða lögð fram af ríkisstjórninni í vetur. Félags- og barnamálaráðherra hefur þegar mælt fyrir frumvarpi um nýja Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og mun á komandi vikum kynna frekari þingmál. Aðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hafa þegar orðið til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði og skapa aukið húsnæðisöryggi. Betur má ef duga skal en fyrstu skrefin lofa góðu og allar aðstæður til að ná árangri eru fyrir hendi.
Það skiptir okkur öll máli að eiga heimili. Þak yfir höfuðið er hluti af því að búa við öryggi og því eru húsnæðismál órjúfanlegur hluti af velferðarsamfélaginu sem við viljum byggja upp hér á landi.
Katrín Jakobsdóttir