Search
Close this search box.

Hvað VG hefur gert í loftslagsmálum? 

Deildu 

Kópernikusar miðstöðin – loftslagsmiðstöð Evrópusambandsins gaf á dögunum út frétt um ástand lofthjúpsins árið 2023. Skemmst er frá því að segja að árið var það hlýjasta frá upphafi mælinga og mældist meðalhiti jarðar 1.48°C umfram meðaltals hitastigs jarðar fyrir iðnbyltingu. Þessar fréttir koma því miður ekki á óvart og segja okkur að þrátt fyrir fögur fyrirheit þjóða heims, sem síðast ályktuðu á COP28 í Dubaí í desember, ganga aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum af mannavöldum allt of hægt. Of lítið er að gert til að koma í veg fyrir það mikla tjón sem viðbúið er að verði á öllu lífhvolfinu ef fram fer sem horfir. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur alltaf lagt höfuðáherslu á umhverfis og loftslagsmál. Í ráðherratíð Svandísar Svavarsdóttur sem umhverfisráðherra voru fyrstu loftslagslögin sett (2012) og þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson tók við sama ráðuneyti 2017 fyrir hönd VG var fyrsta fjármagnaða aðgerðaráætlun stjórnvalda sett fram. Að auki var Loftslagsráð skipað og ráðherranefnd um loftslagsmál komið á fót, svo fátt eitt sé nefnt. Markvisst var unnið að því að snúa við blaðinu í loftslagsmálum eftir langan pólitískan doða en því miður má segja að eftir útgáfu Aðgerðaáætlunar 2020 og eftir ráðherratíð VG hafi aftur orðið kyrrstaða í málaflokknum.

Í ráðherratíð Guðmundar Inga (2017 – 2021) var mikil áhersla lögð á loftlagsmál. Bein framlög til loftslagsmála voru aukin um meira en 700% og stjórnsýsla málaflokksins var styrkt. Ráðist var í fjölda aðgerða á grunni áðurnefndrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, landgræðsla stóraukin sem og skógrækt og endurheimt votlendis um leið og sett voru fram ný og efld markmið um samdrátt í losun. Þá var svartolía bönnuð innan landhelgi Íslands, lög um hringrásarhagkerfi litu dagsins ljós og aðgerðaáætlun í plastmálum var sett af stað.

Loftslagsráð sem stofnað var árið 2018 sækir umboð sitt til laga um loftslagsmál nr. 70/2012 sem sett voru í ráðherratíð Svandísar Svavarsdóttur (2009 – 2013). Hlutverk þess er að veita stjórnvöldum aðhald með markvissri ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi og standa fyrir fræðslu og miðlun upplýsinga um loftslagsmál til almennings.

Loftslagssjóður fyrir nýsköpun og fræðslu var settur á fót árið 2019 til þess að efla fræðslu- og nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og hafa tugir verkefna hlotið styrki. Sem dæmi um verkefni sem Loftslagssjóður hefur styrkt má nefna þróun smátækja til að mæla losun koltvísýrings úr jarðvegi, rannsóknir á umhverfisvænum arftaka sements, þróun smáforrits gegn matarsóun og gerð útvarpsþátta, sjónvarpsþátta og vefsíða. 

Mikilvægt skref var stigið við stofnun Grænvangs árið 2019, sem er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs þar sem stefnt er að kolefnishlutleysi allra atvinnugreina með því að stuðla að framþróun í loftslagsmálum og grænum lausnum. Einnig ýtti ráðherra VG loftslagsvænum landbúnaði úr vör sem var markvert þar sem grasrótarnálgun stækkar verkfærakistuna til að ná markmiðum landbúnaðarins um kolefnishlutleysi. 

Lög um hringrásarhagkerfi sem samþykkt voru 2021 hafa það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, vinna að kolefnishlutleysi Íslands og auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu og um leið draga úr urðun og hætta alfarið urðun lífbrjótanlegs úrgangs.

Stórátaki í friðlýsingum náttúruminja var hrint úr vör í ráðherratíð Guðmundar Inga og stefna um samþykki fyrir nýtingu lands og landsréttinda í þjóðlendum var samþykkt árið 2019. Allt mikilvægir liðir í að ramma inn og samræma uppbyggingu mannvirkja og samgangna vegna aukinnar ferðaþjónustu og útivistar sem dæmi, þar sem reynir á sjónarmið um vernd víðerna og hvernig landnýtingu innan þjóðlendna er hagað.

Orkumálin eru tíðrædd og nú á tímum orkuskipta mikilvægt að næg orka sé til svo hægt verði að halda áfram á þeirri braut. Þar hefur sannarlega ekki verið setið auðum höndum og þó við framleiðum mesta allra þjóða af raforku eru stöðugt uppi háværar raddir um að það sé ekki nóg, heldur vill mikill meira. Eru þessar raddir að tjá orkuþörf þjóðarinnar eða er verið að horfa til erlends markaðar og samkeppni?

Áður en farið er af stað með meira kappi en forsjá er mikilvægt að taka stöðuna og greina orkuþörf og flutning raforku um leið og forgangsraða þarf orku á þann hátt að heimilin séu í forgangi. Gæta þarf hagsmuna almenning og heimila í landinu með jöfnuð og hófsemi að leiðarljósi auk þess sem huga þarf að jafnvægi manns og náttúru með komandi kynslóðir í huga. Orkan er nefnilega sameiginleg auðlind þjóðarinnar sem á að nýtast okkur öllum á sem hagstæðustu verði. Þar er aldeilis ekki skynsamlegt að framleiða stöðugt meira náttúrunni okkar og umhverfi til skaða, heldur verður að staldra við og leggja allt kapp á að nýta betur aflið frá þeim auðlindum sem þegar hafa verið virkjaðar. Um leið þarf að skilgreina í hvað orkan fer og bæta flutningsleiðir hennar. Þá fyrst verður hægt að fara skynsamlega af stað í næstu skref. 

Margt hefur gerst í umhverfis og loftslagsmálum síðustu fimmtán árin og ekki síður í raforkumálum að halda öðru fram er vanþekking á málaflokknum. Sem dæmi má nefna Búðarhálsvirkjun sem gangsett var fyrir tæpum 10 árum og framleiðir um 595GWst á ári. Þá var stækkun Búrfellsvirkjunar tekin í notkun 2018 og jók rekstraröryggi og sveigjanleika raforkukerfisins og orkugetu um allt að 300GWst. Jarðavarmavirkjun á Þeistareykjum var gangsett 2017 með framleiðslu upp á 738GWst á ári og stækkun Reykjanesvirkjunar, sem lauk árið 2023, jók framleiðslugetu hennar og er ársframleiðsla hennar því 830GWst á ári. Brúarvirkjun í Tungufljóti var sett af stað árið 2020 með framleiðslugetu upp á 82,5GWst og stækkun Hellisheiðarvirkjunar sama ár jók framleiðslugetu hennar í 2.300GWst á ári. Á vakt VG voru rammaáætlanir unnar og samþykktar og í júní 2022 samþykkti Alþingi  3. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu landsvæða, sem unnin var á árunum 2017-2021. 

Að ofantöldu má sjá að Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur ekki látið sitt eftir liggja í umhverfismálum síðustu ár heldur stuðlað að framþróun með verðmæti náttúrunnar að leiðarljósi. Það hefur VG ekki síst gert með því að gæta að hófsamri nýtingu náttúrunnar til orkuöflunar á meðan að aðrir flokkar hafa flestir verið með stöðugan áróður um orkuskort. Okkur hefur verið falið að gæta náttúrunnar með öllum hennar víðernum, fossum, jöklum, jarðhitasvæðum og einstökum jarðmyndunum. Náttúra landsins er einstök og eftirsóknarverð. Sá mikli fjöldi ferðamanna sem heimsækir landið til að upplifa hana er vitnisburður þess. Eigum við að fórna henni fyrir allar hugmyndir, stórar og smáar, sem ekki miða að því að mæta loftslagsmarkmiðum okkar?  

Álfhildur Leifsdóttir, oddviti VG og óháðra í Skagafirði og Hólmfríður Árnadóttir, oddviti VG Suðurkjördæmi. Höfundar sitja einnig í stjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search