Search
Close this search box.

Hvernig bætum við þjónustu við eldra fólk

Deildu 

Nú kynni að vera freistandi að svara með einföldum hætti. En þjónusta við fólk er ekki einföld, sérstaklega ekki þjónusta við jafn fjölbreyttan hóp og fólk á efri árum er. Þjónustu módel samfélagsins hafa hins vegar gengið út frá því að allir vilji, eða sætti sig við sams konar þjónustu.
En nútímafólk er ekki þannig, hvorki það yngra eða eldra. Fólk hefur mismunandi þarfir, væntingar og þrár, og aðstæður geta verið mismunandi frá einum til annars. Heilsa fólks og færni gerir svo að verkum að þörf fyrir þjónustu getur verið breytileg, bæði milli manna og frá einum tíma til annars. Aðstæður aðstandenda geta svo verið breytilegar og það er líka mikilvægt að taka tillit til þess.

Þjónusta á forsendum notenda

Ef við byrjum á að ákveða að þjónustan eigi alltaf að vera á forsendum notenda komumst við býsna langt.  Ekki bara í því að gera þjónustuna betri, heldur líka í því að horfast í augu við ofangreindar staðreyndir um fjölbreytileika. Með þjónustu sem gerir ráð fyrir mismunandi eiginleikum og þörfum fólks, að fólk hafi þessa eiginleika og þarfir líka á kvöldin og um helgar, getum við enn bætt um betur.

Breytingar sem kalla á heimaþjónustu, dagþjálfun og heimahjúkrun í meira mæli alla daga og öll kvöld ársins þurfa ekki að vera dýrar. En þær krefjast hugarfarsbreytingar.  Þær krefjast þess að við mætum fólki á þess eigin forsendum.  Þær krefjast þess líka að ríki og sveitarfélög vinni í meira mæli saman að mótun þjónustu.

Það dreymir enga um að flytja á stofnun

Við höfum fyrirmyndir víða að um breytt þjónustumódel fyrir eldra fólk. Rannsóknir á Norðurlöndunum, í Kanada og víðar hafa sýnt að þegar fólki finnst að það hafi raunverulegt val um að vera lengur heima þá velur það þann kost. Það dreymir enga um að flytja á stofnun.
Við Vinstri Græn fögnum fjölbreytileikanum sem einum helsta styrk samfélagsins.  Látum drauma um betri þjónustu, á forsendum eldra fólksins sjálfs rætast.

Ólafur Þór Gunnarsson, öldrunarlæknir og alþingismaður skipar 3. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi
Þóra Elfa Björnsson, setjari og fyrrv. framhaldsskólakennari skipar 5. sæti á lista VG í Suðvesturkjördæmi

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search