EN
PO
Search
Close this search box.

Í kapp við tímann

Deildu 

Við lesum um sérfræðinga sem skrá fljótt og vel fornleifar í fyrisjáanlegum vegi nýja hraunsins á Reykjanesskaga. Það eitt mun ekki vera nema minnsta mögulega aðgerð til að bjarga því sem bjargað verður frá gleymsku.

   Fáir efast um gildi fornleifa og fornleifarannsókna. Þorri fólks sýnir þeim áhuga. Gamlar minjar eru hluti menningararfsins. Þær eru einn af lyklunum að þeirri fortíð sem geymir bæði aukinn skilning á menningu nútímans og á innri gerð samfélagsins. En okkur er vandi á höndum því landið er stórt í hlutfalli við mannfjölda og vitað er um a.m.k. 130 þúsund fornleifastaði sem þurfa skráningar við.

   Svokölluð aðalskráning er fyrsta skref að frekari vinnu við minjar og einnig forsenda skipulagsvinnu sveitarfélaga. Sú skráning er löngu hafin en staðan mjög misjöfn eftir hvar á landinu gripið er niður. Að lokinni aðalskráningu er gerlegt að rannsaka valdar minjar eftir efnum og ástæðum. Hitt er svo augljóst að aðeins er unnt er að kanna eða þaulskoða brot af fornleifum landsins. Sumar kunna að breyta, eða hafa breytt, skilningi á mikilvægum þáttum sögunnar eftir ítarlegar rannsóknir. Meginhlutinn er og verður þó vel geymdur eða missýnilegur í því ástandi sem hann er.

   Rof og veðrun á landi og við sjávarsíðuna eru ein helsta ógnin við fornleifar, þar næst jarðeldur og t.d. óundirbúið jarðrask vegna framkvæmda. Jafnt Minjastofnun sem sérfræðingar benda ítrekað á að hraða verði aðalskráningu fornleifa. Jarðvegsrof, sand- og gjóskufok og hækkun sjávarborðs vegna loftslagsbreytinga eru ferli sem sækja hratt á. Við blasir að átaks er þörf á næstu árum. Minjastofnun býr yfir 5 ára áætlun í þessum efnum.

Hún gæti kostað samfélagið um 250 milljón krónur.

Ég hvet ríkisstofnanir, Alþingi, sveitarfélög, fyrirtæki og almenning til að taka höndum saman og fjármagna slíka áætlun og efla þar með þá Minjavefsjá sem byggir á síbættri skráningu fornleifa um allt land. Það væri skemmtilegt og ögrandi verkefni í uppsveiflunni eftir faraldurinn leiða.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search