Search
Close this search box.

Í upp­hafi þing­vetrar

Deildu 

 

Við upphaf nýs þingvetrar er að mörgu að hyggja, bæði hér heimafyrir og á alþjóðavísu. Efnahagsmálin munu koma til að vega þungt. Það er nauðsynlegt að ná tökum á verðbólgunni. Sem betur fer er atvinnuástand gott og allar mælingar sýna að heimilin standa almennt vel. Kjör þeirra sem hafa lágar upphæðir sér til framfærslu þarf hins vegar að halda áfram að bæta og meðan við glímum við verðbólgu er nauðsynlegt að halda áfram að styðja við þau sem minnsta svigrúmið hafa til að mæta henni. Nauðsynlegt er að halda áfram að efla velferðarkerfið og alla almannaþjónustu. Nú þegar er farinn að sjást árangur af félagslegum áherslum stjórnvalda í húsnæðismálum en betur má ef duga skal og enn frekari uppbygging er fram undan.

Vegið hefur verið að réttindum kvenna og hinseginfólks víða erlendis. Niðrandi og hatursfull ummæli hafa einnig aukist hér heima. Á komandi þingvetri er mikilvægt að standa vörð um mannréttindi og hafa kynjagleraugun á í öllum málum og allri vinnu. Það eru hörmungar víða vegna stríðsátaka. Það sem er næst okkur er innrásarstríð Rússlands í Úkraínu. Við þurfum að leggja okkar af mörkum með mannúðaraðstoð og taka vel á móti fólki á flótta.

Loftslagsmálin verða að vera í brennidepli á komandi þingvetri. Við sáum í sumar hvernig áhrifa þeirra er farið að gæta úti í heimi með miklum hitum og hamfaraflóðum. Hér á Íslandi þurfum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og það gerum við með grænum umskiptum. Náttúruvernd er að sama skapi mikilvæg og við verðum að leggja áherslu á og standa vörð um líffræðilega fjölbreytni. Á Alþingi verðum við að flétta græna og lofslagsvæna hugsun inn í alla okkar ákvörðunartöku. Það sama gildir um atvinnulífið. Umskiptin verða jafnframt að vera réttlát og í almannaþágu.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG í Reykjavíkurkjördæmi Norður.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search