Search
Close this search box.

Iðnbylting fyrir okkur öll

Deildu 

Líklega hefði frægasta ástarsaga sögunnar aldrei orðið til ef öll tækni samtímans hefði verið komin fram á þeim tíma. Augljóslega áttu Rómeó og Júlía ekki samleið, þau hefðu örugglega ekki lækað sömu hlutina á samfélagsmiðlum og þau hefðu ábyggilega haft gjörólíkan prófíl. En Rómeó og Júlía gátu ekki leitað til algríms um hvaða maki hentaði þeim og því urðu þau ástfangin með tilheyrandi óhamingju og dauða. Framtíð sem líklega er handan við hornið mun hins vegar bjóða fólki að geta leitað til margs konar algríma og fengið það útreiknað með hjálp gervigreindar hvaða maki hentar í raun og veru. Minni dauði, minni óhamingja … en kannski ekki eins góðar ástarsögur.

Um þessa möguleika fjallar Yuval Noah Harari í bók sinni Homo Deus þar sem hann fer yfir möguleg áhrif tæknibyltingarinnar á mannkynið. En tæknin mun ekki einungis geta haft áhrif á ástina. Ný skýrsla nefndar forsætisráðuneytisins um fjórðu iðnbyltinguna sýnir að tæknibreytingar munu hafa umtalsverð áhrif á íslenskan vinnumarkað og samfélag. Ákvarðanir stjórnvalda munu skipta verulega máli til að tryggja að ávinningur tæknibreytinga skili sér til allra með réttlátum hætti, auki jöfnuð og um leið hagsæld samfélagsins.

Í skýrslunni kemur fram að nefndin hafi fengið aðstoð frá Hagstofu Íslands við að reikna út möguleg áhrif sjálfvirknivæðingar á grundvelli aðferðafræði OECD. Þær niðurstöður sýna að á Íslandi eru miklar líkur á að um 28% íslensks vinnumarkaðar verði fyrir verulegum breytingum eða að störf hverfi alveg vegna sjálfvirknivæðingar. Þessu hlutfalli svipar til áætlaðra áhrifa tækniframfara annars staðar á Norðurlöndunum. Einnig er því spáð að 58% starfa taki talsverðum breytingum vegna áhrifa tækni en aðeins 14% starfa breytist lítið. Út frá þessari spá er líka hægt að sjá að breytingarnar snerta ólíka hópa með ólíkum hætti, til dæmis er því spáð að karlar verði fyrir meiri áhrifum en konur.

Þá kemur einnig fram að Ísland er tæknilega vel í stakk búið til að takast á við tæknibreytingar þar sem tæknilegir innviðir eru hér sterkir, atvinnulífið hefur verið öflugt að innleiða nýja tækni og landsmenn almennt vel nettengdir. Hins vegar erum við Íslendingar eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða þegar kemur að framlögum fyrirtækja til rannsókna og þróunar, getu til nýsköpunar og í fleiri þáttum sem eru undirstaða þess að efla þekkingariðnað og skapa fjölbreyttara atvinnulíf.

Núverandi ríkisstjórn leggur mikla áherslu á rannsóknir og nýsköpun og hefur aukið fjárfestingar og fjárveitingar til málaflokksins verulega. Í þessum málaflokki hefur stefnumótun stjórnvalda skipt miklu máli, allt frá því að lög um starfsumhverfi nýsköpunar voru sett árið 2009. Á þessu ári nema framlög stjórnvalda til nýsköpunar, rannsóknar- og þekkingargreina tæpum 15 milljörðum sem er tæplega 10% aukning frá fyrra ári. Til stendur að setja sérstaka fjármuni í nýja markáætlun en hluta af því fjármagni er ætlað að mæta svokölluðum samfélagslegum áskorunum. Þær lúta að umhverfismálum og sjálfbærni, heilsu og velferð og þeim áhrifum sem tæknibreytingar munu hafa á líf og störf okkar allra. Frekari fjárfesting er fyrirhuguð í nýsköpun með fjármunum sem renna munu til íslenska ríkisins af arði Landsvirkjunar og á vettvangi nýsköpunarráðherra er unnið að mótun nýsköpunarstefnu.

Annað sem stjórnvöld þurfa að skoða sérstaklega er menntun, bæði í leik-, grunn- og framhaldsskólum en líka þarf að efla enn frekar símenntun. Áhugavert er að sjá að margir þeirra færniþátta sem nú teljast hvað mikilvægastir til að takast á við tæknibyltinguna eru áberandi í Aðalnámskrá frá árinu 2011 og má þar nefna gagnrýna hugsun og sköpun. Annar færniþáttur sem telst mjög mikilvægur er tilfinningagreind – sem hugsanlega þarf að rækta betur í menntakerfinu. Þá er bent á það í skýrslunni að hlutfall þeirra sem eru menntaðir á sviði vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði er lægra á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Menntamálaráðherra vinnur nú að menntastefnu til 2030 þar sem tekist verður á við meðal annars þessar spurningar.

Að lokum er bent á það í skýrslunni að ný tækni vekur upp ný siðferðileg álitamál. Hver verður sjálfsákvörðunarréttur okkar þegar gervigreindinni verður falið að taka æ fleiri ákvarðanir? Og hvernig tryggjum við að ábatinn af framförunum nýtist öllum? Á alþjóðavettvangi er rætt um ýmsa möguleika á alþjóðlegum sáttmálum um notkun gervigreindar í þágu alls mannkyns. Á öllum þessum sviðum; hvort sem er á vinnumarkaði, í rannsóknum og nýsköpun, í menntun og á sviði löggjafar og alþjóðaumræðu eigum við Íslendingar tækifæri, tækifæri til að taka forystu og vera gerendur í nýrri byltingu – með það skýra markmið að koma öllum almenningi til góða.

Katrín Jakobsdóttir

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search