PO
EN

Ísafjarðarbær tekur á móti allt að 40 flóttamönnum

Deildu 

Ísafjarðarbær tekur á móti allt að 40 flóttamönnum samkvæmt samningi sem undirritaður hefur verið af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Þetta er tólfti samningurinn sem gerður hefur verið um samræmda móttöku flóttafólks frá því í nóvember sl. Heildarfjöldi flóttafólks sem samningarnir ná yfir er kominn yfir 3.200.

Samræmd móttaka flóttafólks er hugsuð fyrir þau sem fengið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að.

Aldrei hafa fleiri komið til landsins á flótta en nú í ár og í fyrra. Frá áramótum hafa 2.400 manns sótt um alþjóðlega vernd hér á landi.

„Ísafjarðarbær býr yfir dýrmætri reynslu af móttöku flóttafólks og bæjarbúar hafa sýnt samkennd, mannúð og ábyrgð í þessum mikilvæga málaflokki. Tæp 30 ár eru liðin frá því að bærinn tók fyrst á móti fólki á flótti. Þrjátíu manna hópur frá fyrrverandi Júgóslavíu settist þar að árið 1996 og ríflega tuttugu manna hópur kom á norðanverða Vestfirði árið 2018 frá Sýrlandi og Írak. Þangað hefur sömuleiðis leitað flóttafólk frá Úkraínu eftir innrás Rússlands þar í landi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

„Við hjá Ísafjarðarbæ erum afar ánægð með þetta samkomulag og munum kappkosta nú sem endranær að taka vel á móti fólki á flótta og aðstoða þau við að fóta sig í nýjum heimkynnum. Við sem samfélag verðum öll að axla ábyrgð og aðstoða fólk í neyð, og gefa fólki tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Þessi samningur setur skýran ramma um samfellda og fjölbreytta þjónustu við flóttafólk.“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Ítarefni: Vefur um móttöku flóttafólks

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search