PO
EN

Ísland býður á stefnumót

Deildu 

  - mynd

Stefnumót við náttúruna er yfirskrift hvatningarátaks sem miðar að því að hvetja landsmenn til að heimsækja friðlýst svæði á Íslandi í sumar. Að átakinu stendur umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samstarfi við Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarð og þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Friðlýst svæði á Íslandi eru tæplega 120 talsins þar sem gestir geta upplifað ólíkar hliðar íslenskrar náttúru, allt frá viðkvæmum gróðri og skordýrum til stórbrotinna fjalla, landslags og útsýnis sem á engan sinn líka. Fjölbreytt þjónusta er einnig í boði á mörgum svæðanna þar sem landverðir veita fræðslu og upplýsingar og traustir innviðir á borð við göngustíga, útsýnispalla, tjaldstæði og nútímaleg salerni eru innan seilingar.

„Í sumar hafa landsmenn einstakt tækifæri til að ferðast um landið sitt og njóta þess besta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Það er hvergi betra tækifæri til að gera akkúrat það en á friðlýstu svæðunum okkar. Þar höfum við lagt mikla áherslu á uppbyggingu innviða á undanförnum árum sem auðvelda aðgengi almennings að þessum náttúruperlum.“

Verkefnið Stefnumót við náttúruna er hluti af yfirstandandi friðlýsingaátaki umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem felur m.a. í sér aukna fræðslu um friðlýsingar og friðlýst svæði.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search