Search
Close this search box.

Ísland í forystu Evrópuráðsins

Deildu 

Á morgun tekur Ís­land við for­mennsku í Evrópu­ráðinu af Írum. Ó­hætt er að segja að þessi tíma­mót beri upp á miklum ör­laga­tímum í sögu álfunnar. Þau grund­vallar­gildi sem Evrópu­ráðið hvílir á – mann­réttindi, lýð­ræði og réttar­ríkið – eiga undir högg að sækja. Skýrasta birtingar­mynd þess er inn­rás Rúss­lands í Úkraínu.

Evrópu­ráðið er elsta al­þjóða­stofnun Evrópu. Það var stofnað árið 1949 í kjöl­far síðari heims­styrj­aldarinnar í þeim til­gangi að stuðla að stöðug­leika í álfunni. Mark­mið þess er að standa vörð um mann­réttindi, lýð­ræði og réttar­ríkið í 46 aðildar­ríkjum með um 700 milljónir íbúa. Með brott­vísun Rúss­lands úr stofnuninni í kjöl­far inn­rásarinnar sendi Evrópu­ráðið skýr skila­boð um að aðildar­ríkin virði og verndi grund­vallar­gildi ráðsins.

Í gær til­kynntu ríkis­stjórnir Ír­lands og Ís­lands á fundi í Strass­borg að það kæmi í hlut Ís­lands að efna til leið­toga­fundar Evrópu­ráðsins í Reykja­vík í maí 2023, í lok for­menns­kunnar. Í tæp­lega 75 ára sögu ráðsins hefur að­eins þrí­vegis verið haldinn leið­toga­fundur. Inn­rásin í Úkraínu verður þar í brenni­depli og í sam­hengi hennar mikil­vægi þess að aðildar­ríkin verji sam­eigin­leg gildi stofnunarinnar. Fundurinn verður um­fangs­mesti al­þjóð­legi fundur sem fram hefur farið á Ís­landi.

Komandi vetur verður að mörgu leyti erfiður víða í Evrópu, meðal annars vegna efna­hags­þrenginga og hugsan­legs orku­skorts sem hvort tveggja má að miklu leyti rekja til inn­rásar Rúss­lands í Úkraínu. Tíma­setning leið­toga­fundar í Reykja­vík að vori er því á­litin á­kjósan­leg til þess að leið­togar Evrópu­þjóða hafi tæki­færi til að koma saman í nafni þeirra gilda sem Evrópu­ráðinu er ætlað að varð­veita. Á­herslur ís­lensku ríkis­stjórnarinnar á jafn­rétti kynjanna, mál­efni barna, um­hverfis­mál, lýð­ræði og mann­réttindi endur­speglast í for­mennsku­á­ætlun Ís­lands. En stærsta verk­efnið verður að slá skjald­borg um grunn­gildi Evrópu­ráðsins, lýð­ræði og mann­réttindi, sem standa frammi fyrir miklum á­skorunum í sam­tímanum, ekki síst vegna stríðs­rekstrar í álfunni. Þar mun Ís­land axla á­byrgð og taka for­ystu­hlut­verk sitt al­var­lega á krefjandi tímum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search