Undanfarið hafa málefni fyrirtækisins Íslandsþara verið mikið í umræðunni á Húsavík. Fyrirtækið hefur sótt um lóð á hafnarsvæði Húsavíkur sem mörg hafa gert athugasemdir við. Þar að auki er fólk smeykt við þaraslátt á Skjálfanda og víðar á Norðurlandi af umhverfisástæðum og hafa gert athugasemdir um það. Raunar komu í heildina fram fleiri athugasemdir við tillögu að deiliskipulags breytingu frá íbúum og fyrirtækjum en í nokkru máli í skipulagsgerð hjá Norðurþingi. Allt eru þetta eðlilegar áhyggjur enda ekki ljóst hvaða áhrif þetta mun hafa á lífríkið á grunnslóð. Ekkert umhverfismat hefur farið fram.
Tímabundna rannsóknaleyfið
Fyrirtækið Íslandsþari fékk tímabundið rannsóknarleyfi til ársins 2027 til söfnunar og vinnslu á stórþara frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem nú heitir Matvælaráðuneytið. Leyfið felur í sér töku á allt að 40 þúsund tonnum á loka ári leyfisins árið 2027.
Þetta þýðir með öðrum orðum að Íslandsþari er ekki með varanlegt leyfi frá ráðuneytinu til þess að safna og vinna þara hvort sem við erum að tala um Skjálfanda eða önnur svæði úti fyrir Norðurlandi. Leyfið er einungis tímabundið rannsóknarleyfi.
Ríkisendurskoðun opinberaði sem kunnugt er nýlega gagnrýniverða starfshætti við útgáfu leyfa til fiskeldis í fjörðum landsins. Í ljósi þess verður að telja afar ólíklegt að framtíðarleyfi til þarasláttar muni fást útgefin öðruvísi en fullvíst sé að starfsemin þyki viðunandi og sjálfbær fyrir umhverfið.
Aðrar sjávarbyggðir standa utan við
Engin umræða virðist hafa farið fram um áform Íslandsþara í öðrum byggðum og sveitarfélögum við strendur Norðurlands, þó áformin byggi á umdeildu inngripi á grunnslóð við alla ströndina. Íbúar, smábátasjómenn og ferðaþjónustuaðilar á stöðum eins og Hvammstanga, Skagaströnd og í Dalvíkurbyggð virðast ekkert hafa um þetta að segja, en geta þó átt von á þaraskurði upp undir land við sín byggðarlög. En ekki störfum reyndar, því þau eiga að vera á Húsavík.
Fjárfesting skattgreiðenda Norðurþings
Í Norðurþingi hefur mikið púður og kraftar farið í þetta umdeilda verkefni undanfarna mánuði. Deiliskipulag hefur verið tekið upp og sérsniðið að þörfum Íslandsþara, óskað eftir umsögnum íbúa og fyrirtækja og Íslandsþari hefur óskað eftir viðræðum um samninga um heitt og kalt vatn við Orkuveitu Húsavíkur.
En þá vakna ýmsar spurningar.
– Til hvers er verið að fara í alla þessa vinnu af hálfu Norðurþings um skipulag og innviði á Húsavík fyrir fyrirtæki sem ekki er með varanlegt leyfi frá Matvælaráðuneyti?
– Er ábyrgt hjá Norðurþingi að breyta skipulagi og leyfa byggingu á mannvirkjum sem ekki er víst að muni nýtast í þessari starfsemi ef varanlegt leyfi mun ekki fást?
– Telur Norðurþing öruggt að varanlegt leyfi fáist til framtíðar?
Undirritaðar telja að Norðurþing sé að taka erindi Íslandsþara of langt í ljósi þess að ekkert framtíðar vinnsluleyfi er til staðar.
Aldey Unnar Traustadóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir,
sveitarstjórnarfulltrúar V-listans í Norðurþingi