Search
Close this search box.

Íslenskt samfélag er sterkt

Deildu 

Engan óraði fyrir því í upphafi árs hve mikil áhrif óþekkt veira hefði á heiminn á fáum mánuðum. Sá heimsfaraldur sem nú gengur yfir hefur haft djúpstæð samfélagsleg og efnahagsleg áhrif fyrir utan skaðann á heilsu fólks og þau mannslíf sem hann hefur hrifið með sér.

Ljóst er að áhrifin verða mikil á íslenskt samfélag. Ferðaþjónustan sem skapað hefur um þriðjung gjaldeyristekna þjóðarbúsins er í ófyrirséðum vanda þar sem landamærum var lokað nánast yfir nótt og óvissan mikil um hvenær og hvernig þau verða opnuð á ný. Sumum fyrirtækjum og stofnunum hefur beinlínis verið lokað vegna sóttvarnaráðstafana, önnur hafa þurft að draga verulega saman seglin.

Tryggjum lífsafkomu og verjum störf

Atvinnuleysi í apríl stefnir nú í 15% og er það stærsti efnahagsvandinn sem samfélagið stendur frammi fyrir. Því er það forgangsmál ríkisstjórnarinnar að tryggja lífsafkomu fólks, með því að verja og skapa störf. Hlutastarfaleið hefur þegar nýst ótrúlegum fjölda fólks en tæplega 34 þúsund hafa sótt um hlutabætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli frá því að opnað var fyrir þær umsóknir fyrir tæpum mánuði. Brúarlán, stuðningslán og lokunarstyrkir eru mikilvægar leiðir til að styðja fyrirtækin í landinu til að halda áfram rekstri og verja þannig störf almennings. Gripið hefur verið til margháttaðra skattalegra ráðstafana í sama tilgangi en ávallt er miðað við fyrirtæki sem bera fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á Íslandi. Gagnsæ skilyrði eru sett fyrir fyrirgreiðslu, til dæmis varðandi arðgreiðslur eigenda.

Þá hefur ríkið ákveðið að skapa 2-3000 sumarstörf fyrir stúdenta í samstarfi við sveitarfélögin. Einnig verður boðið upp á sumarnám á háskóla- og framhaldsskólastigi fyrir utan að skapa ný mennta- starfs- og þjálfunartækifæri fyrir atvinnuleitendur. Ráðist er í fjölbreyttar félagslegar aðgerðir fyrir viðkvæma hópa. Eins er stutt við allar barnafjölskyldur á Íslandi með sérstökum barnabótaauka með öllum börnum sem verður greiddur út 1. júní næstkomandi og á sama tíma kemur sérstök eingreiðsla upp á 20 þúsund krónur til öryrkja. Samanlagt eru þetta yfirgripsmiklar félagslegar aðgerðir sem yfirvöld grípa nú til.

En það er líka mikilvægt að blása til sóknar. Fjárfestingaátakið sem kynnt var í  aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í mars mun skipta verulegu máli til að skapa störf og efla kraft hagkerfisins. Ráðist verður í samgönguframkvæmdir um land allt, aukinn kraftur settur í rannsóknir, þróun og skapandi greinar, orkuskiptum verður hraðað og ráðist í löngu tímabærar bygginga- og viðhaldsframkvæmdir.

Í nýjasta aðgerðapakkanum er kynnt stórsókn í nýsköpun og þekkingargreinum með aðgerðum sem munu skapa óteljandi tækifæri fyrir fólk og fjölga stoðum efnahagslífsins. Við munum efla innlenda matvælaframleiðslu, meðal annars með loftslagsmarkmið og lýðheilsusjónarmið að leiðarljósi. Þá munum við enn auka stuðning við skapandi greinar með fjölgun listamannalauna.

Styrkleikar samfélagsins

Íslenskt samfélag hefur í þessum hremmingum sýnt úr hverju það er gert.

Við eigum sterkar grunnstoðir sem hafa sýnt ótrúlegan sveigjanleika á skömmum tíma við erfiðar aðstæður. Skólar hafa umbreytt kennsluháttum; félagslegir innviðir hafa þurft að aðlagast gerbreyttu atvinnuástandi og heilbrigðiskerfið okkar hefur lyft grettistaki til að geta einbeitt sér að baráttunni við faraldurinn.

Við eigum öflugt fólk á öllum vígstöðvum sem hefur haldið samfélaginu gangandi. Sama hvert litið er; í skólum og heilbrigðisstofnunum, í verslunum og þjónustu, almenningssamgöngum og svo mætti lengi telja. Við eigum frumkvöðla sem hafa bylt starfsháttum á örskammri stund, hvort sem er í einkarekstri eða almannaþjónustu.

Við höfum sýnt samheldni, seiglu og sveigjanleika í þessum hremmingum og þeir eiginleikar munu verða til þess að íslenskt samfélag á alla möguleika á að koma öflugt sem aldrei fyrr úr þessum stormi. Það höfum við gert áður og munum gera það aftur.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search