EN
PO
Search
Close this search box.

Jafnræði til þjónustu

Deildu 

Starfshópur sem ég skipaði til að skoða fyrirkomulag varðandi hjálpartæki hér á landi skilaði skýrslu með niðurstöðum sínum í byrjun októbermánaðar. Hjálpartæki eru fötluðu fólki nauðsynleg til að auðvelda athafnir dagslegs lífs og verkefni starfshópsins var að koma með tillögur til úrbóta hvað varðar skipulag málaflokksins. Það er mat starfshópsins að skipulag hjálpartækjamála sé í dag brotakennt og á margra höndum og að af því leiði að hætta sé að því að jafnræði til þjónustu sé ekki í öllum tilvikum tryggt.

Steinunn Þóra Árnadóttir leiddi vinnu starfshópsins en verkefni hans var að skoða fyrirkomulag varðandi hjálpartæki sérstaklega í ljósi samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fullgiltur var hér á landi árið 2016. Staðfesting og síðar fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi hefur reynst uppspretta margvíslegra og mikilvægra úrbóta. Samningurinn hefur breytt sýn og skilningi samfélagsins á aðstæðum fatlaðs fólks og verið stjórnvöldum og stofnunum hins opinbera til brýningar í málefnum fatlaðs fólks.

Meðal skuldbindinga sem þau ríki sem aðild eiga að samningi Sameinuðu þjóðanna  um réttindi fatlaðs fólks undirgangast er að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að hjálpartækjum og annarri stuðningstækni, t.d. upplýsinga- og samskiptatækni, sem auðveldar fólki að vera samfélagslega virkt. 

Tillögur hópsins eru í sex liðum og snúa meðal annars að greiðsluþátttöku, afgreiðslu og úthlutun hjálpartækja, mati á þörf fólks fyrir hjálpartæki, innleiðingu nýjunga og upplýsingamiðlun til notenda hjálpartækja.

Meðal þess sem starfshópurinn leggur til er að endurskoða reglugerðir er lúta að hjálpartækjum og skilgreiningu á hugtakinu hjálpartæki í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, einfalda skipulag við afgreiðslu og úthlutun hjálpartækja, að endurskoða greiðsluþátttöku og draga úr kostnaði notenda, að endurskoða þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar við mat á þörf fólks fyrir hjálpartæki og að bæta upplýsingamiðlun um hjálpartæki og viðgerðarþjónustu. Starfshópurinn benti meðal annars á mikilvægi þess að fólk fái úthlutað hjálpartækjum í samræmi við raunverulegar þarfir og út frá því markmiði að gera notendum kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu á öllum sviðum.

Tillögur starfshópsins verða nú rýndar í ráðuneytinu. Ég gleðst yfir því að fyrir liggi skýrsla með vel ígrunduðum tillögum til úrbóta í þessum málaflokki.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search