PO
EN

Jana Salóme á Alþingi

Deildu 

Jana Salóme Ingibargar Jósepsdóttir, varaþingmaður VG í Norðausturkjördæmi tók sæti á Alþingi í fyrsta skipti í gær. Jana hélt jómfrúrræðu sína í þinginu nú áðan um kynbundið ofbeldi og uppskar „heyr heyr“ í þingsalnum.

Virðulegi forseti.

Ein alvarlegasta birtingarmynd kynjamisréttis er kynbundið ofbeldi. Kynbundið ofbeldi er ekki einstaklingsbundinn vandi heldur samfélagsmein sem er ein mesta ógn við líf og heilsu kvenna. Vændi er ein birtingamynd þess ofbeldis.

Vændi á Íslandi er staðreynd. Þó sífellt háværari raddir kalli á lögleiðingu vændis eru engar vísbendingar um að það hjálpi þeim konum sem eru brotaþolar vændis.

Í nýlegri rannsókn Stígamóta sjáum við vísbendingar um langvinnar og alvarlegar afleiðingar vændis, meðal annars: áfallastreituröskun, þunglyndi, kvíða, misnotkun vímuefna og áfengis og sjálfsvígshugleiðingar og –tilraunir. Einnig má sjá að tengsl eru milli fátæktar,// og slakrar félagslegrar stöðu og vændis.

Stígamót hafa síðustu áratugi unnið þrekvirki í baráttunni gegn kynferðisofbeldi og hafa hlotið alþjóðalega viðurkenningu fyrir baráttu sína og aðferðir.  

Forseti.

Það þarf að auka þekkingu í samfélaginu á afleiðingum vændis. Með byltingum síðustu ára hefur umræða um kynferðisofbeldi breyst. Áherslan hefur í auknu mæli varpað ljósi á gerendur og ábyrgð þeirra.  Þörf er á frekari innlendum rannsóknum sem varpa ljósi á vændiskaupendur,// karla sem kaupa vændi, sem að rannsóknir sýna að eru yfirgnæfandi meirihluti gerenda. Ég trúi því að við getum gert betur.

Ég trúi því að með betri upplýsingum um afleiðingar vændis á brotaþola fækkum við þolendum og gerendum. Mikilvægt er að standa með banni við kaupum á vændi og efla bæði viðbrögð og frumkvæði lögreglu og dómstóla við brotum á þeim lögum. Líkami manneskju má aldrei vera söluvara.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search