Search
Close this search box.

Jólamatur og fæðuöryggi

Deildu 

Jólahátíðin á Íslandi hefur löngum verið mikil matarhátíð. Þær fjölmörgu hefðir sem við eigum á jólum tengjast margar hverjar matvælum, til dæmis fjölskylduboð þar sem skorið er út laufabrauð fyrir jól eða piparkökur bakaðar. Yfir hátíðarnar tengjum við hlýjar minningar um liðna tíð við nútímann og mörgum þykir vænst um gamla skrautið sem minnir á fólk og atvik, andblæ og eftirvæntingu. Á milli þess að sungnir eru sálmar um fjármenn sem fundu bæði guð og mann eigum við sem búum í þéttbýlinu í samskiptum við bændur, beint og óbeint. Hvort sem um er að ræða hveitið í laufabrauðinu, jólasíldina, lambakjötið, hnetusteikurnar, endurnar eða mjólkina í möndlugrautinn eigum við stöðugt í samskiptum við bændur og aðra framleiðendur matvæla. Mörg neytum við skötu og saltfisks á Þorláksmessu en saltfiskur er sérgrein Grindvíkinga og aukið tilefni gefst þá til að senda þeim hlýja strauma á óvenjulegum tímum.

Skýrir valkostir fyrir neytendur

Sú var tíðin að mörg dvöldu í sveit á sumrin, hjá ættingjum eða kunningjum. Nú er sú tíð liðin og mikilvægara verður að viðhalda tengslum milli þéttbýlis og dreifbýlis, því sveit og borg eru eitt samfélag og getur hvorugt án hins verið. Samtal um það hvernig við treystum þessi tengsl er alltaf mikilvægt. Eitt innlegg í þá umræðu er krafan um bættar merkingar á matvælum, til að mynda merkingar á borð við Íslenskt staðfest sem er merki sem hefur norræna fyrirmynd og tryggir að neytendur hafi skýran valkost. Of oft heyri ég sögur af því að neytendur hafa talið sig fest kaup á innlendri afurð sem við nánari eftirgrennslan var ekki raunin. Ég er viss um að með því að gefa neytendum skýran valkost muni þeir velja að treysta samband sitt við innlenda framleiðendur. Það skiptir máli í því stóra verkefni að treysta enn stoðir innlendrar matvælaframleiðslu.

2,1 milljarður

Í upphafi aðventunnar voru kynntar niðurstöður starfshóps ráðuneytisstjóra um stöðuna í landbúnaði. Niðurstaðan eftir þinglega meðferð var að 2,1 milljarði verður varið í sérstakar greiðslur til bænda. Þar var sérstaklega horft til þess að styðja við unga bændur sem tekið hafa við búum síðustu ár. Allt kapp er lagt á að flýta útgreiðslu þessara fjármuna svo unnt verði að greiða stærstan hluta þeirra út nú á aðventunni. Þetta skref var mikilvægt því á herðum ungra bænda hvílir fæðuöryggi framtíðar. En fleiri skref eru nauðsynleg svo fjölskyldubúum næstu áratuga séu sköpuð sem best skilyrði.

Til þess að jólahefðir framtíðar geti falið í sér gæfurík samskipti þéttbýlis við sveit rétt eins og verið hefur um aldir þurfum við að leggja áherslu á að ungum bændum sé tryggður nægur stuðningur. Þannig treystum við bæði fæðuöryggi landsins og framtíð landbúnaðar.

Gleðileg jól!

Svandís Svavarsdóttir er matvælaráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search