Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra í mbl.is „Það er ljóst að við stöndum frammi fyrir þrengingum. Þær verða tímabundnar. Ríkisstjórnin mun gera það sem þarf til þess að við getum komist standandi niður úr þessum hremmingum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í dag, en hún var spurð út í viðbrögð vegna kórónuveirunnar og ferðabanns til Bandaríkjanna.Frétt af mbl.isÞingfundur í beinni
Ríkisstjórnin mun koma saman til fundar í hádeginu og í kjölfarið eiga fund með formönnum stjórnarandstöðuflokkana til að fara yfir stöðuna. Á morgun munu stjórnvöld funda með aðilum vinnumarkaðarins til að fara yfir stöðuna. Ætlunin var að hafa þann fund í dag en vegna ákvörðunar Trumps Bandaríkjaforseta um að setja á ferðabann var ákveðið að fresta þeim fundi til morguns.
Þurfa að kynna frekari aðgerðir
Katrín benti á, að staða þjóðarbúsins sé allt önnur en hún var árið 2008. Nú sé gjaldeyrisvaraforðinn öflugur, skuldahlutfallið lágt, viðskiptajöfnuður jákvæður og skuldsetning heimila og atvinnulífs sem miklu minni en fyrir 12 árum.
Hún benti á að ríkisstjórnin hafi í vikunni kynnt fyrstu aðgerðir til að styðja fyrir fyrirtækin í landinu sem skipti líka máli fyrir fólkið í landinu. „Fyrirtækin í landinu eru ekkert annað en fólkið sem þar vinnur,“ sagði ráðherra.
Katrín tók fram að aðgerðirnar sem voru kynntar á þriðjudaginn hafi eingöngu verið þær fyrstu. „Við munum þurfa frekari aðgerðir í vinnumarkaðsmálum, félagslegum stöðugleika og að sjálfsögðu fjárfestingu til að tryggja það að við komumst standandi niður. Það munum við gera.“
Verður ekki auðvelt
Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem beindi fyrirspurn sinni til ráðherra, fagnaði samráði stjórnvalda með stjórnarandstöðunni. Hann tók fram að það væri verkefni alls þingsins að gera allt sem í valdi þess stendur til að vernda fólkið í landinu, heimili og fyrirtæki.
Katrín kveðst vera sammála því að það skipti miklu máli hvernig stjórnmálin takist á við þann vanda sem blasi við. „Við skulum ekki draga nein dul á það að þetta verður ekki auðvelt. En, eins og ég sagði hér í mínu fyrra svari, þá stöndum við mjög vel til að takast á við erfiðleikana og þeir verða tímabundnir.“
Það skipti miklu að það sem verði gert sé réttlátt, skynsamlegt og þjóni hagsmunum heildarinnar. „Það skiptir miklu máli að við eigum sem allra best samráð eftir því sem við getum, og það munum við leggja okkur fram um. Við vitum líka að við munum aldrei verða sammála um allt en ég hef þá trú á þingheimi að hér sé fólk reiðbúið til að hefja sig yfir argaþras dagsins til þess að takast á við þetta sem varðar þjóðina alla.“