Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti í dag formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023. Forsætisráðherra gerði þingi Norðurlandaráðs grein fyrir formennskunni á þingi ráðsins sem fer nú fram í Helsinki. Ísland mun taka við formennsku af Noregi 1. janúar nk. og gegna henni út næsta ár.
Yfirskrift formennsku Íslands verður: ,,Norðurlönd – afl til friðar.“ Í formennskutíð Íslands verður unnið að áherslusviðunum þremur: grænum, samkeppnishæfum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum. Meðal annars verður allt kapp lagt á að styðja við græn og réttlát umskipti, og þátttöku allra kynslóða.
Sérstök áhersla verður lögð á frið sem forsendu velferðar, mannréttinda og umhverfisverndar. Sú áhersla ræðst ekki síst af innrás Rússlands í Úkraínu sem gjörbreytt hefur stöðu öryggismála á Vesturlöndum. Við slíkar aðstæður er samstaða og samvinna norrænu þjóðanna afar mikilvæg.
„Norrænu þjóðirnar eru sterkastar þegar þær standa saman. Norrænt samstarf skilar okkur ekki einungis árangri heldur einnig ánægju og byggir brýr milli íbúa landanna. Þetta á við um til dæmis jafnrétti kynjanna, umhverfismál og almenna velferð í samfélögum okkar,“ segir í sameiginlegu ávarpi Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Guðmundar Inga Guðbrandssonar, samstarfsráðherra Norðurlanda.
Formennskuáætlun Íslands byggir á grunni framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar til ársins 2030 þar sem yfirmarkmiðið er að Norðurlöndin skuli vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Í framkvæmdaáætlun er markið sett á að gera Norðurlönd grænni, samkeppnishæfari og félagslega sjálfbærari. Samstarfið í Norrænu ráðherranefndinni á að þjóna því markmiði.
Meðal áhersluatriða má nefna réttlát umskipti, græna umbreytingu í sjávarútvegi og við nýtingu á auðlindum hafsins, tækifæri allra til atvinnuþátttöku, styrkingu og þróun menningar- og listalífs með aukinni nýsköpun og tengslum listafólks, mótun sameiginlegrar norrænnar stefnu um stafræna máltækni, og jafnrétti og réttindi hinsegin fólks með áherslu á transfólk og intersex fólk. Þá verður einnig lögð áhersla á vestnorrænt samstarf á formennskuárinu.
,,Norrænt samstarf nýtur mikils stuðnings á Norðurlöndum og margar kynslóðir þekkja ekki tilveruna án þess. Mögulega hættir okkur stundum til að taka samstarfinu sem sjálfsögðum hlut. Norrænt samstarf sprettur þó ekki upp af sjálfu sér og er ekki sjálfgefið. Það er afrakstur samtals, vinnu og sameiginlegra ákvarðana sem styrkja okkur sem eitt svæði. Framtíðarsýnin fyrir norrænt samstarf til ársins 2030 um að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði heims er dæmi um slíka sameiginlega ákvörðun sem skapar ótal tækifæri á næstu árum,“ segja Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson samstarfsráðherra Norðurlanda enn fremur í sameiginlegu ávarpi sínu.
Formennskan er viðamikið og mikilvægt verkefni sem snertir öll ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands í gegnum þátttöku Íslands í ráðherra- og embættismannanefndum Norrænu ráðherranefndarinnar.
Ísland gegndi síðast formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019 en þá var framtíðarsýn 2030 samþykkt. Ísland gegnir formennsku ári fyrr en verið hefði alla jafna, þar sem skipt var við Svíþjóð að beiðni þess, en Svíþjóð mun gegna formennsku í ráði Evrópusambandsins fyrri hluta árs 2023.
Norðurlönd – afl til friðar. Formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023 (pdf)
Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands
Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.
Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.