PO
EN

Katrín Jakobsdóttir – Ræða á landsfundi 2023

Deildu 

Kæru félagar

Það er ánægjulegt að hitta ykkur öll hér í Hofi á Akureyri. Við héldum landsfund hér í þessu húsi árið 2011, fyrir tólf árum, og þá var ég einmitt með yngsta son minn með í för og hann er loksins mættur á landsfund þótt hann sé ekki formlegur fulltrúi hér um helgina!

Síðasti landsfundur var haldinn með rafrænum hætti árið 2021. Þá vorum við enn stödd í miðjum heimsfaraldri og hið sama átti við þegar við háðum kosningabaráttu nokkrum mánuðum síðar, í lok september 2021. Úrslit þeirra kosninga komu mörgum á óvart. Þrátt fyrir barning í skoðanakönnunum allt kjörtímabilið og þó að hart væri að okkur sótt héldum við Vinstri-græn stöðu okkar sem stærsti flokkurinn á vinstrivængnum þegar talið hafði verið upp úr kössunum – en misstum samt fylgi eftir átakamikið kjörtímabil og brotthvarf tveggja þingmanna.

Nú hittumst við á miðju kjörtímabili og staðan er um margt snúin. Heimsfaraldur reyndi á alla innviði samfélagsins. Ég er þess fullviss að sýn okkar Vinstri-grænna skipti verulegu máli í því að koma samfélaginu farsællega í gegnum hann. Við byggðum á staðreyndum, áttum heiðarlegt samtal við þjóðina og treystum þjóðinni. Við beittum ríkissjóði af fullum þunga til að tryggja afkomu almennings og atvinnulífs. Enda náðum við þeim árangri sem er einstakur að kaupmáttur allra tekjutíunda jókst í gegnum heimsfaraldur. Þegar faraldurinn lét undan síga vorum við vel í stakk búin til að spyrna okkur hratt frá botni, ekki síst vegna aðgerða stjórnvalda. Hratt og örugglega náðum við atvinnuleysi niður og efnahagsbatinn var hraðari en nokkurn hefði grunað. Og við búum að reynslunni sem sýndi áþreifanlega hvers þetta samfélag er megnugt þegar við stöndum saman.

En þá skall á stríð í Evrópu. Verð á öllum helstu hrávörum hækkaði snarpt og verðbólga jókst vestan hafs og í Evrópu. Að einhverju leyti komu áhrifin fram síðar hér á Íslandi vegna þess að við þurftum ekki að borga hærra verð fyrir orkuna okkar, ólíkt vinum okkar í Evrópu. En verðbólgan er enn okkar stærsta viðfangsefni og þær vaxtahækkanir sem af henni leiða. Almenningur finnur fyrir verðbólgunni, bæði í daglegri neyslu og í greiðslubyrði íbúðalána. Og við sem höldum utan um ríkissjóð finnum fyrir auknum þunga vaxtagjalda í öllum okkar rekstri.

Verkefni númer 1, 2 og 3 núna er að ná verðbólgunni niður. Það verður einungis gert með samstilltum aðgerðum allra. Ríkistjórnin hefur beitt ríkisfjármálunum til að vinna gegn þenslunni en á sama tíma styðja þá hópa sem eiga erfiðast með að mæta áhrifum verðbólgunnar og það munum við gera áfram.  Á næstu dögum kynnum við fjármálaáætlun þar sem við munum verja almannaþjónustuna og afkomutryggingakerfin, boðum aukna tekjuöflun en hægjum á vexti útgjalda. En það er ekki bara ríki og sveitafélög sem þurfa að laga stefnu sína að þessari stöðu.

Baráttan við verðbólguna snýr að okkur öllum, við höfum sameiginlega hagsmuni af því að ná árangri. Ég tel að það hafi verið farsæl lausn hjá verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum að semja til skamms tíma við núverandi aðstæður. Framundan eru síðan vandasamar viðræður sem þurfa að stuðla að lágri verðbólgu en jafnframt tryggja réttlátan hlut launafólks í þeim efnahagsbata sem náðst hefur á undanförnum árum. Og Seðlabankinn hefur staðið vaktina – þó að vinsælt sé að gagnrýna hann – og beitt þeim stýritækjum sem hann hefur til að ná tökum á verðbólgunni og hvetja til sparnaðar. Ég hef hrósað og geri það nú aftur þeim fyrirtækjum sem hafa svarað kalli um þjóðarsátt og auglýsa nú verðlækkanir til að ná árangri í þessu sameiginlega verkefni og hvet önnur til að fylgja þeirra fordæmi. Og ítreka enn það sem ég hef áður sagt: Forstjórar sem skammta sér launahækkanir langt umfram launavísitölu og eigendur sem greiða sér úr himinháan arð hella olíu á verðbólguelda. Enginn ætti að láta sér það koma á óvart að það verður ekki þannig að þeir sem lægst hafa launin eigi að bera mesta ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika.

Við munum með samstilltu átaki ná verðbólgunni niður og í kjölfarið munu vextir lækka. Hvorttveggja eru mikilvæg hagsmunamál landsmanna allra og skiptir sköpum til að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi uppbyggingu velsældar og langtímakjarasamningum í lok þessa árs.

Kæru félagar.

Við Vinstri-græn höfum nú leitt ríkisstjórn í fimm og hálft ár. Raunar höfum við verið í ríkisstjórn í næstum tíu ár á undanförnum tuttugu árum og haft ótrúleg áhrif til góðs á samfélag okkar með þátttöku okkar í ríkisstjórn, langt umfram stærð okkar. Ég gæti staðið hér frameftir kvöldi og þulið upp hluti eins og þrepaskipt skattkerfi, eflingu barnabótakerfisins, eflingu almenna íbúðakerfisins, friðlýst svæði um land allt, fullfjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, ný jafnréttislög, lögin um kynrænt sjálfræði, minni skerðingar í almannatryggingakerfinu, bætta réttarstöðu brotaþola, ný lagaákvæði um umsáturseinelti og kynferðislega friðhelgi, minni greiðsluþátttöku sjúklinga og stóreflingu heilsugæslunnar, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri, lög um farsæld barna sem nálgast þau málefni með algjörlega nýjum hætti í þágu barna, ný þungunarrofslöggjöf, lenging fæðingarorlofs og stytting vinnuvikunnar. Ég gæti haldið lengi áfram – en á því leikur enginn vafi að við höfum haft ómæld áhrif á samfélagið með þátttöku okkar í ríkisstjórn, langt umfram stærð okkar. Mál sem jafnvel hafa þótt jaðarmál þykja nú sjálfsögð. Og jafnan þegar við höfum náð okkar umbótamálum fram getur enginn hugsað sér íslenskt samfélag án þessara umbóta.

Við erum í stjórnmálum til að hafa áhrif. Við í Vinstri-grænum vitum reyndar ágætlega að það er hægt að hafa áhrif í stjórnarandstöðu, við kunnum þann slag nokkuð vel. En það er hægt að hafa enn meiri áhrif í ríkisstjórn. Og fyrir hreyfingu sem drifin er áfram af hugsjónum, sem hefur skýra stefnu, þá skiptir öllu máli að hrinda hugsjónunum í framkvæmd, að sjá stefnumálin verða að veruleika. Við vitum að ná stefna okkar fram að ganga þá gerum við samfélagið okkar betra, manneskjulegra, fjölbreyttara og umburðarlyndara. Þegar á móti blæs og við sitjum undir árásum þá er ágætt að hafa það hugfast að andstæðingar okkar vilja allt til vinna að komast í ríkisstjórn, til að gera sín eigin stefnumál að veruleika. Um þetta snúast stjórnmál, þau snúast um stefnu og áherslu og möguleikann á því að móta samfélag okkar.

Það er alltaf hætta á þreytu þegar flokkar hafi verið lengi við stjórnvölinn. Við liggjum lágt í skoðanakönnunum og finnum að mótvindurinn um þessar mundir er allnokkur. Ég hef hins vegar verið félagi í þessari hreyfingu ansi lengi – eða 21 ár – og ef ég þekki okkur rétt látum við mótvindinn ekki buga okkur. En í mótvindi getur verið gott að staldra við og leggja nýtt mat á stöðuna, finna bestu leiðina fram á við og halda svo ótrauð áfram.

Staðreyndin er sú að ýmsir aðrir stjórnmálaflokkar skila auðu í mörgum af mikilvægustu áskorunum samtímans en láta sér nægja einföld skilaboð og treysta á að pólitísk umræða snúist aðeins um þau mál sem þeir vilja ræða eða það sem verra er, að umræðan snúist um ekki neitt nema ímynd og aukaatriði. Við Vinstri-græn vitum að það eru engin einföld svör við þeim flóknu áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir. Við erum stödd á umbrotatímum þar sem bæði loftslagsbreytingar og tæknibreytingar eru að verða á ógnvænlegum hraða. Það skiptir öllu hvernig við tökumst á við þessar breytingar og að við tryggjum að umskiptin verði réttlát og sanngjörn fyrir okkur öll.

Nú í vikunni bárust til dæmis þær ánægjulegu fregnir að málafylgja Íslands á alþjóðavettvangi sé að skila því að íslensk tunga verði gjaldgeng í hugbúnaði stórra fyrirtækja en í nýjustu útgáfu ChatGPT er íslenska eitt af þeim tungumálum sem gervigreindin styðst við sem er grundvallaratriði fyrir vöxt og viðgang tungumálsins. Þetta eru stórtíðindi og blása okkur anda í brjóst því okkar verkefni er að tryggja veg íslenskrar tungu. Þar eru ýmis verkefni framundan.  Íslenskukennsla er til dæmis ekki nægjanleg fyrir allt það erlenda fólk sem hingað hefur flutt – það þarf að njóta kennslunnar sér að kostnaðarlausu og á vinnutíma. Sá kostnaður sem af þeirri kennslu hlýst er smámunir einir þegar horft er til þess hversu auðveldara það verður fyrir þá sem hingað hafa flutt að aðlagast íslensku samfélagi. Ábatinn er margfaldur borið saman við kostnaðinn. Og við megum ekki gleyma börnunum sem eru umkringd ensku málumhverfi daginn út og inn í gegnum tækin sem sum þeirra fá í hendur áður en þau byrja að tala sjálf – við þurfum að sinna þeim sérstaklega.

Gervigreind og algrím eru að breyta öllu samfélaginu og þar er að mörgu að hyggja. Ég lét vinna aðgerðaáætlun um fjórðu iðnbyltinguna og unnið er samkvæmt tillögum hennar. Lögð er áhersla á að fjölga fólki af öllum kynjum í tæknigreinum og listgreinum til að tryggja að það verði fjölbreyttur hópur sem mótar tæknina fyrir samfélagið. Tæknin er nefnilega ekki hlutlaus. Við vitum til dæmis að konur hafa verið mun fámennari í þessum greinum en karlar en sú staðreynd hefur þau áhrif að tæknin er mótuð af körlum fyrir karla. Þessu þurfum við að breyta. Við vitum líka að vinnumarkaðurinn á eftir að taka stórkostlegum breytingum vegna tæknibreytinga og þar skiptir öllu máli hvernig við búum um menntakerfið frá fyrstu árum fram á fullorðinsár og að við tryggjum sí- og endurmenntun fyrir alla hópa og öflugar rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði.

Við höfum í okkar ríkisstjórn stóraukið framlög til rannsókna og þróunar, málefni sem fá litla umræðu í samfélaginu, en nú blasir við að við þurfum að sinna undirstöðunum betur, sjálfum háskólunum. Gleymum ekki að framfarir í nýsköpun verða iðulega til hjá hinu opinbera – þó að hina gagnstæða sé oft haldið fram. Það eru rannsóknirnar sem sinnt er bæði í háskólum og opinberum rannsóknastofnunum sem verða ósjaldan grundvöllur allra framfara í nýsköpun og þróun í atvinnulífinu á síðari stigum.

Samhliða tæknibreytingum vofir loftslagsváin yfir okkur. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið og á síðasta kjörtímabili voru stór skref stigin í að móta aðgerðir til að draga úr losun og binda meira kolefni. Við getum sannanlega bent á ýmsan árangur. Við höfum sett aukið fjármagn í rannsóknir og nýsköpun sem tengjast loftslagsmálum. Við höfum fjölgað rafbílum á götunum og byggt upp nauðsynlega innviði fyrir orkuskipti í samgöngum. Við erum að fjárfesta í Borgarlínu, alvöru almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu sem og umfangsmiklu stígakerfi til að geta boðið fólki upp á fjölbreyttari ferðamáta og dregið úr losun. Og það er ekki bara á jörðu niðri sem framfarirnar verða, ég flaug með fyrstu rafmagnsflugvélinni í fyrra og er ekki í nokkrum vafa um að innanlandsflug á Íslandi verður komið á græna orku fyrr en okkur flest grunar. Þá hef ég ekki nefnt það átak sem ráðist hefur verið í í landgræðslu og skógrækt. Í lok næsta mánaðar mun ég fara hringferð um landið til að ræða grænbók um sjáfbæra þróun við fólk víðsvegar um landið og móta fyrstu stefnu Íslands um sjálfbæra þróun sem byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Við höfum lyft grettistaki í loftslagsmálum en vitum líka að verkefnið er stórt og við þurfum stöðugt að leita leiða til að gera enn betur.  

En við þurfum líka að eiga opið samtal um hvernig við viljum ná þessum árangri, bæði innan hreyfingarinnar og við fólkið í landinu. Ég er ein þeirra sem hefur stutt rammaáætlun sem besta verkfærið sem við eigum til að leggja mat á mögulegar virkjanir – og ég minni á að fæstar þeirra hugmynda um vindorkuver sem hafa verið til hvað mestrar umræðu eru í nýtingarflokki rammaáætlunar – þar eru eingöngu tvö vindorkuver og bæði á vegum Landsvirkjunar. Ég tel að við eigum að byggja áfram á hugmyndafræði rammaáætlunar – þó að hugsanlega þurfi að leggja ólíka matsþætti til grundvallar í ólíkum gerðum orkuframleiðslu. Ég hef líka sagt að áætluð orkuþörf fyrir orkuskipti getur aldrei orðið annað en reiknuð stærð á einhverjum tímapunkti. Tækniþróun og samfélagsbreytingar munu hafa mikil áhrif á þróun mála á næstu árum og því tala ég fyrir því að vanda hvert skref og gæta vel að þeim einstöku gæðum sem við Íslendingar eigum í ósnortinni náttúru – gæðum sem eru einstök á heimsvísu. Við þurfum líka að huga að tilgangi orkuframleiðslu á Íslandi – mín sýn er að hún verði í þágu orkuskipta á Íslandi en ekki til útflutnings. Og það þarf að setja skýrar leikreglur – nú erum við í þeirri forréttindastöðu að flest orkufyrirtæki landsins eru í almannaeigu og sama má segja um flutningskerfið. Þannig eigum við að halda því. Ef fram fer einhver uppbygging af hálfu einkaaðila þurfa ekki aðeins að vera skýrar reglur um staðsetningu og skilyrði fyrir leyfisveitingu heldur þarf að vera skýrt hvaða  gjöld þeir eiga að greiða í ríkissjóð fyrir afnot af auðlindinni og þar kemur ekki til greina að endurtaka mistök annarra þjóða þar sem einkaaðilar hafa grætt á tá og fingri á orkukreppunni en almenningur borgað brúsann. Og ég tala fyrir því að þessi gjöld renni fyrst og fremst í ríkissjóð – síðan kann að vera eðlilegt að við endurdreifum þeim og við erum meðvituð um að ríki og sveitarfélög munu þurfa að semja um fjármagn fyrir ýmis verkefni eins og til dæmis málaflokk fatlaðra.

Auðlindanýting á Íslandi hefur fyrir löngu sannfært mig um mikilvægi þess að í stjórnarskrá verði ákvæði sem undirstriki sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum okkar og tryggi sjálfbæra nýtingu þeirra. Að nýtingarheimildum verði úthlutað með gagnsæjum hætti, þar sem jafnræðis verði gætt og tryggt verði eðlilegt gjald. Eins að umhverfis- og náttúruvernd og almannaréttur verði tryggð í stjórnarskrá. En því miður eru stjórnmálaflokkar á Íslandi fastir í gömlum skotgröfum. Þeir sem vilja aðeins og eingöngu drög stjórnlagaráðs í þeirri mynd sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar skilaði þeim af sér í mars 2013. Og hinir sem vilja helst engar breytingar og gleðjast yfir ósveigjanleika hinna fyrrnefndu. Við Vinstri-græn erum fyrir löngu búin að segja að við viljum breyta stjórnarskrá í áföngum því við vitum að á þessu máli er engin einföld lausn. Og ég mun gera aðra atlögu að því að leggja fram slíkar breytingar á þessu kjörtímabili og vona að einhverjir fleiri flokkar en síðast treysti sér til að koma í þá vegferð með okkur.

En kæru félagar. Þetta eru stóru áskoranirnar: Samfélagsbreytingar sem munu breyta öllu – umhverfi okkar, skólunum, vinnustöðunum – þar sem öllu skiptir hvernig við munum halda á spilunum. Og þar höfum við Vinstri-græn ekki aðeins talað skýrt heldur fylgt orðum eftir með gjörðum. Við erum stundum krafin um einfaldar lausnir en þær verða aldrei annað en slagorð. Við þurfum hins vegar að vera dugleg að benda á það sem við höfum gert, þeim árangri sem það hefur skilað og hvað við ætlum að gera næst. 

Góðir félagar.

Enginn er eyland í pólitík. Við í Vinstri-grænum erum með vel mannað lið, í ráðherrastólum, á Alþingi, í sveitarstjórnum, í stjórn hreyfingarinnar og svæðisfélögum um land allt. Ráðherrarnir eru með stór verkefni í höndum sem munu skila miklum árangri fyrir fólk og samfélagið allt ef vel tekst til. Endurskoðun örorkulífeyriskerfisins hefur staðið yfir allt þetta kjörtímabil og við nálgumst nú það að okkar góði varaformaður og félags- og vinnumarkaðsráðherra geti kynnt tillögur sínar að réttlátara, gagnsærra og einfaldara afkomutrygginga- og þjónustukerfi. Þar eru markmiðin nokkur en þau stærstu eru þau tryggja afkomu fólks með skerta starfsgetu á sama tíma og gefa fleira fólki tækifæri til virkni og atvinnuþátttöku, ekki síst ungu fólki sem hvorki er í námi né starfi. Ég hef væntingar um að frumvarp verði kynnt í vor og verði svo tekið fyrir á næsta þingvetri. Þetta verður eitt stærsta mál okkar Vinstri-grænna á þessu kjörtímabili og þarf mikla kynningu, umræðu og undirbúning.

Okkar góði matvælaráðherra stendur fyrir stefnumótun á sviði matvælaframleiðslu og þar má finna nýjar og ferskar vinstri-grænar áherslur. Ég vil sérstaklega nefna átak til að gera kornrækt að raunhæfum möguleika á Íslandi en það er ekki eingöngu loftslagsmál heldur styrkir einnig matvælaöryggi og fæðuöryggi þjóðarinnar. Einnig þetta þarf að kynna vel og rækilega.

Þá stendur yfir mikil vinna með þátttöku margra um endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Áfangaskýrsla hefur verið gefin út og ljóst að þar er um vandaða vinnu að ræða sem getur orðið grundvöllur. Við því er kannski ekki að búast að þessi vinna leysi allar deilur um fyrirkomulag fiskveiða en ég hef sannfæringu fyrir því að á grundvelli þessarar vinnu geti matvælaráðherrann okkar lagt fram tillögur sem geta orðið grundvöllur fyrir skynsamlegar og réttlátar breytingar á kerfinu. Fiskeldisskýrslurnar sem nýlega voru kynntar sýna okkur svart á hvítu að umbóta er þörf hvað varðar stjórnkerfi og það regluverk sem við höfum búið fiskeldi. Víða um land er þessi nýja atvinnugrein orðin mikilvæg stoð byggðanna en það verður heldur ekki litið fram hjá því að ósætti ríkir um starfsemina og áhrif hennar á umhverfi og lífríki. Þess vegna skiptir miklu að við eflum stjórnsýsluna, eftirlit og rannsóknir og gætum þess að eigendur þessara fyrirtækja greiða meira til samfélagsins – nokkuð sem matvælaráðherra mun leggja til nú í nýrri fjármálaáætlun.

Framundan er áframhaldandi uppbygging innviða en engin ríkisstjórn á síðari tímum hefur lagt fram jafn mikla vinnu í þágu innviðauppbyggingar. Nú eru 75% af flutningskerfi RARIK í jörð og við höfum tryggt varaafl um land allt. Við höfum verið í átaki í samgönguframkvæmdum. Við byrjuðum að byggja nýjan Landspítala eftir að fyrri ríkisstjórn hafði flæmst með það mál fram og til baka. Hús íslenskunnar verður opnað í vor – bygging sem ég tók skóflustungu að fyrir tíu árum en var sett í frost í tíð fyrri ríkisstjórnar. Háskóli Íslands gerir nú upp Bændahöllina fornfrægu og þangað flytjast von bráðar kennaranemar og önnur þau sem leggja stund á menntavísindi. Við höfum verið stolt af því að byggja upp innviði, bæði áþreifanlega og óáþreifanlega.

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld beitt sér með markvissum hætti á húsnæðismarkaði. Það höfum við gert með stofnframlögum inn í almenna íbúðakerfið, hlutdeildarlánum, lánveitingum í gegnum húsnæðissjóð og eflingu húsnæðisbótakerfanna. Árangurinn er sá að þriðjungur nýbyggðra íbúða á undanförnum árum er byggður á félagslegum grunni vegna aðgerða stjórnvalda, sem er auðvitað ótrúlegt hlutfall og þýðir það að húsnæðisöryggi hefur nú þegar aukist hjá hundruðum fjölskyldna. Rammasamkomulag ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu á íbúðarhúsnæði markar tímamót í þessum efnum en þar er stefna mörkuð til framtíðar. Viðfangsefnið er að ná fram jafnvægi á húsnæðismarkaði hvað varðar framboð og verðlagsþróun; ná jafnvægi milli ólíkra tegunda af húsnæði og jafnvægi milli  uppbyggingar á almennum markaði og þess hluta húsnæðismarkaðarins  sem byggist á félagslegum lausnum. Þannig tryggjum við öllum hópum húsnæðisöryggi. Og nú er að störfum hópur með aðilum vinnumarkaðarins um umbætur á leigumarkaði og þar þarf að setja skýr mörk gagnvart framgöngu leigufélaga sem hafa gengið fram af óbilgirni í hækkunum á leiguverði.

Allt eru þetta kerfisbreytingar í þágu venjulegs fólks. Og ekki síst hinna tekjulægri. Þrátt fyrir að við sem búum á Íslandi séum að mörgu leyti í forréttindastöðu vitum við öll að það er líka fátækt fólk á Íslandi. Okkar stefna í ríkisstjórn hefur verið að miða allar kerfisbreytingar að því að við tökum sem best utan um tekjulægri hópa. Sem betur fer er mikill félagslegur hreyfanleiki á Íslandi eins og sést í gögnum Tekjusögunnar sem sýnir breytingar á lífskjörum einstaklinga yfir æviskeiðið, byggt á raunverulegum gögnum. En við þurfum að halda áfram og gera betur, og bregðast sérstaklega við þegar við sjáum fjölgun í hópi barna sem búa við fátækt. Þegar hefur verið gripið til aðgerða en betur má ef duga skal. Breytingar á örorkukerfinu eru stór þáttur í að útrýma fátækt, öflugra barnabótakerfi er annar þáttur og þrepaskipt framsækið skattkerfi skiptir líka máli.

Ég hef í mínum störfum forgangsraðað tveimur stórum jafnréttismálum sem eru baráttan gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreiti og baráttan gegn launamun kynjanna. Eins og ég nefndi hér áðan hafa mikilvægar lagabreytingar náðst í gegn hvað varðar kynbundið og kynferðislegt ofbeldi. Þá er ekki allt talið heldur var samþykkt forvarnaáætlun í þessu skyni sem ég fylgist með og snýst um að öll börn fái fræðslu um þessi málefni. Markmiðið er að útrýma þessari samfélagslegu meinsemd. Hvað varðar launamun kynjanna þá hefur hann jafnt og þétt dregist saman á undanförnum árum, meðal annars vegna aðgerða stjórnvalda eins og jafnlaunavottun. Við teljum hins vegar að sá launamunur sem eftir stendur stafi fyrst og fremst af því að við metum ekki virði starfa sem unnin eru af hefðbundnum kvennastéttum með sama hætti og þau störf sem almennt er sinnt af körlum. Við erum því lögð af stað í tilraunaverkefni hjá fjórum opinberum stofnunum þar sem vinna á með svokallaða jafnvirðisnálgun. Ég er bjartsýn á að þetta verkefni skili niðurstöðum sem við getum heimfært upp á allan vinnumarkaðinn. Markmiðið er að útrýma kynbundnum launamun fyrir árið 2030.

Að lokum vil ég nefna enn eitt risaverkefnið sem er lögfesting Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en nauðsynleg forsenda fyrir því verkefni er að sett verði á laggirnar ný sjálfstæð og óháð Mannréttindastofnun. Ég mun leggja fram frumvarp um slíka stofnun næsta haust og vona að hún geti orðið að veruleika strax um áramótin. Á sama tíma er unnið að landsáætlun um mannréttindi sem verður spennandi verkefni fyrir Ísland.

Um þessar mundir er tillaga mín um aðgerðir gegn hatursorðræðu til umræðu í þinginu. Aðgerðunum er fyrst og fremst ætlað að efla fræðslu og umræðu í samfélaginu og tryggja þannig að við sem samfélag tökumst á við hatursorðræðu. Hatursorðræða er ofbeldi og við líðum hana ekki. Þetta er mikilvægt mál sem á sér margar hliðar, opin umræða þar sem allir geta óhræddir tekið þátt er til að mynda ein grundvallarforsenda lýðræðis og opins samfélags. Raddir þeirra sem eru jaðarsettir og raddir þeirra sem tilheyra minnihlutahópum eru nákvæmlega jafn mikilvægar og stundum mikilvægari en raddir annarra. Hatursorðræða vekur ótta og skemmir hratt út frá sér. Það er því mikill misskilningur og í raun er hlutunum illilega snúið á hvolf þegar því er haldið fram að aðgerðir gegn hatursumræðu dragi úr tjáningarfrelsi. Sú umræða er svona svipuð því að halda því fram að lög gegn ofsaakstri dragi úr ferðafrelsi manna. En auðvitað hlustum við á öll sjónarmið í þessu máli og við vöndum okkur þannig að sem best sé tryggt að tjáningarfrelsi allra sé varið

Ég vil nefna hér annað mál sem hefur verið í brennidepli undanfarin misseri. Málefni flóttafólks eru vaxandi viðfangsefni stjórnvalda, ekki bara hér á Íslandi heldur á alþjóðavettvangi. Stríð og afleiðingar loftslagsbreytinga hafa aukið mjög á þennan vanda og okkur Íslendingum ber skylda til að gera það sem við getum til að aðstoða fólk á flótta.

Málefni fólks á flótta eru deilumál í flestum löndum Evrópu og Ísland er þar engin undantekning. Okkur hefur þó tekist að halda bærilegri sátt um þetta mikilvæga mál að minnsta kosti hingað til, þótt eðlilega séu skiptar skoðanir um einstök atriði og framkvæmd. En ég hef áhyggjur af því að  vaxandi skautun í stjórnmálaumræðu leiði til harðari átaka. Skautun hefur nefnilega þann leiða eiginleika að fólk velur sér sannleika, óháð staðreyndum og breiðir þannig út hæpnar og jafnvel rangar upplýsingar. Í jafn viðkvæmum málaflokki og málefni flóttamanna eru, þá er þar á ferðinni hættuleg þróun.

Við höfum reyndar orðið vitni að slíkri þróun meðal annars hjá frændum okkar og vinum á Norðurlöndunum. Þar hafa umræður um málefni flóttamanna orðið harkalegar og jafnvel leitt af sér stefnu sem okkur á vinstri væng stjórnmálanna þykir ekki passa vel við áherslur norrænna velferðarríkja.

Skynsamlegasta leiðin til að koma í veg fyrir slíka þróun hér hjá okkur er að tryggja sem best að fólk sem kýs að koma hingað fá tækifæri til að taka þátt í samfélaginu. Til þess að svo megi verða þurfum við að tryggja að nægjanlegt fjármagn sé til staðar og að kerfin okkar, innviðir samfélagsins, taki utan um þennan hóp og auðveldi honum að aðlagast íslensku þjóðlífi.

Mörg ykkar hafa samband við mig þegar það koma upp erfið mál sem snúa að einstaklingum sem hafnað hefur verið um dvalarleyfi á Íslandi. Öll slík mál eru erfið, bak við þau er fólk, einstaklingar sem að öllu jöfnu eru í óbærilegri stöðu. Og eðlilega beinist pólitísk umræða að okkur því fólk veit hvar hjarta okkar slær í þessum málum. Við gerum okkur auðvitað grein fyrir að lög og reglur þurfa að gilda en um leið er um að ræða örlög einstaklinga og fjölskyldna í gríðarlega viðkvæmri stöðu sem eiga allt undir því hvernig lögin og reglurnar eru túlkuð.

Kæru félagar.

Við erum í ríkisstjórn og getum því haft jákvæð áhrif. Eitt af því sem við gerðum var að í upphafi kjörtímabilsins færðum við þjónustu við útlendinga til félagsmálaráðuneytisins. Við höfum kafað djúpt í þessi mál og tekið stór skref til að uppfæra kerfi sem hefur reynst algjörlega vanbúið til að takast á við þann mikla fjölda sem hingað kom í fyrra og mun áfram verða mikill í ár. Félagsmálaráðherrann og hans fólk  hefur unnið hörðum höndum að því verkefni að búa betur að umsækjendum um alþjóðlega vernd og tryggja þannig að Ísland standi í raun við skyldur sínar í þessum efnum.

Ég hef sett af stað vinnu við að bæta allar greiningar og upplýsingagjöf á milli stofnana með það að markmiði að hraða og bæta málsmeðferð. Þá var á dögunum auglýst starf samhæfingarstjóra í málefnum flóttafólks enda er þetta verkefni sem kallar á ríkt samstarf ólíkra ráðuneyta og stofnana.

Í síðustu viku kynntum við tillögur sem ætlað er að greiða fyrir því að fólk utan EES geti sótt hér um starf og unnið hér en þröng skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfa fyrir þennan hóp hafa endurspeglað stefnu síðustu áratuga að reyna frekar hamla því að fólk geti leitað sér að betra lífi hér en að greiða fyrir því. Staðreyndin er sú að margt hefur breyst til hins betra í málefnum og viðhorfi gagnvart útlendingum hér á landi. Fyrir utan það að hafa tekið á móti svo margföldum fjölda flóttafólks í fyrra að hann var jafnmikill samanlögðum fjölda flóttafólks á Íslandi frá upphafi þá munum við gera breytingar á dvalarleyfakerfinu fyrir fólk utan EES sem mun stórbæta möguleika fólks á að koma hingað – breytingar sem hafa verið í umræðunni í áratugi, umdeildar en aldrei hefur verið hægt að hreyfa við neinu, fyrr en nú. Þannig að látum ekki segja okkur að stefna þessarar hreyfingar í útlendingamálum sé önnur en hún er – staðreyndirnar tala sínu máli.

Veigamesta kerfisbreytingin er að lagt er til að atvinnuleyfi fylgi launamanninum – ekki atvinnurekandanum – sem er mikið umbótamál fyrir atvinnufrelsi en einnig er lagt til að lengja gildistíma leyfanna, gefa út leyfi fyrir sjálfstæðan atvinnurekstur á tilteknum sviðum og gefa erlendum háskólanemum á Íslandi færi til að vinna á Íslandi að loknu námi. Þessar breytingar eru af þeim toga að þær geta haft raunveruleg áhrif á velsæld einstaklinganna – og það er nákvæmlega það sem við stöndum fyrir. Kerfisbreytingar í þágu fólksins.

Kæru félagar.

Umhverfi okkar í öryggismálum hefur breyst á undanförnu ári. Eftir að Rússland réðst inn í Úkraínu er aftur hafið stríð í álfunni okkar með tilheyrandi áhrifum á öll Evrópuríki. Við Íslendingar förum ekki varhluta af þessari þróun þar sem umferð hvers kyns hernaðarfarartækja um okkar lögsögu og lofthelgi hefur aukist. Og hvort sem við lítum til þeirra ríkja sem við erum í bandalagi með eða annarra ríkja þá sjáum við því miður aukna fjárfestingu í vígbúnaði í okkar heimshluta. Þegar við Vinstri-græn tókum að okkur að leiða ríkisstjórn 2017 og skrifuðum þá upp á það að fylgja samþykktri þjóðaröryggisstefnu. Það höfum við gert af heilindum og trúnaði sem hefur líka þýtt að ég hef sótt leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins og við höfum rækt skyldur okkar í öryggis- og varnarmálum en um leið lagt áherslu á að við erum friðsöm þjóð. Þannig höfum við staðið fyrir viðhaldi bygginga á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Við höfum fjárfest í netöryggismálum sem var full þörf á og undir okkur forystu keyptu stjórnvöld FARICE og við lögðum nýjan fjarskiptastreng til landsins sem í senn eykur fjarskipta- og netöryggi og fjölgar tækifærum hér á landi í öllum þeim geirum sem krefjast fjarskipta.

Við samþykktum nýlega þjóðaröryggisstefnu á Alþingi sem byggir á sömu grundvallaratriðum og sú stefna sem var samþykkt árið 2016. Hennar grundvallarmarkmið er að byggja á því sem hefur einkennt norræn samfélög um langt skeið: Samfélagslegu trausti. Við búum í samfélagi þar sem við gerum ráð fyrir því að grannar okkar séu traustsins verðir. Þar sem við skiljum börnin okkar eftir í barnavögnum fyrir utan kaffihús í miðbænum. Við reiknum ekki með því að það séu glæpamenn á hverju horni – enda er það ekki svo. Og hluti af okkar samfélagi er sú heimsmynd að við göngum í sama grunnskólann, förum á sama spítalann, hringjum í sömu lögregluna. Í stuttu máli sú heimsmynd að jöfnuður sé almennur og að við þurfum ekki að óttast hvert annað. Jöfnuður er mikilvægasta leiðin til að tryggja samheldni og samfélagslegt öryggi.

Þjóðaröryggisstefnan hvílir á þessu samfélagslega trausti og tekur um leið á ólíkum ógnum. Í henni er fjallað um hernaðarógnir. En það er líka fjallað um aðrar ógnir og önnur öryggismál. Það er fjallað um farsóttir, loftslagsvána og fjármálaógnir. Það er fjallað um fjarskipta- og netöryggi og matvæla- og fæðuöryggi. Það er fjallað um náttúruhamfarir og almannavarnir. Í stuttu máli er fjallað um öryggismál á breiðum grunni og sú nálgun hefur reynst okkur Íslendingum vel. Ekki hefur skort sjálfskipaða fræðinga í fjölmiðlum sem kvarta undan því að stefnan taki ekki mið af stríðinu í Úkraínu – en gleyma því að þjóðaröryggisráð undir minni forystu gaf nýlega út áhættumat sem verður okkar leiðarvísir í aðgerðum okkar næstu misseri. Og gleyma því að hlutverk þjóðaröryggisráðs er að tryggja að öll ráðuneyti vinni að framgangi stefnunnar. Nýleg skýrsla um neyðarbirgðir leggur til dæmis þær skyldur á herðar ólíkra ráðuneyta að tryggja lyf, lækningatæki, eldsneyti, íhluti, matvæli og fleira. Þannig vinna ráðuneytin að framgangi aðgerða sem fylgja stefnunni. Eitthvað hvarflar að mér að gagnrýnendur stefnunnar (ýmsir þeirra úr stjórnarandstöðuflokkum) séu fyrst og fremst að leika pólitískan leik sem er ábyrgðarhluti þegar um öryggi þjóðarinnar er að ræða.

Við Vinstri-græn höfum frá því að stríðið skall á talað fyrir skýrum stuðningi við Úkraínu en líka haldið á lofti þeirri sýn að það megi aldrei útiloka friðsamlegar lausnir. Þær verða að byggjast á réttlátum grunni – friður verður aldrei þvingaður fram með kúgun og ofbeldi.

Það hefur ekki verið mikið rými fyrir friðarboðskap að undanförnu. En um leið hefur hann aldrei verið mikilvægari. Því stríðið sýnir svo skýrt að friður er forsenda allra framfara. Mannréttindi, lýðræði, jafnrétti, velsæld – allt verður þetta undan að láta þegar það geisar stríð.

Kæru vinir.

Fyrir fimm dögum yfirgaf ég landið á björtum og ísköldum sunnudegi. Ferðinni var heitið til Úkraínu en þangað fór ég ásamt utanríkisráðherra til að ræða sérstaklega störf Evrópuráðsins þar sem Ísland fer nú með formennsku og leiðtogafundinn sem er framundan hér á Íslandi í maímánuði. Þar er ætlunin að fjalla sérstaklega um Úkraínu en Evrópuráðið hefur talað mjög skýrt gegn innrásinni sem er skýrt brot á alþjóðalögum. Því miður er engin úrlausn í sjónmáli í stríðinu. Og mögulega getur það staðið lengi enn en því lengur sem það stendur, þeim mun alvarlegri verða ýmsar langtímaafleiðingar þess.

2700 Úkraínumenn hafa fengið vernd á Íslandi frá upphafi stríðsins sem er auðvitað aðeins brot af þeim milljónum sem eru á flótta undan átökunum. Mannfallið er gríðarlegt, skaðinn og eyðileggingin sömuleiðis. Það er erfitt að ímynda sér þennan hrylling fyrir okkur sem erum hér – sem betur fer fjarri heimsins vígaslóð. Tilgangurinn með þessum stríðsrekstri er vandséður en skaðinn ómældur fyrir milljónir manna.

En kæru vinir. Ekkert er jafn átakanlegt, jafn sorglegt, jafn ömurlegt, og að sjá afleiðingar stríðs af manna völdum. Að heimsækja samfélag í stríði þar sem áfram þarf að reka skóla og sjúkrahús, áfram þarf að sinna alls konar störfum, áfram þarf að vera til en markmiðin eru í raun aðeins þau að lifa af. Allt það fallega í lífinu verður einhvern veginn dýrmætara, sjaldgæfara, einstakara.

Og um leið rennur upp fyrir okkur hversu mikilvægt allt er sem við eigum hér á Íslandi og allt það sem við berjumst fyrir á hverjum degi til að gera líf fólksins í landinu aðeins betra. Stríðsrekstur minnir okkur á að það er hægt að kippa öllu því starfi hratt úr sambandi – öllu því sem við höfum unnið að – og snúa heiminum á hvolf.

Nei, kæru félagar. Þangað viljum við ekki fara. Þrátt fyrir stríð í Evrópu munum við í Vinstri-grænum ekki falla frá sannfæringu okkar um frið, mikilvægi þess að tala um frið og tala fyrir friði. Við Íslendingar eigum alltaf að vera talsmenn friðar, talsmenn þess að alþjóðalög séu virt og réttur þjóða til að ráða sínum málum sjálfar sé virtur. Rödd okkar öðlast ekki styrk í krafti vopna, mannfjölda eða ríkidæmis. En við höfum áhrif meðal annars vegna þess að við höfum byggt upp gott og friðsælt samfélag. Við höfum byggt upp samfélag velsældar og jöfnuðar, samfélag þar sem við öll eigum tækifæri til að láta draumana rætast og þroska hæfileika okkar. Samfélag þar sem við treystum hvert öðru og skipum okkur ekki í ólík lið heldur einmitt vitum að þegar á móti blæs tökum við höndum saman og róum öll í sömu átt. Samfélag sem ég veit að er dýrmætt í heiminum í dag, samfélag sem við sjálf höfum allt vald um hvernig við þróum og byggjum áfram upp.

Kæru vinir. Þátttaka í ríkisstjórn kostar ávallt sitt, ég þarf ekki að útskýra það hér í þennan hóp og ég fæ auðvitað stundum þá spurningu hvort vera í ríkisstjórn sé þess virði fyrir hreyfinguna okkar. Og ég skil vel að svona sé spurt það er eðlilegt þegar hreyfingin okkar hefur verið lengi í ríkisstjórn. En miklu oftar, miklu miklu oftar, fæ ég hvatningu og stuðning frá félögum okkar, bréf, símtöl, samtöl á förnum vegi sem öll eiga það sameiginlegt að við í Vinstri-grænum viljum rísa undir ábyrgð. Við viljum hafa mótandi áhrif, við eflumst við mótlæti og við viljum leiða samfélagið okkar í átt að réttlátu þjóðfélagi þar sem allir eiga tækifæri á að lifa með sæmd og reisn. Fyrir þennan stuðning vil ég þakka, hann veitir mér og okkur öllum kraft og þrek til að halda áfram vinnunni, takast á við þau mjög svo krefjandi verkefni sem eru framundan og halda áfram að hrinda stefnunni okkar í framkvæmd og bæta þannig líf fólksins í landinu jafnt og þétt. Áfram veginn kæru félagar!

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search