PO
EN
Search
Close this search box.

Kellingabylting

Deildu 

Eitt það almikilvægasta í pólitískri tilveru er að gefa sér alltaf tíma fyrir bækur, ljóð, skáldsögur – bókmenntir sem urðu til í huga höfundarins, segja sögu, miðla sýn eða samhengi, koma á óvart og skapa nýjar tengingar í hugskoti lesandans. Innan um tölur og pólitískar fyrirsagnir, stundum persónulegar, oft málefnalegar, er dýrmætt að hafa streng til að prjóna við stærra samhengi, víðari sýn.

Nú í haust kom út skáldsaga eftir rithöfundinn Evu Rún Snorradóttur, Eldri konur. Ástarsaga, þroskasaga, listilega skrifuð, framvindan fram og til baka í tíma og smám saman dregst upp heildarmynd, allt skýrist en samt er flækjan óleysanleg. Sjálf segir höfundurinn að bókin sé röntgenmynd af ástandi.

Líkt og þessi bók eru stjórnmálin mynd af ástandi. Stundum eins og í móðu en stundum kristaltær. Stundum raunsönn en stundum bjöguð. Ríkjandi valdhafar segja allt í sóma en aðrir flokkar tala um að samfélagið sé á vonarvöl. Nú sé lag að koma að nýjum hugsjónum, ferskum vindum, öðrum aðferðum. Hugmyndafræði og hagsmunir skapa grundvöll umræðunnar, yfirlýsingar eins og stórar pensilstrokur á striga samtalsins og kalla fram sterk viðbrögð en ná ekki utan um yfirþyrmandi áskoranir nútímans. Okkur tekst illa að fanga loftslagsvána, öfga í veðurfari, fátækt um víða veröld, stríð og valdbeitingu á þeim örsmáa striga sem slagorð og pallborð gefa okkur.

Á dögunum hlustaði ég á höfundinn lesa kafla úr bókinni en hún lauk upplestrinum á því að segja að okkar eina von væri kellingabylting. Að við horfðum til eldri kvenna, lífrseynslu þeirra og yfirsýnar, umhyggju þeirra og visku. Þessi orð hafa dvalið með mér og nú þegar ég hef lokið bókinni sækir sú hugsun enn meira á mig.

Þegar öllu er á botninn hvolft þurfum við meira af slíkri orku og slíkum sjónarmiðum. Hófstillingu og kjark frammi fyrir yfirgangi og frekju hinna hefðbundnu stjórnmála sem segja „meirihlutinn ræður“ og beita svo valdi sínu. Krafan um að við tölum saman í þeim anda sem konur hafa gert í gegnum söguna alla. Konur sem um aldir hafa sett mál á dagskrá og gert hið persónulega pólitískt; leikskóla, fæðingarorlof, heimilisofbeldi, launamun kynjanna, þungunarrof, getnaðarvarnir. Alvöru mál. Og hvika hvergi.

Höldum uppi flaggi þessara kvenna og baráttu þeirra. Kvenna í verkalýðshreyfingunni, í grasrótarsamtökum, í alþjóðlegum hreyfingum sem berjast gegn ofbeldi og fyrir friði og réttlæti fyrir konur, og þar með okkur öll, um veröld víða.

Kellingabylting er leiðin. Samstaða kvenna og kvára er svarið við ógnum sem steðja að mannkyni, náttúru og vistkerfum jarðar. Svo njótum við stuðnings kalla á öllum aldri sem ekki hika þegar spurt er: Ertu femínisti?

Við erum líka að kjósa um þetta á laugardaginn. Áfram stelpur! Setjum x við V!

Svandís Svavarsdóttir, formaður VG

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. 11. 24

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search