Search
Close this search box.

Klisjur tröllanna

Deildu 

Tröllin eru sjaldan frumleg, skrifaði Mary Beard. Átti hún sennilega við að sömu frasarnir, aðferðirnar og sömu klisjurnar eru notaðar aftur og aftur til að niðurlægja, gera lítið úr eða berja niður nauðsynlegar samfélagsbreytingar. Oftast andspyrnu sem beint er gegn konum og femínískum byltingum. Byltingum sem beinast gegn kúgun og kerfisbundnu ofbeldi.

Þegar búið er að benda á þemað og maður er farinn að sjá klisjukenndu mýturnar endurtaka sig verður andspyrna ofbeldismanna, tröllanna, frekar vandræðaleg og máttlaus. Allavega ekki sannfærandi né trúverðug.

Mýturnar

Við höfum vanist ákveðnum söguskýringum um ofbeldi og ofbeldismenn. Sömu klisjunum er fleygt fram í tilraun til þess að draga úr trúverðugleika þolenda og til að styrkja mýturnar sem við þráum að trúa. Klisjum á borð við að konur séu geðsjúkir og ómarktækir lygarar sem stíga fram og tala um ofbeldi sem þær hafa verið beittar. Þetta hljóti nú að vera slitið úr samhengi. Setjum spurningarmerki við tímasetningu frásagnarinnar. Eins og það sé einhvern tímann akkúrat rétti tímapunkturinn til að stíga fram og tala um óþægilega hluti, í augum ofbeldismanna?

„Það þarf einbeittan ásetning til afneitunar til að sjá ekki hvernig karlar hafa kerfisbundið misnotað valdastöðu sína“

Við þráum að trúa þessum klisjum, sérstaklega þegar við þekkjum ofbeldismanninn einungis af hinu góða. Við getum ekki horft upp á heimsmynd okkar hrynja. Hin íslenska alkóhólíska meðvirkni tekur yfir. Við reynum að humma þetta af okkur og höldum í vonina um að mýturnar séu hin rétta útgáfa af sögunni. Þegjum, segjum ekkert. Það getur nú varla verið að hann, þessi góði og merkilegi maður, geti hafa gert alla þessa ljótu hluti.

Kerfisbundin innræting

Okkur hefur verið tamin þessi innræting, kerfisbundið og í fullkominni (jafnvel ómeðvitaðri) meðvirkni. Ráðandi öfl síðustu áratuga hafa málað upp mynd af gerendum og þolendum. Að gerandi búi í dimmu skuggasundi eða sé siðblindur utangarðsmaður eða útlendingur. Einhvers staðar fjarri okkar hreina samfélagi. Þolandi hefði bara átt að passa sig og getur sjálfum sér um kennt. Þolendaskömmun og gerendameðvirkni virðist innréttuð í samfélagsgerðina. Þjóðarsálina. Að hneigjast frekar að því að efast um upplifun þolanda en geranda. Trúa frekar illum ásetningi þolanda en gjörðum geranda. Nema gerandinn sé útlendingur. En við erum engir rasistar eða kvenhatarar sko.

Tökum afstöðu

Setjum hlutina í samhengi og reynum að sjá stóru myndina. Það þarf einbeittan ásetning til afneitunar til að sjá ekki hvernig karlar hafa kerfisbundið misnotað valdastöðu sína. Gegn konum (og sumum körlum) í öllum stéttum, í öllum störfum og á alls konar vettvangi. Í krafti samfélagsgerðarinnar sem þeir sjálfir hafa byggt upp. Í skjóli laganna sem þeir hafa samið. Í formi siðferðiskenndar og marka sem þeir sjálfir hafa ákveðið.  Með orðræðu sem þeir stýra. Alls staðar leynast góðir menn sem kunna á valdið og eru tilbúnir til að beita því.

Höfnum þessari misbeitingu á valdi, bendum áfram á klisjukenndu og ofnotuðu frasana sem ofbeldismenn nota til að komast undan því að axla ábyrgð á hegðun sinni. Hættum að halda að við getum verið hlutlaus og sleppt því að taka afstöðu. Afstöðuleysið okkar, þögnin okkar, er það eina sem ofbeldismenn þrá. Þannig styrkjum við stöðu þeirra. Þannig erum við samsek í því að viðhalda samfélagsgerð sem nærir jarðveg ofbeldis og meðvirkni. Tökum afstöðu og trúum þolendum.

Greinin birtist upphaflega í Stundinni.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search