PO
EN

Kolefnisbinding

Deildu 

Gagnsemi landsskipulagsstefnu er augljós og leggja þarf vandaða vinnu í framkvæmd hennar með ljósri verkaskiptingu milli ráðuneyta. Flokkun lands vegna landnotkunar, landbúnaðar og annarra nytja, er afar brýnt verkefni vegna ólíkrar hæfni lands og vaxandi þrýstings á landnotkun. Við sögu kemur  aukin matvælaframleiðsla, aukin fóðurframleiðsla, orkujurtir skipta æ meira máli, endurheimt votlendis eykst, skógrækt er að vaxa, bæði erlendar tegundir og innlendar, uppgræðsla lands, orkuframleiðsla o.s.frv.

Mig langar að minnast á skógrækt sem er ekki unnin með viðunandi hraða, þrátt fyrir aukna fjármuni og mikinn áhuga og brýna þörf. Minna á nýjung á vegum Skógræktarinnar, svokallað skógarkolefnisverkefni. Þar er um að ræða samvinnu Skógræktarinnar við skógræktarbændur. Til er svokölluð Skógræktarbrú og þetta verkefni, Skógarkolefni, hefur sérvefsíðu. Það felst í að fyrirtæki, jafnvel erlend, stofnanir, einstaklingar, leggja fé í skógrækt til að binda kolefni vegna eigin starfsemi. Árangurinn er mældur og vottaður og verið að binda kolefni til framtíðar og minnka áhrif eigin losunar á koldíoxíði á andrúmsloftið með því að binda það hér á landi í trjám. Mjög brýnt er að landsskipulagsstefna taki tillit til þessa, að það verði til reitir sem heita einfaldlega loftslagsskógar. Ég hvet til þessara augljósu framfara og tel að við þurfum að slá í klárinn að þessu leyti.

Svo er komið fram frumvarp um niðurdælingu á kolefnisgasi í jarðlög þar sem það fellur út sem samband kolefnis, súrefnis og kalks. Í hreinu, fallegu formi gengur það undir heitinu silfurberg, sem margir Íslendingar þekkja úr sögunni vegna þess að íslenska silfurbergið er í raun og veru heimsfrægt. Það var hluti af byltingu í ljóstæknifræðum, optík, sem kallast svo, þegar var verið að þróa sérstakar smásjár og taka stórstíg skref í vísindaframförum fyrir löngu síðan. Á sem sagt stóran sess í vísindasögunni. Það var að koma merk bók út hér á Íslandi um íslenska silfurbergið. Þessi er tæki með silfurbergi ekki notuð lengur en núna fær silfurbergið nýjan sess í vísindasögunni því að niðurdælingin er afurð vísinda en um leið öðlast það nú nýjan sess í sögu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Frumvarpið sem við ræðum um niðurdælingu kolefnisagss er glæsilegt frumkvæði af hálfu stjórnvalda og vísindamanna, og nú Alþingis, vegna þess að við þurfum að afgreiða það og ég á ekki von á öðru en að um það verði þverpólitísk samstaða.

Ari Trausti Guðmundsson, alþingismaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search