EN
PO
Search
Close this search box.

Kolefnishlutlaus nýting

Deildu 

Hvað höfum við gert? Þetta tvíræða heiti á þáttaröð um loftslagsmál fangar betur en margt annað stöðuna sem mannkynið er búið að koma sér í. Hvað höfum við gert, sem hefur haft þær grafalvarlegu afleiðingar sem öllum sem kynna sér málin hljóta að vera ljósar? Önnur áleitin spurning er hvað höfum við ekki gert? Og ekki síður, hvað getum við gert?

Við getum til dæmis beitt öllu okkar stjórnkerfi til að leggja lóð á vogarskálarnar. Staðan er nefnilega þannig að það er ekkert eitt svar við síðast töldu spurningunni, það er engin ein töfralausn á því hvað við getum gert, eða hvað við eigum að gera. Eitt af því á að vera að beita ríkisvaldinu betur til að styðja að kolefnishlutleysi. Þar á ég bæði við landið í heild, eins og stefna ríkisstjórnarinnar er að hafa náð árið 2040, sem og í einstökum geirum.

Sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar eru mýmargar, orkan í landinu, fiskurinn í sjónum, nytjar á jörðum og nýting hafsins. Einstaka fólk og fyrirtæki fær heimild til að nýta þessar sameiginlegu auðlindir þjóðarinnar.

Ég hef lagt fram fyrirspurnir til fjármálaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um það hvort setja eigi þá stefnu að nýting á sameiginlegum auðlindum skuldi bundin þeim kvöðum að hún verði kolefnishlutlaus. Þar er bæði horft til útblásturs og mótvægisaðgerða.

Verði það gert, þá fengi ekkert sjávarútvegsfyrirtæki kvóta nema að kolefnishlutleysi yrði tryggt við sókn í hann og vinnslu. Ekkert fiskeldisfyrirtæki fengi úthlutað leyfi, nema það sama yrði tryggt. Orkufyrirtækin yrðu að huga að því við sína nýtingu, ferðaþjónustufyrirtæki sem nýta sameiginleg landsvæði og svo framvegis.

Hæpið er að hægt yrði að skella slíkri reglu á óforvarindis, gefa þyrfti tíma til aðlögunar. Þetta er hins vegar eitt af því sem við getum gert. Þegar næsta kynslóð spyr hvað við höfum gert, gæti þetta verið eitt af jákvæðu svörunum.

Kolbeinn Óttarsson Proppé er Alþingismaður. 

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search