Search
Close this search box.

Komum sterkari út úr kreppunni

Deildu 

Það má sannarlega teljast til tíðinda að 1. maí líði án þess að verkafólk gangi fylktu liði um götur og setji fram kröfur sínar. Að vísu hafa verið gerðar tilraunir til að draga úr vægi 1. maí, til dæmis með tillögum um að færa „frídaginn“ að helgi og hvetja fólk til ferðalaga eða með því að helga baráttudaginn fjölskylduhátíðum.

Það eru þó ekki slíkar hugmyndir sem ráða för nú heldur einn svæsnasti heimsfaraldur sem sögur fara af. Samkomubann dregur samt sem áður ekki úr samstöðunni og nú nýtir verkalýðshreyfingin tæknina til að skerpa á baráttunni. Því ef heimsfaraldurinn hefur sýnt fram á eitthvað þá er það gildi öflugra grunnstoða sem felast í opinberum heilbrigðiskerfum, velferð og sterkum tryggingum launafólks. Samfélög, sem búa við veikar grunnstoðir, fara ekki aðeins illa út úr heimsfaraldrinum heldur líka kreppunni sem faraldrinum fylgir.

Ákvarðanir sem oft eru teknar með hraði á krepputímum geta haft miklar langtímaafleiðingar. Þetta hafa hagsmunaöfl hinna ríku um allan heim lengi vitað og láta sér ekki „góða kreppu“ úr greipum ganga. Kreppur hafa verið notaðar til að færa meira fé til þeirra sem mest hafa og til að grafa undan samfélagslegum innviðum, til dæmis með niðurskurði. Þá hafa kreppur oft orðið til þess að breikka kynjabilið í samfélaginu, ekki síst með því að búa til störf fyrir karla og fjármagna þau með niðurskurði í opinberum kerfum, sem aftur leiðir til langtímaatvinnuleysis kvenna og aukinnar ólaunaðrar vinnu sem þær þá sinna í staðinn. Þess vegna skiptir máli hvernig er haldið á spöðunum í efnahagskreppu.

Eitt af stóru viðfangsefnunum núna er að tryggja að uppbygging efnahagskerfisins þjóni framtíðinni, þótt uppi séu háværar kröfur um að endurreisa það í sömu mynd. Svo kaldhæðnislegt sem það er hefur heimsfaraldurinn orðið til þess að draga úr mengun í heiminum. Það, hvernig við förum af stað að nýju, mun hafa áhrif á það hvort mengunin nær strax sömu hæðum. Hér er því gullið tækifæri til að búa í haginn fyrir stærsta viðfangsefni samtímans og hina viðvarandi ógn við líf okkar og heilsu: Loftslagsbreytingar. Sum þeirra starfa sem tapast með kreppunni eru störf sem gætu orðið af skornum skammti í framtíðinni vegna aukinnar sjálfvirkni eða vegna breyttra atvinnuhátta. Því þarf að tryggja fólki úrræði til endurmenntunar og endurþjálfunar og slík úrræði þurfa að byggja á traustri framtíðarsýn.

Síðast en ekki síst á kreppan ekki að verða til að auka á misrétti, heldur til að draga úr því. Hverja einustu aðgerð stjórnvalda þarf að rýna út frá þessum þáttum. Hver eru áhrifin á jöfnuð og jafnrétti? Hvernig þjóna aðgerðirnar því framtíðarsamfélagi sem við viljum byggja? Sömu mælikvarða þarf að nýta þegar við göngum í gegnum umskiptin sem loftslagbreytingar og ný tækni krefjast af okkur. Alþjóðlega verkalýðshreyfingin hefur þróað ramma undir yfirskriftinni; sanngjörn umskipti eða just transition, sem miða að því tryggja framfærslu fólks í breyttum heimi. Þetta á að vera leiðarljósið nú þegar Ísland fetar sig í gegnum efnahagslægðina. Þá getum við komið sterkari út úr kreppunni.

Halla Gunnarsdóttir
framkvæmdastjóri ASÍ og varaþingmaður VG

greinin birtist fyrst í 1. maí blaði VGR

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search