Search
Close this search box.

Kópa­vogs­bær á að veita ungu fólki hús­næðis­styrki

Deildu 

Við þurfum öll þak yfir höfuðið, og hjá flestum kemur að því að við viljum stofna eigin heimili, flytja úr foreldrahúsum. Undanfarin misseri hefur húsnæðiskostnaður aukist, fasteignaverð hækkað og húsnæði á almennum leigumarkaði heldur áfram að vera mjög dýrt og stór hluti ráðstöfunartekna ungs fólks fer í að tryggja sér húsnæði.

Ekki meira en þriðjungur ráðstöfunartekna í húsnæði

VG í Kópavogi vilja að bærinn tryggi að aldrei fari meira en þriðjungur ráðstöfunartekna í húsnæðiskostnað. Þetta getur bærinn með ýmsu móti, og það er alls ekki óþekkt að bærinn (eða önnur sveitarfélög) greiði niður húsnæðiskostnað. Þar má nefna niðurfellingu og lækkun fasteignagjalda til eldra fólks, lágt leiguverð í félagslegu húsnæði og húsaleigubætur.

Sérstakir húsnæðisstyrkir fyrir ungt fólk

En við eigum að gera meira. Við viljum að bærinn taki upp sérstaka styrki eða ívilnanir til þeirra sem eru að stofna heimili í fyrsta sinn. Þetta gæti verið með ýmsu móti, t.d. að fella niður fasteignagjöld hjá fólki sem er að kaupa sér eign í fyrsta sinn, t.a.m. fyrstu eitt til tvö árin. Eða með niðurfellingu á lóðagjöldum til ungs fólks sem byggir eða kaupir nýtt húsnæði. Þá gæti bærinn verið með sérstaka styrki til þeirra sem fara út á leigumarkað í fyrsta sinn, stofna sitt fyrsta heimili.

Með því að styðja sérstaklega við bakið á ungu fólki og gera því kleift að setjast að í Kópavogi búum við í haginn fyrir framtíðina. Við eigum að gera það sem við getum til að gera Kópavog að aðlaðandi kosti fyrir framtíðaríbúa bæjarins.

Ólafur Þór Gunnarsson er oddviti VG í Kópavogi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search