Mikilvægt er að greina á milli vástjórnunar (krísustjórnunar) og efnahags- eða heilbrigðisaðgerða á venjulegum tímum. Lykilorð eru sveigjanleiki en ekki fyrirsjáanleiki og snarar ákvarðanir til að mæta/breyta þróun yfirvofandi hættu en ekki langtímaáætlanir. Um leið verður að gæta þess að fara vandlega eftir lögum þeim sem snúa að vánni. Í okkar tilviki nú eru það sett sóttvarnalög og þau leyfa eðlilega framkvæmdavaldinu að vera í brúnni frá degi til dags, ekki löggjafanum.
Alþingi er í brúnni þegar þarf að endurskoða og breyta lögunum. Alþingi gegnir einnig því hlutverki að ræða varnarskrefin sem þegar eru samþykkt og safna reynslu til þess að breyta lögunum. Það er ekki farsælt að ætla löggjafanum að samþykkja nánast sérhverja tillögu að sóttvarnaaðgerð og alla hlykkina á leiðinni, örar breytingar á viðbrögðum í takt við ófyrirsjáanlegan eða lítt spáanlegan feril veiru í samfélaginu. Slíkt myndi til dæmis setja Alþingi heilt yfir í þá röngu stöðu að hafa eftirlit með eigin sóttvarnaákvörðunum – fyrir utan þá snúnu stöðu að setja bráðnauðsynleg viðbrögð í pólitíska, iðulega langvinna umræðu og til afgreiðslu (atkvæðagreiðslu). Ekkert af þessu væri í samræmi við meginreglur vástjórnunar. Þar skiptir sem réttust tímasetning höfuðmáli.
Hingað til hefur ríkisstjórnin haldið í rétta stefnu, stundað árangursríka vástjórnun og mildað áhrif faraldursins eftir getu samfélagsins og ríkissjóðs (og sveitarfélögin að sínu leyti). Gagnrýni og sjálfsmat hafa oftar en ekki hrifið og leitt til breytinga og öll milljarðahundruðin gert mikið gagn, nú síðast viðbrögð sem nema allt að 70 ma. kr. kostnaði. Of seint segja sumir. Vel ásættanlega í tíma, tel ég, og miða þá við þann forgang aðstoðarleiða, sem varð að viðhafa, álag á ríkissjóð og stöðu efnahagsmála. Þessi vegferð öll staðfestir gagnsemi stjórnarsamvinnunnar, trausta forystu formannanna þriggja og yfirvegun og frumkvæði VG. Svo má þakka/hrósa samfélaginu fyrir þolinmæði, fylgni við sóttvarnaaðgerðir og mikla samstöðu í heild. Við eigum það skilið. Með því að halda áfram eftir helstu leiðum vástjórnunar, og með tilkomu góðra bóluefna, náum við væntanlega marki á næsta ári.
Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður.