EN
PO
Search
Close this search box.

Kynferðisleg friðhelgi

Deildu 

Ný tækni hefur gjörbylt samskiptum fólks á undanförnum árum og áratugum. Að mestu eru þetta jákvæðar breytingar en þær eiga sér líka dekkri hliðar. Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni hefur tekið á sig nýjar birtingarmyndir. Það má meðal annars sjá í áreitni gegn konum á samfélagsmiðlum, brotum gegn börnum á djúpvefnum og ýmsum formum af stafrænu kynferðisofbeldi.

Stefnumótun og lagasetning nær oft illa að halda í við nýja tækni. Hér á Íslandi hefur háttsemi sem kölluð hefur verið hrelliklám eða hefndarklám til að mynda verið færð undir ólík lagaákvæði sem hefur leitt til mismunandi dómaframkvæmdar. Það eykur einnig á slæma upplifun brotaþola að ofbeldi sem þeir hafa mátt þola sé einungis lauslega skilgreint í lögum og jafnvel erfitt að sjá að lögin nái utan um brotin. Þetta er meðal umfjöllunarefna í nýrri skýrslu Maríu Rúnar Bjarnadóttur lögfræðings en skýrsluna vann hún fyrir stýrihóp á mínum vegum sem var m.a. falið að gera tillögur um stefnumótun gegn stafrænu kynferðisofbeldi. Stýrihópurinn hefur skilað viðamiklum tillögum sem byggjast á skýrslunni og lúta að lagabreytingum, forvörnum og bættri málsmeðferð.

Í skýrslunni er notast við hugtakið kynferðisleg friðhelgi til að ná utan um hina ólíku verndarhagsmuni þolenda og má ætla að það hugtak verði ofan á í þeirri umfangsmiklu endurskoðun laga sem nú stendur fyrir dyrum. Þessar tillögur eru afrakstur mikillar greiningarvinnu, samráðs hér innanlands og samanburðarrannsóknar á löggjöf í fjölmörgum löndum. Nái tillögurnar fram að ganga mun Ísland skipa sér í fremstu röð í lagalegri vernd kynferðislegrar friðhelgi. Samhliða verður ráðist í bættar forvarnir og fræðslu og eflingu rannsóknargetu lögreglu. Á Alþingi hafa ítrekað verið lögð fram lagafrumvörp sem taka á stafrænu kynferðisofbeldi í samstöðu þingmanna í öllum flokkum. Þótt þau hafi ekki náð fram að ganga, má ætla að þverpólitísk samstaða geti myndast um þær úrbótatillögur sem nú hafa verið kynntar til sögunnar. Ríkisstjórnin lítur á þetta sem forgangsmál, í samræmi við stjórnarsáttmála, enda löngu tímabært að löggjöf og stefnumótun nái utan um nýjar birtingarmyndir ofbeldis og áreitni.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search