Það er haft fyrir satt að klókt fólk læri af reynslu annarra, meðan aðrir læri af eigin reynslu. Það var með þetta í huga sem ég fór til Færeyja í liðinni viku. Færeyingar hafa stundað fiskeldi um áratuga skeið og greinin, stjórnsýslan og samfélagið lært mikið. Færeyingar hafa gengið í gegnum erfiðar krísur, m.a. vegna laxasjúkdóma. Í dag hins vegar stendur greinin vel, hún skapar drjúgan hluta af útflutningstekjum þeirra og fjöldann allan af störfum í þjónustu og tengdum rannsóknum.
Færeyingar tóku okkur frábærlega
Móttökurnar sem við fengum hjá þessari vinaþjóð okkar voru frábærar og jafnt stjórnmálamenn, embættismenn og aðilar úr greininni voru ófeimnir að miðla til okkar af reynslu sinni. Það er einmitt vegna þess að ég vil læra af reynslu annarra sem ég setti af stað vinnu við að kortleggja það sem hefur verið gert þegar ég tók við ráðuneyti matvæla. Í þeim tilgangi leitaði ég eftir því að Ríkisendurskoðun myndi hefja stjórnsýsluúttekt á fiskeldi. Á það hefur stofnunin fallist og niðurstöðu er að vænta í haust. Þá stendur til að fá stórt ráðgjafarfyrirtæki til þess að aðstoða við að stilla upp þeim áskorunum og tækifærum sem fyrir eru í greininni svo hægt sé að móta stefnu fyrir næstu skref.
Eftir þessa heimsókn til Færeyja, þar sem við skoðuðum lokaðar kvíar, rafmagnsknúna báta og metnaðarfull áform stjórnvalda og fyrirtækja að gera sífellt betur stendur eftir hversu mikilvægt það er að byggja þessa grein rétt upp. Það er greinilegt að stór hluti af virðisaukningunni sem verður af þessari starfsemi hjá nágrönnum okkar er við afleidd störf. Það getur verið ýmiskonar þjónusta við greinina, við skipasmíðar, sölu, nýsköpun og fleira. Það er talsverð ábyrgð sem fylgir þeim forréttindum að hafa fengið leyfi til þess að nýta firði við Ísland til þess að rækta lax. Hluti af þeirri ábyrgð er skilgreindur í lögum og í skilmálum leyfanna. En annar hluti snýr að samfélagslegri ábyrgð sem snýst um að greinin skilji eftir sem mest verðmæti á Íslandi. Að það verði til fjölbreytt störf til hliðar við iðnaðinn, við nýsköpun, við framleiðslu fóðurs, við nýtingu afurða og svona mætti lengi telja. Þessa samfélagslegu ábyrgð þarf greinin að axla – en stjórnvöld geta skapað ákveðinn ramma.
Greinin þarf að axla samfélagslega ábyrgð
Ég tel að stjórnvöld þurfi að stilla upp ramma fyrir greinina sem tryggi vernd náttúrunnar, bæði staðbundins lífríkis og líffræðilegan fjölbreytileika, en tryggi jafnframt það að greinin byggist upp á grundvelli verðmætasköpunar frekar en magnframleiðslu. Þannig vonast ég til að við lærum af reynslu Færeyinga og byggjum upp fiskeldi í sátt við umhverfi, efnahag og samfélag. Það er til mikils að vinna.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.