Search
Close this search box.

Land og skógur tekur til starfa

Deildu 

Ný stofnun sem tekur við hlutverkum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar tók til starfa nú um áramótin. Stofnunin hefur fengið nafnið Land og skógur og heyrir undir matvælaráðuneytið. Við sameininguna skapast tækifæri til að nýta enn betur þekkingu og reynslu á sviði landgræðslu og skógræktar sem er að finna innan þessara stofnana og vinna þar með á enn markvissari hátt að sjálfbærri nýtingu lands og uppbyggingu og endurheimt vistkerfa. Það eru aðgerðir sem skipta miklu máli í samhengi við loftslagsvána. Í þeirri baráttu þarf að efla náttúrumiðaðar lausnir sem samræmast alþjóðlegum skuldbindingum. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðanáttúruverndarsambandsins (IUCN) fela náttúrumiðaðar lausnir í sér aðgerðir sem vernda, stýra á sjálfbæran hátt og endurheimta náttúruleg eða breytt vistkerfi. Þær takast á við samfélagslegar áskoranir með skilvirkum og sveigjanlegum hætti og stuðla samtímis að velferð manna og náttúrulegum fjölbreytileika. Þetta getur átt við margt en landgræðsla og skógrækt falla undir náttúrumiðaðar lausnir sem geta uppfyllt öll þessi skilyrði. 

Hugmyndinni um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar hefur verið varpað nokkrum sinnum fram í gegnum tíðina og í maí 2022 skipaði ég starfshóp sem hafði það hlutverk að greina rekstur stofnananna og vinna áhættugreiningu vegna mögulegrar sameiningar. Niðurstaða hópsins var að bæði fagleg og rekstrarleg rök styddu ákvörðun um sameiningu. Í júní í fyrra varð svo frumvarp um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar að lögum á Alþingi. 

Síðan ég tók við matvælaráðuneytinu hefur einnig verið unnin sameinuð stefna í landgræðslu og skógrækt, Land og líf, sem er fullfjármögnuð aðgerðaráætlun í málaflokknum til ársins 2031. Með aðgerðaáætlun í landgræðslu og skógrækt er mótuð forgangsröðun í aðgerðum stjórnvalda í málaflokknum til næstu ára. Meðal skilgreindra aðgerða eru rannsóknir á áhrifum landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis á lífríki, gerð nýrra gæðaviðmiða við val á landi til skógræktar og mat á kolefnisjöfnuði fyrir losunarbókhald í loftslagsmálum. 

Von mín er sú að stofnun Lands og skógar muni flýta framgangi verkefna á grunni aðgerðaáætlunarinnar um Land og líf og einnig að hún verði til þess að efla þjónustu og ráðgjöf til bænda og annarra sem nýta þjónustuna. Með vel heppnaðri sameiningu í sterka stofnun er mögulegt að samþætta markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, vernd líffræðilegrar fjölbreytni og faglegan ávinning. Það er til mikils að vinna.  

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search