Search
Close this search box.

Landbúnaður til framtíðar

Deildu 

Sjálf­bær land­búnaður í breyttu um­hverfi, áskor­an­ir og lausn­ir var yf­ir­skrift ráðherra­fund­ar OECD-land­anna sem hald­inn var í Par­ís í vik­unni sem ég sótti. Fund­ur­inn var sá fyrsti í sex ár og í millitíðinni hef­ur umræða um land­búnað tekið stakka­skipt­um. Vegna þess mikla álags sem verið hef­ur á land­búnaðar­kerf­um heims­ins, vegna af­leiðinga heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru og nú vegna inn­rás­ar Rússa í Úkraínu. En ekki síður vegna þess að þjóðir OECD hafa síðustu ár verið að vinna að því hvernig draga megi úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda frá land­búnaði vegna lofts­lags­vár­inn­ar. Land­búnaður­inn á heimsvísu glím­ir því við þrjár áskor­an­ir: Hvernig fram­leiða megi næg­an mat til þess að fæða sí­fellt fleiri jarðarbúa. Hvernig draga megi úr los­un vegna land­búnaðar og síðast en ekki síst hvernig við tryggj­um bænd­um og land­búnaðar­verka­mönn­um rétt­láta og sann­gjarna af­komu.

All­ir eru að gera sitt besta

Það vek­ur bæði von og trú að heyra að áskor­an­irn­ar sem við er að etja séu sam­eig­in­leg­ar. Eng­in þjóð hef­ur kom­ist að hinni einu réttu leið sem leys­ir all­ar áskor­an­ir í land­búnaði. Þær eru meðal ann­ars lofts­lags­mál, en snú­ast líka um af­komu bænda, nýliðun í bænda­stétt, um fæðuör­yggi og um ör­yggi aðfanga­keðja. Víða um heim er far­in sú leið að hafa blöndu af ann­ars veg­ar hvöt­um og hins veg­ar greiðslum fyr­ir al­manna­gæði sem bænd­ur fram­leiða og/​eða sinna með ein­hverju móti. Þau al­manna­gæði eru m.a. menn­ing­ar­lands­lag, líf­fræðileg fjöl­breytni og vernd vist­kerfa en síðast en ekki síst bind­ing á kol­efni. Á því leik­ur eng­inn vafi að við þurf­um að taka upp það sem best hef­ur gengið til þess að setja rétta hvata í inn­lend­an land­búnað.

Of mik­il­vægt til að mistak­ast

Áskor­un­in er slík að hún má ekki mistak­ast. Los­un frá land­búnaði er veru­leg á heimsvísu og líka á Íslandi. Þá höf­um við sem mann­kyn rek­ist upp í og jafn­vel rek­ist í gegn um þær tak­mark­an­ir sem eru á líf­hvolfi jarðar aðrar en kol­efn­is­hringrás­ina. Hringrás­ir nit­urs og fos­fórs, líf­fræðileg fjöl­breytni, land­notk­un og jarðvegs­vernd og þannig mætti lengi telja. Hinn raun­veru­legi fram­leiðslu­kostnaður er ekki innifal­inn í verði land­búnaðar­vara í dag. Svo ekki sé talað um þætti eins og dýra­vel­ferð og rétt­indi launa­fólks í mat­væla­keðjum heims­ins. Umræða var á fund­in­um um hvernig megi leiðrétta þessa markaðsbresti og sú umræða var af meiri al­vöru en áður hef­ur þekkst á þess­um vett­vangi.

Fund­ur­inn var veru­lega gagn­leg­ur, vel náðist að stilla sam­an strengi og ör­uggt er að hvert ein­asta ríki held­ur til síns heima með fjölda hug­mynda og enn skýr­ari sýn á það hvað þarf að gera og hvernig er best að nálg­ast þau risa­vöxnu verk­efni sem fram und­an eru í land­búnaði.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search