EN
PO
Search
Close this search box.

Landsfundur VG ’24: Það sem stóð upp úr

Deildu 

Hátt í 250 fulltrúar VG sóttu landsfund flokksins um liðna helgi, 4. til 6. október, í Víkingsheimilinu við Safamýri í Reykjavík. Félagsmenn kusu sér nýjan formann, varaformann, stjórn og flokksráð. Um 40 ályktanir voru samþykktar, meðal annars um ríkisstjórnarsamstarfið og kosningar í vor, bann við hvalveiðum og stríðsglæpina á Gaza. Fjöldi lagabreytinga var sömuleiðis samþykktur. Fundurinn þótti einkennast af öflugri samstöðu og endurnýjuðum baráttuanda, þó að skínandi haustsólin hafi stundum hitað salinn aðeins of vel.

Svandís Svavarsdóttir var kjörin formaður með 97% greiddra atkvæða. Svandís kom víða við í þakkarræðu sinni, en ræddi meðal annars um þá sundrung sem skapast af einstaklingshyggju og kapítalisma. „Þetta eru öfl sem búa til samanburð á neikvæðum nótum, samkeppni og mælingar úr öllum hlutum. Þau sjá gróðavon í öllu og tækifæri til að maka krókinn. Og ákveðnir stjórnmálaflokkar nýta sér þessa þróun markvisst til að ná til sín fólki,“ sagði Svandís.

„Þess vegna ríður á að við í VG stöndum fyrir mennsku, samstöðu og samheldið samfélag. Að við tölum um gildi. Samveru og tengsl. Og að við munum að við sem einstaklingar erum til í samhengi, við erum öll hluti af heild og saman farnast okkur öllum betur, heildin er það sem skiptir höfuðmáli.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson varð varaformaður á ný, en hann hlaut 84% atkvæða gegn Jódísi Skúladóttur sem einnig var í framboði til varaformanns. Þetta er í annað sinn sem Guðmundur Ingi tekur varaformannsstólinn en hann hafði sinnt hlutverkinu í tæp fimm ár, þar til hann tók við formannsembættinu af Katrínu Jakobsdóttur þegar hún sagði skilið við pólitíkina í vor. Guðmundur Ingi setti landsfundinn á föstudeginum sem sitjandi formaður þar sem hann leit yfir farinn veg og þakkaði traustið sem honum hafði verið sýnt. 

„Breiðu bökin eiga að leggja meira til samfélagsins. Við eigum að hafa auðlegðarskatt. Þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt sem ver betur ævisparnað hjá venjulegu fólki en skattleggur auðmenn og gróðafyrirtæki. Sanngjörn auðlindagjöld hvort sem horft er til sjávarútvegs, fiskeldis eða ferðaþjónustu,“ sagði Guðmundur Ingi. 

„Við eigum að nota fjármagnið til að byggja frekar upp í heilbrigðiskerfinu, draga enn frekar úr kostnaðarþátttöku, bæta áfram kjör öryrkja og þeirra í hópi eldra fólks sem höllustum fæti standa, styðja við flóttafólk og íslenskunám innflytjenda, ekki síst í skólunum, og efna fögur orð um að fjármögnun háskólastigsins nái ekki bara OECD-viðmiðum heldur líka háskólum á hinum Norðurlöndunum.“

Nánar má sjá hver skipa nýja stjórn VG hér. 40 flokksráðsfulltrúar og tíu varamenn voru sömuleiðis kosnir og listann yfir þá má nálgast hér.

38 ályktanir samþykktar

Landsfundur samþykkti alls 38 ályktanir um liðna helgi. Þar voru ályktanir um stór málefnasvið eins og efnahagsmál, samgöngumál, loftslagsaðgerðir, úrgangsmál, stríðsátök í heiminum og íbúalýðræði. Aðrar voru um þrengri málefnasvið og má þar nefna ályktanir um vopnaburð lögreglu, gjaldfrjálsa menntun, umönnunardaga vegna nákominna, hækkun lágmarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, málefni Seyðisfjarðar og fyrirkomulag leikskólamála í Kópavogi og víðar. 

Samstaða um ríkisstjórnarályktun

Sú ályktun sem vakti hvað mesta athygli í aðdraganda landsfundar og sömuleiðis að honum loknum var um ríkisstjórnarsamstarfið. Eftir töluverðar umræður og málamiðlanir náðist um ályktunina mikil og breið samstaða.

Landsfundurinn ályktar að ríkisstjórnarsamstarf VG við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk sé að nálgast leiðarlok og að ganga verði til kosninga með vorinu.

Til að hægt sé að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram telur landsfundurinn að takast verði á við þau knýjandi verkefni sem við blasa á félagslegum grunni. 

Í ályktun um málefni Palestínu segir að íslensk stjórnvöld eigi að kalla eftir tafarlausu vopnahléi og að ísraelsk stjórnvöld fari eftir úrskurðum alþjóðadómstóla. Stjórnvöld eiga jafnframt að styðja við málsókn Suður-Afríku hjá Alþjóðadómstóli Sameinuðu þjóðanna gegn Ísrael fyrir þjóðarmorð á Gaza, beita sér fyrir alþjóðlegu vopnasölubanni til að stöðva blóðbaðið á Gaza, koma á viðskiptabanni gegn Ísrael í samstarfi við aðrar þjóðir og mótmæla hinum skilyrðislausa fjárhagslega, pólitíska og hernaðarlega stuðningi bandarískra stjórnvalda við hernaðinn á Gaza. Jafnframt telur landsfundurinn koma til álita að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Loks áréttar landsfundur mikilvægi þess að Ísland standi undir alþjóðlegum skuldbindingum sínum gagnvart flóttafólki frá Palestínu.

Varðandi hvalveiðar samþykkti landsfundur ályktun um bann við hvalveiðum. Hún er stutt og hljóðar svo:

„Landsfundur VG vill að hvalveiðar verði bannaðar varanlega í samræmi við ákall almennings.“  

Stjórnmálaályktun landsfundar VG 2024

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 undirstrikar hversu brýnt er að raddir vinstristefnu, félagslegs réttlætis, kvenfrelsis og umhverfis- og náttúruverndar heyrist hátt og skýrt og sem víðast. Félagar hreyfingarinnar, ekki síst kjörnir fulltrúar, þurfa að vera málsvarar þessa hvert sem þeir koma. Félagslegar áherslur í stjórnun samfélagsins eru sérlega mikilvægar nú á tímum þrálátrar verðbólgu og hárra vaxta og bakslags í mannréttindamálum.

Réttlæti, mannúð, frelsi, friður, jöfnuður og umhverfisvernd eru þau gildi sem vinstra fólk verður að hrópa af húsþökum. Vinstrið er eina aflið sem getur haldið aftur af rasisma, kvenhatri, fordómum gegn hinum ýmsu hópum og sívaxandi gliðnun og skautun í samfélaginu. Bil á milli ólíkra þjóðfélagshópa er of stórt og við þurfum að leggjast á eitt til að minnka það. Til þess þarf félagshyggjufólk í landinu sterkt umboð til að stjórna landinu eftir næstu Alþingiskosningar.

Árangur Vinstri grænna

Miklar félagslegar umbætur hafa átt sér stað með Vinstri græn í ríkisstjórn. Nærtækt dæmi eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þar er einkum komið til móts við þá hópa sem verðbólgan hefur undanfarið leikið hvað verst: lágtekjufólk og barnafjölskyldur. Í aðgerðunum felast miklar kjarabætur í formi hækkaðra húsnæðisbóta og barnabóta, vaxtabóta og frekari uppbyggingar félagslegs húsnæðis. Allar þessar aðgerðir eru félagslegs eðlis og stuðla að meiri jöfnuði og réttlátara samfélagi. Þá má sérstaklega nefna gjaldfrjálsar máltíðir í grunnskólum sem munu gagnast öllum fjölskyldum, ekki síst þeim efnaminni og stuðla að því að draga úr fátækt barna. Þetta hefur verið baráttumál Vinstri grænna um árabil. Landsfundur fagnar þessum árangri og telur rétt að í framhaldinu muni máltíðir í leik- og framhaldsskólum einnig verða gerðar gjaldfrjálsar sem og námsgögn fram að 18 ára aldri. Landsfundur fagnar einnig þeim breytingum sem gerðar hafa verið á örorkulífeyriskerfinu, en það er stærsta skref sem stigið hefur verið í áratugi til að bæta afkomu og auka réttindi örorkulífeyrisþega. Þá hækkar almennt frítekjumark ellilífeyrisþega um 46% nú um áramótin og mun héðan af hækka í takt við hækkun bóta almannatrygginga. Eins má nefna nýja Mannréttindastofnun sem er árangur af vinnu og stefnumörkun Vinstri grænna í ríkisstjórn og á Alþingi. Tryggja þarf stofnuninni fjármagn til að hún geti staðið undir nafni og væntingum sem eðlilega eru gerðar til Íslands.

Þó margt hafi áunnist er áfram verk að vinna á fjölmörgum sviðum samfélagsins. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun áfram leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið.

Innflytjendur

Það er sérstaklega aðkallandi að Ísland hugi betur að líðan, aðstæðum og tækifærum innflytjenda, sem nálgast það að verða fimmtungur landsmanna. Stjórnvöld verða að sporna gegn aukinni stéttskiptingu þar sem hallar á innflytjendur. Viðeigandi stuðning þarf að veita á öllum sviðum, hvort sem það er á vinnustöðum eða í skólakerfinu, svo innflytjendum sé gefinn raunverulegur kostur á að taka þátt í samfélaginu. Stórefla þarf stuðning við íslenskunám fullorðinna og tryggja aukinn stuðning við börn innflytjenda í skólakerfinu. Ísland þarf að vera inngildandi samfélag þar sem ríkir umburðarlyndi og öll sitja við sama borð. Landsfundur lýsir yfir þungum áhyggjum af vaxandi útlendingaandúð í samfélaginu og telur að meira þurfi að gera til að sporna gegn þeirri þróun.

Húsnæðismarkaður

Húsnæðismál eru lykilþáttur í kjarabaráttu almennings. Staðan á húsnæðismarkaði er þung fyrir stóran hluta fólks og leiðir til vaxandi ójöfnuðar. Leiguverð og vaxtakostnaður hefur hækkað og það hefur áhrif á lífskjör almennings. Styrkja þarf enn frekar almenna íbúðakerfið og gera frekari umbætur á leigumarkaði. Fundurinn fagnar nýjum húsaleigulögum sem bæta réttarstöðu leigjenda en kallar einnig eftir leigubremsu sem verndar leigjendur fyrir óhóflegum og ófyrirséðum hækkunum. Sporna þarf við braskvæðingu á húsnæðismarkaði og því að húsnæði sé nýtt sem fjárfestingarkostur, svo sem með skattlagningu á hagnaði af sölu íbúða sem ekki eru notaðar til eigin búsetu eiganda. Stjórnvöld eiga að skoða af fullri alvöru að setja á laggirnar nýtt félagslegt eignaíbúðakerfi til að fjölga valkostum á húsnæðismarkaði. Öruggt húsnæði eru mannréttindi.

Málefni Grindavíkur

Samfélagið í Grindavík hefur á liðnu ári gengið í gegnum fordæmalausar hremmingar í kjölfar ítrekaðra jarðhræringa. Grindvíkingar, sem hafa þurft að rífa sig upp og mæta óvissri framtíð, hvort sem litið er til húsaskjóls, atvinnu, skólagöngu, andlegrar og félagslegrar heilsu, fjárhagsstöðu o.s.frv., hafa sýnt lofsverða þrautseigju í glímunni við náttúruöflin. Mikilvægt er að halda áfram að styðja við og hlúa að Grindvíkingum og stuðla að blómlegu samfélagi þeirra til framtíðar.

Fjölskyldu- og menntamál

Grípa þarf til frekari aðgerða í málefnum barnafjölskyldna og forgangsraða fjármunum í þágu bættrar velferðar barna með jafnrétti að leiðarljósi. Ýmis skref hafa verið stigin á þessu kjörtímabili en ljóst er að fjölskyldumál verða eitt af stóru viðfangsefnum næsta kjörtímabils. Hækka þarf lágmark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og brúa umönnunarbil á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Hér þarf kröftuga samvinnu ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Málefni barna eru eitt brýnasta verkefni samfélagsins og mikilvægt að tryggja góðan aðbúnað þeirra og viðeigandi stuðning við fjölskyldur.

Landsfundurinn ítrekar mikilvægi menntakerfisins sem grundvallarjöfnunartækis í fjölbreyttu samfélagi. Á næstu árum þarf að stíga rótæk skref til að gera menntun allra skólastiga endurgjaldslausa og tryggja endurnýjun í kennarastéttinni. Jafnframt leggur fundurinn áherslu á að breytingar á skólakerfinu séu ávallt gerðar með hliðsjón af nýjustu rannsóknum. Brýnt er að stórauka námsefnisgerð, innleiða matskvarða og tryggja stuðning við öll börn í skólum landsins. Þá þarf að tryggja betur fjármögnun háskólanna svo þeir séu á pari við háskóla annars staðar á Norðurlöndum.

Fundurinn leggur áherslu á að fylgja heilbrigðisstefnu til ársins 2030 markvisst eftir, horfa heildstætt á alla velferðarþjónustu og tryggja samþættingu ólíkra kerfa, þ.m.t. á milli heilbrigðis- og félagsþjónustu. Efla þarf heilsugæslu um allt land í að sinna grunnþjónustu við íbúa með þverfaglegu teymi heilbrigðisstétta. Marka þarf skýra stefnu hvaða þjónusta sérgreinalækna eigi að teljast til nærþjónustu og skuli veita reglulega í öllum heilbrigðisumdæmum.

Samfélag okkar er slegið yfir hrinu ofbeldismála að undanförnu og hugur okkar allra er með þeim sem eiga um sárt að binda af þeim sökum. Landsfundurinn geldur varhug við auknu ofbeldi í samfélaginu sem teygir sig niður til barna og ungmenna. Skoða þarf í kjölinn hvað veldur þessari þróun og gera allt til að sporna við henni. Ísland á að vera manneskjuvænt og friðsælt samfélag. Fyrir því er frumforsendan velferð og jöfnuður.

Sótt er að réttindum kvenna og hinsegin fólks um allan heim og lýsir fundurinn yfir þungum áhyggjum af risi öfgahægriafla. Í því andrúmslofti er mikilvægt að VG taki forystu í því að standa vörð um og efla mannréttindi allra hópa sem eiga undir högg að sækja.

Blóðbað við Miðjarðarhaf

Blóðbaðinu í Palestínu verður að linna. Hernaður Ísraelsríkis veldur sífellt meiri þjáningum fyrir botni Miðjarðarhafs og hindra verður frekari útbreiðslu stríðsátaka á svæðinu og gefa Palestínumönnum færi á að byggja upp sjálfstætt ríki. Átjánda september síðastliðinn samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun þess efnis að Ísraelsmönnum beri að binda endi á hersetu sína í Palestínu innan árs og greiddi Ísland atkvæði með því. Þeirri kröfu verður að fylgja eftir af harðfylgi enda hefur Ísrael komist upp með að þverbrjóta alþjóðalög undir verndarvæng Bandaríkjanna. Fagnar fundurinn þingsályktunartillögu þingmanna Vinstri grænna og fleiri flokka um að Ísland beiti sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gagnvart Ísrael. Sjaldan hafa jafnmörg stríð geisað í heiminum og nú um stundir. Talið er að um hundrað milljón manns séu á flótta og líkurnar á beitingu kjarnorkuvopna hafa nær aldrei verið meiri. Við þessar aðstæður er sérlega brýnt að kröfum um afvopnun og friðsamlegar lausnir sé haldið skýrt á lofti.

Auðlindir, umhverfismál og náttúruvernd

Tryggja þarf auðlindaákvæði og umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá. Ásókn í auðlindir Íslands er mikil, ekki síst af hálfu einkaaðila sem stjórnast af gróðasjónarmiðum einum og skeyta lítið um almannahagsmuni eða náttúruvernd. Opinber fyrirtæki eins og Landsvirkjun eiga að njóta forgangs í nýjum framkvæmdum, ekki einkafyrirtæki sem nú hafa uppi stórkostleg áform um virkjanaframkvæmdir um allt land. Ljúka þarf stefnumótun um vindorku og tryggja að gjald renni í sameiginlega sjóði líkt og gildir um aðrar auðlindir. Öll viðbótarorka á að renna til innlendra orkuskipta. Við þurfum að breyta hugsunarhætti okkar þannig að horft sé á náttúruna sem friðhelga og að nýting hennar sé undantekning frá þeirri meginreglu.

Ísland á að vera þjóðgarðaparadís, þar sem víðerni og villt náttúra er vernduð. Stofna ber Hálendisþjóðgarð og búa til net þjóðgarða bæði á landi og í hafi. Friðlýsing svæða er markvissasta leiðin til að tryggja vernd viðkvæmrar og verðmætrar náttúru, sem við Íslendingar berum ábyrgð á að verja.

Fundurinn leggur áherslu á að matvælaframleiðsla á Íslandi tryggi fæðu- og matvælaöryggi landsmanna og stuðli að bættri lýðheilsu þjóðarinnar. Sjálfbær nýting við fiskveiðar, landbúnað og fiskeldi eru lykilþættir í þessu sambandi. Stefnur og aðgerðaáætlanir sem komið hafa frá matvælaráðuneytinu á þessu kjörtímabili styðja við þessa vegferð.

Fundurinn telur mikilvægt að áfram verði unnið að aukinni sátt um sjávarútveginn. Þar er lykilatriði að auka gagnsæi að því er varðar stjórnunar- og eignatengsl greinarinnar, tryggja vistkerfisnálgun og verndarhagsmuni þegar horft er til auðlinda hafsins. Stórútgerðin hefur svigrúm til að greiða hærri veiðigjöld enda hefur hún greitt sér myndarlegan arð sem hlotist hefur af nýtingu sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar.

Mikilvægt er að koma á skýrri umgjörð um lagareldi, bæði í sjó og á landi, svo atvinnugreinin geti farið fram í meiri sátt við náttúru og samfélag. Tiltekin svæði þarf að friða algjörlega, gjaldtaka vera rífleg og tryggja þarf öflugra eftirlit og sektir sem um munar fyrir brot á lögum og reglugerðum.

Loftslagsváin er ein stærsta áskorun samtímans og komandi áratuga og neyðarástand hefur skapast víða. Baráttan gegn loftslagsvánni er ekki bara stærsta umhverfismálið, heldur líka eitt stærsta velferðarmál 21. aldarinnar. Þó fundurinn fagni því að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hafi verið uppfærð þarf róttækari aðgerðir, auknar kröfur til stjórnvalda, fyrirtækja og annarra sem menga, og markvissari eftirfylgni. Hér þarf að gera mun betur, enda er baráttan gegn loftslagsvánni ekki bara stærsta umhverfismálið heldur líka eitt stærsta velferðarmál 21. aldarinnar.

Samgöngur

Mikilvægt er að draga sem fyrst úr losun frá umferð og efla almenningssamgöngur um allt land. Fundurinn fagnar endurskoðun samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu og áréttar að með forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs var kyrrstaða í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu rofin. Skýr framtíðarsýn var mótuð þar sem samgöngur virka fyrir fólk en ekki farartæki eingöngu. Samningur ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um Borgarlínuna mun draga úr mengandi bílaumferð og hvetja til vistvænna samgangna gangandi og hjólandi fólks. Stuðningur við almenningssamgöngur og aðrar aðgerðir í loftslagsmálum eru fjárfesting í framtíðinni.

Fundurinn bendir einnig á skýra jafnréttis- og kynjavinkla í samgöngum, bæði hvað varðar aðgengi og ákvarðanatöku. Til þess að frekari árangur náist í velsældarmálum á Íslandi er nauðsynlegt að halda áfram að styrkja öflugar samgöngur með áherslu á almenningssamgöngur og almannaöryggi.

Íbúalýðræði og innviðir

Á síðustu árum hefur sýnt sig að mikil þörf er á að styrkja íbúalýðræði. Fundurinn telur að við þessu þurfi að bregðast, enda varða fjölmargar áætlanir og framkvæmdir í fjörðum, ám og á þurrlendi nærumhverfið, eins og fiskeldi, orkumannvirki og skógrækt. Því þarf að skoða betur hvernig tryggja megi rétt íbúa til að kalla eftir kosningu um tiltekin mál í nærsamfélagi sínu.

Fundurinn undirstrikar mikilvægi þess að halda samfélagslegu eignarhaldi á lykilinnviðum og varar við aukinni markaðshyggju og einkavæðingu. Vinstri græn standa gegn frekari markaðsvæðingu á sviði raforkuframleiðslu og -sölu, heilbrigðis- og velferðarþjónustu, menntakerfisins og sölu áfengis.

Fundurinn ítrekar skýrt erindi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í íslenskum stjórnmálum. Hreyfingin hefur komið mörgu til leiðar í stjórnartíð sinni í gegn um árin. Vinstri græn hafa sannarlega metnað, getu og vilja til að halda áfram að stjórna landinu, fáum við til þess umboð.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search