Hafinn er undirbúningur að gerð þingsályktunartillögu heilbrigðisráðherra um stofnun landsráðs sem verður ráðgefandi vettvangur um mönnun heilbrigðisþjónustunnar og menntun heilbrigðisstétta. Markmiðið er að tryggja til framtíðar nægan fjölda hæfs starfsfólks og að menntun þess fullnægi þörfum heilbrigðisþjónustunnar á hverjum tíma. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fjallaði um þetta í ávarpi á nýafstöðnu heilbrigðisþingi þar sem mönnun, menntun og nýsköpun í heilbrigðisþjónstu var meginumfjöllunarefnið.
Um 600 manns voru skráðir til þátttöku á þinginu, fylgdust með beinu streymi og sendu inn fyrirspurnir og ábendingar. Fyrirlesarar og þátttakendur í umræðum komu úr ýmsum áttum; meðal annars frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, heilbrigðisstofnunum og ráðuneytum, landlæknisembættinu, háskólum landsins og úr nýsköpunargeiranum. Upptaka frá þinginu er aðgengileg á vefnum www.heilbrigdisthing.is, hér má einnig lesa ávarp ráðherra frá þinginu og hér að neðan fylgja enn fremur nokkrar svipmyndir frá heilbrigðisþingi 2020.
„Mönnun heilbrigðisþjónustunnar er alþjóðleg áskorun og samkeppni um mannauðinn fer vaxandi. Því verðum við að fjárfesta markvisst í menntun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks og vinna skipulega að þessum málum. Til þess að ná árangri þarf góða yfirsýn og samræmdar aðgerðir þar sem samráð og samvinna háskóla, heilbrigðisstofnana og tengdra stofnana er lykilatriði“ segir heilbrigðisráðherra.
Verkefni landsráðs um mönnun og menntun
Horft er til þess að meginhlutverk landsráðsins verði að koma á betra samstarfi milli hlutaðeigandi aðila og tryggja að þeir hafi sömu mynd af mönnunarþörf í heilbrigðisþjónustu. Verkefni ráðsins verði m.a. að;
- fjalla um þörf á mönnun á fyrsta, öðru og þriðja stigi heilbrigðisþjónustunnar eins og þjónustustigin eru skilgrein í lögum um heilbrigðisþjónustu og leggja til lausnir á þeim vanda,
- greina þörf á viðbótarmenntun eða nýrri menntun,
- greina þörf á klínískum stöðum náms og starfstengdri leiðsögn fyrir heilbrigðisstarfsfólk,
- efla þekkingu og skilning á störfum heilbrigðisstétta með áherslu á fjölbreytileika þessara starfa og vinna að jafnari kynjaskiptingu þar sem kynjahlutföll eru ójöfn,
- greina verkefni heilbrigðisstétta með tilliti til framtíðarskipulags og möguleikum á nýrri tækni,
Gert er ráð fyrir að drög að tillögu til þingsályktunar um landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu verði kynnt í samráðsgátt stjórnvalda innan tíðar og lögð fram á Alþingi snemma á næsta ári.