Search
Close this search box.

Laxeldi í Seyðisfirði blásið af!

Deildu 

Höfundur: Pétur Heimisson • Skrifað: 03. mars 2023.Uppbygging Seyðfirðinga á samfélagi sínu og trú þeirra á að halda henni áfram á sínum forsendum spratt hvoru tveggja að frumkvæði heimafólks. Af sama meiði óx líka markviss, vísindalega rökstudd vinna gegn laxeldi í Seyðisfirði undir merkjum VÁ – Félag um verndun fjarðar.

Mótmæli íbúa gegn laxeldisáformum spruttu líka úr grasrótinni. Skipulagsstofnun segir mótmælin jafnvel ekki eiga sér neina hliðstæðu. Bið nærsamfélagsins eftir að fá þennan vilja sinn virtan er orðin ansi löng. Nú trúi ég að biðin styttist.

Sveitarstjórn spurði; hvað viljið þið?

Gallup spurði íbúa Múlaþings að ósk sveitarstjórnarinnar í desember ´22 – janúar ´23. Ein sérsniðin spurning fylgdi fyrir íbúa hvers hinna fjögurra þéttbýliskjarna. Seyðfirðingar voru spurðir; „Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) fiskeldi í sjókvíum í Seyðisfirði?“. Svörin voru skýr, þrír af hverjum fjórum lýstu sig andvíg (frekar, mjög eða algjörlega) laxeldinu og heil 53% sögðu sig alfarið andvíg. Mikil andstaða Seyðfirðinga við laxeldisáform var þekkt en reyndist meiri en áður var opinbert. Sveitarstjórn á hrós skilið fyrir þetta framtak, enda samráð sem þetta í anda lýðræðis. Eftirleikurinn er augljós.

Að virða gildi og standa við orð sín

Múlaþing varð til vegna samstöðu íbúa fjögurra sveitarfélaga og ekki síst um tiltekin gildi. Þar bar íbúalýðræði hvað hæst. Fyrirheit um að sérstaða byggðakjarna fengi að halda sér og heimastjórn í hverjum byggðakjarna voru rökrétt framhald. Því er augljóst hvað nú gerist.

Sveitarstjórnin spurði Seyðfirðinga hvað þeir vildu og þeir svöruðu skýrt. Sveitarstjórn mun virða þann vilja í samræmi við getnaðargildi sveitarfélagsins, íbúalýðræðið. Hún mun lýsa sig algjörlega andvíga laxeldi í Seyðisfirði og ekki bara það, heldur fara þess á leit við forsvarsfólk áformaðs eldis að falla frá áætlunum sínum. Það verður auðsótt því að á upplýsingafundi 03.03. 2022 vöktu forsvarsmenn laxeldisins ákveðnar væntingar meðal íbúa.

Við sem vorum á fundinum heyrðum Jens Garðar Helgason forsvarsmann laxeldisins leggja mikla áherslu á að hann vildi sátt við íbúa um eldið. Í dag má öllum vera ljóst að slík sátt næst ekki. Horfast þarf í augu við það, sem ég er viss um að bæði Múlaþing og forsvarsfólk laxeldisins munu gera. Það verður sómi að slíkum viðbrögðum og eftir þeim tekið.

Höfundur, Pétur Heimisson, er læknir, situr í stjórn lækna gegn umhverfisvá og er annar tveggja fulltrúa VG í umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search