EN
PO
Search
Close this search box.

Leiðin að friði

Deildu 

Jólin eru tími sem einkennist af kærleika og hlýju, þegar við fögnum endurkomu ljóssins í myrkrinu. Sum fagna einnig fæðingu barns í Betlehem, þar sem nú geisar í næsta nágrenni eitt skelfilegasta stríð sem heimsbyggðin hefur orðið vitni að lengi.

Við Íslendingar erum herlaust eyríki langt frá heimsins víga slóð. Stríðið á Gaza birtist okkur í daglegu lífi sem fyrirsagnir í blöðum, á samfélagsmiðlum og sem fréttir í sjónvarpi. Vegna samfélagsmiðla og möguleikans á stöðugum beinum útsendingum frá átakasvæðum sjáum við skýrar en nokkru sinni hvaða hörmungar stríð hefur í för með sér.

Þegar við horfum á þessar skelfilegu hörmungar dag eftir dag í rauntíma finna mörg okkar fyrir vanmætti og reiði yfir því að finna ekki kröftum okkar viðnám. Því sérhvert líf er dýrmætt, sérhver manneskja er einstök, sérhvert tilgangslaust dauðsfall er harmur heimsins alls.

Gegndarlausar árásir á saklausa borgara undir því yfirskini að um sjálfsvörn sé að ræða eru óverjandi. Börn eru ekki skotmörk, aldraðir eru ekki skotmörk. Blaða- og fréttamenn eru ekki skotmörk, heilbrigðisstarfsfólk og hjálparstarfsmenn eru ekki skotmörk. Saklaust fólk eru ekki skotmörk. Og þegar dauðsföllin skipta þúsundum, þegar stór hluti hinna látnu eru börn þá er ómögulegt annað en að bregðast við. Við höfum séð ótrúlega magnaða samstöðu fólks um allan heim með þeim sem eiga um sárt að binda, í raun lýðræði í verki þar sem fólk þrýstir á sín stjórnvöld og stjórnvöld hlusta á þau. Það gefur okkur von. Mikilvægt er fyrir okkur öll að hafa augun á lokamarkmiðinu sem er að enda þessi tilgangslausu átök. 

Við fylgjumst öll með þessum skelfilegu atburðum og mörg okkar hugsa hvað við sem þjóð, þátttakendur á alþjóðasviðinu, getum gert til þess að stöðva blóðsúthellingar á almennum borgurum. 

Við Íslendingar höfum löngum verið stolt af því að vera friðelskandi þjóð. Við fengum það hlutverk að hýsa friðarljós sem tendrað er ár hvert í minningu manns sem lagði hart að heiminum að ímynda sér frið og við höfum lagt okkur í líma við að beita okkur fyrir friðsamlegum lausnum í hvívetna. Það er mikilvægt að við á Alþingi leggjum okkar af mörkum, líkt og við gerðum með samþykkt þingsályktunartillögu utanríkismálanefndar um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, eitt örfárra þjóðþinga í heiminum. Forsætisráðherrann okkar Katrín Jakobsdóttir hefur verið talsmaður friðar fyrir Íslands hönd hvar sem hún kemur og Ísland greiddi á þriðjudag atkvæði með ályktun á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um tafarlaust vopnahlé á Gaza. Ályktunin kom í kjölfar þess að Bandaríkin beittu neitunarvaldi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna sambærilegrar ályktunar um vopnahlé á þeim vettvangi. Það er óneitanlega óbærilegt að steyti á slíkum hindrunum þegar ríki heims reyna í sameiningu að vinna að því að koma á vopnahléi en þó ljós í myrkrinu að fleiri lönd eða 153 greiddu nú atkvæði með friði en nokkru sinni fyrr, sem má túlka sem von um að alþjóðleg samstaða sé að myndast um að þessu stríði verði að ljúka.

Leiðin að varanlegum friði er ekki gegnum sprengjur og átök, hún liggur í gegnum samtal. Það er gríðarlega stórt verkefni fyrir heiminn að finna friðsamlegar lausnir einkum þegar okkar alþjóðlegu stofnanir virðast þess ekki megnugar. Þeirri umræðu eigum við ekki að skorast undan. Við eigum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar og reyna að finna leiðir fyrir alþjóðasamfélagið til að taka á málum eins og þessum, finna aðferðir til að fá stríðsaðila til að láta af gegndarlausu ofbeldi gagnvart saklausu fólki eins og við verðum vitni að á Gaza og raunar víðar í Palestínu. 

Við verðum að taka skref í átt að endalokum þessa stríðs og annarra og við verðum að vona og trúa að það sé mögulegt. Það er ljósið í myrkrinu.

Orri Páll Jóhannesson, formaður þingflokks Vinstri grænna

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search