EN
PO
Search
Close this search box.

Leiðtogafundi og tvíhliða fundum Katrínar Jakobsdóttur lauk í dag í Vilníus

Deildu 

Tveggja daga leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins sem fram fór í Vilníus lauk í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tóku þátt í fundinum. Þar voru teknar mikilvægar ákvarðanir um að efla sameiginlegar varnir og auka pólitískt samstarf og stuðning við Úkraínu. Þá var tilkynnt um að Svíþjóð fengi fljótlega fulla aðild að bandalaginu.

„Á fundinum var áréttuð samstaða um það meginmarkmið að Úkraína eigi greiða leið inn í Atlantshafsbandalagið þegar aðstæður skapast til þess og stór skref voru tekin til að einfalda það ferli. Ég ítrekaði einarðan stuðning Íslands við Úkraínu og mikilvægi þess að við stöndum saman um framhaldið. Ég áréttaði í minni ræðu að þrátt fyrir aukinn viðbúnað Atlantshafsbandalagsins hefur aldrei verið jafn mikilvægt að afvopnun verði sett á dagskrá af auknum krafti. Þá eru það auðvitað töluverð tíðindi að Finnland er nú orðinn fullgildur aðili og fyrir liggur vilyrði um að aðild Svíþjóðar verði tekin til umfjöllunar á tyrkneska þinginu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Nýjar svæðisbundnar varnaráætlanir voru samþykktar á fundinum en þeim er ætlað að styrkja varnar- og fælingarmátt Atlantshafsbandalagsins alls. Þá var rætt um þær áætlanir sem samþykktar voru í Madrid í fyrra, meðal annars á sviði loftslagsaðgerða og þegar kemur að öryggi óbreyttra borgara. Á fundinum var einnig ákveðið að auka framlög og fjárfestingar í varnarmálum til að styðja við aukinn varnarviðbúnað. Einnig var ákveðið að setja á fót sérstaka miðstöð á vegum bandalagsins sem styður við eftirlit og upplýsingamiðlun vegna ógna sem stafa að neðansjávarinnviðum.  

„Fyrir utan samstöðuna sem ríkir um mikilvægi þess að styðja Úkraínu til sigurs gegn innrásarstríði Rússlands má nefna að nýjar varnaráætlanir marka vatnaskil í varnarviðbúnaði og öryggi allra bandalagsríkja. Áætlanirnar skerpa á öllu skipulagi og framkvæmd sameiginlegra varna sem eykur fælingarmátt bandalagsins og tryggir að þegar bregðast þarf við ógnarástandi verðum við betur undir það búin með liðsafla, skipum og flugvélum. Í þeim endurspeglast einnig ríkur skilingur á mikilvægi Norður-Atlantshafsins fyrir öryggi bandalagsríkja. Við eigum að vera góðir og verðugir bandamenn og halda áfram að leggja okkar af mörkum með aukinni þátttöku og framlögum til sameiginlegra varna,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Leiðtogar bandalagsins funduðu með forseta Úkraínu og var ákveðið að efla pólitískt samstarf við Úkraínu til að leggja grunn að framtíðaraðild landsins að bandalaginu þegar aðstæður leyfa. Sett hefur verið á laggirnar sérstakt NATO-Úkraínuráð til að styrkja pólitískt samráð og samvinnu, bandalagsríki munu halda áfram að styðja varnir Úkraínu og framlög til uppbyggingar verða aukin.

Leiðtogum fjögurra samstarfsríkja bandalagsins í Asíu og á Kyrrahafi, Ástralíu, Japans, Nýja-Sjálands og Suður-Kóreu, var boðið til fundarins öðru sinni til að ræða þróun öryggismála á heimsvísu og hvernig standa megi vörð um grundvallargildi alþjóðasamvinnu. Þá var rætt um aukna samvinnu á sviði öryggis- og varnarmála, ekki síst varðandi fjölþátta ógnir og netöryggi.

Í tengslum við leiðtogafundinn áttu utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar óformlega fundi. Utanríkisráðherrar funduðu með samstarfsríkjum bandalagsins Bosníu og Hersegóvínu, Georgíu og Moldóvu og utanríkismálastjóra ESB um aðgerðir og stuðning til að tryggja stöðugleika og umbætur. Varnar- og fælingarstefna bandalagsins, framkvæmd varnaráætlana og styrking herstjórnarkerfisins voru til umræðu á fundi varnarmálaráðherrann.

Í tengslum við leiðtogafundinn átti forsætisráðherra jafnframt tvíhliða fundi með Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands og Ingridu Šimonytė, forsætisráðherra Litháens.

Utanríkisráðherra átti sinn fyrsta fund með Elina Valtonen utanríkisráðherra Finnlands sem tók við embætti í júní. Norðurslóðamál og norrænt samstarf voru efst á baugi fundarins. Þá tók ráðherra þátt í málstofum um lýðræði í Belarús, aðgerðir Atlantshafsbandalagsins í loftslagsmálum og sótti óformlegan fund kvenkyns utanríkis- og varnarmálaráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search