Search
Close this search box.

Leiðtogafundur Evrópuráðsins

Deildu 

Leiðtogafundur Evrópuráðsins hefst í dag. Það hefur ekki farið fram hjá neinum enda um sögulegan viðburð að ræða. Samkvæmt stofnskrá Evrópuráðsins „er ráðinu ætlað að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa. Rík áhersla hefur verið lögð á að auka skilning og samkennd meðal íbúa álfunnar á grundvelli sameiginlegrar arfleifðar.“

Markmið, gildi og sviptingar á alþjóðasviðinu

Þetta eru göfug markmið. Ráðið var stofnað í kjölfar hörmunga heimsstyrjaldarinnar síðari þegar Evrópa var í rústum og ekkert annað í stöðunni en að horfa fram á veginn og leggja allt á vogaskálarnar til að hörmungar endurtækju sig ekki. Nú er aftur stríð í álfunni og gegnir Ísland miklu ábyrgðarhlutverki með formennsku í Evrópuráðinu. Helstu markmið formennsku Íslands eru að efla grundvallargildi Evrópuráðsins og standa væntingar til þess að fundurinn skili raunverulegum niðurstöðum sem varða ábyrgð rússneskra stjórnvalda vegna stríðsreksturs þeirra í Úkraínu. Lögð er áhersla á að efla vinnu ráðsins, meðal annars hvað varðar lýðræði, réttinn til heilnæms umhverfis og vernd mannréttinda þegar kemur að þróun gervigreindar. Það kemur heim og saman við sérstakar áherslur formennsku Íslands um umhverfismál, réttindi barna og ungmenna og jafnrétti.

Rétturinn til heilnæms umhverfis

Það er þýðingarmikið fyrir fámenna þjóð að vera í kastljósi heimsatburða sem þessa. Áhrif alþjóðlegra stofnana og skuldbindinga eru umtalsverðar. Oft er um að ræða veigamiklar ákvarðanir sem varða hag þjóðarinnar með beinum hætti og enn aðrar sem varða helstu samfélagsmál nútímans. Umhverfismálin eru ofarlega á baugi á fundi leiðtogaráðsins. Með vaxandi meðvitund alþjóðasamfélagsins um hnignun umhverfisins og gæða jarðarinnar hefur skýlaus krafa verið gerð um aðgerðir. Krafan um „réttinn til heilnæms umhverfis“ er liður í þeirri þróun og það gefst tækifæri til þess á leiðtogafundinum að stuðla að lagalegri viðurkenningu réttarins til heilnæms umhverfis í Evrópu, en Mannréttindasáttmáli Evrópu tryggir ekki sérstaklega slík réttindi enn sem komið er, ólíkt öðum mannréttindasamn­ingum. Það er því til mikils að vinna að vel takist til á fundinum. Það er ábyrgðarhlutur stjórnvalda hverju sinni að leggja sitt á vogaskálarnar við slíka ákvarðanatöku og undan þeirri ábyrgð skorast ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ekki.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search