Einn í viku deyr úr loftmengun
Íslenskur vetur væntanlegur með öllum sem honum fylgir, vetrarstillum og verri veðrum. Sannarlega er sjaldan skortur á roki og rigningu, sanngjarnt væri að allt óheppilegt fyki í buffer himinhvolfanna. Því trúa mörg og því haldið á lofti að hér séu loftgæði góð.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (World Health Organization, WHO) skilgreinir loftmengun sem eitt helsta umhverfisvandamál nútímans og rekur árlega um 7 milljónir dauðsfalla til loftmengunar, hver flest orsakist af fínu svifryki.Loftmengun er efst á lista yfir umhverfisþætti sem hafa áhrif á lífeðlisfræðilega og ósmitandi sjúkdóma (Noncommunicable diseases, NCD). Meðal þessara sjúkdóma eru krabbamein, sykursýki, hjartasjúkdómar og langvarandi öndunarfærasjúkdómar.
Fjölmörgum finnast þessar tölur tilheyra öðrum löndum en samkvæmt loftgæðaskýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu má árlega rekja 60 ótímabær dauðsföll til útsetningar svifryks á Íslandi eins má rekja 204 töpuð æviár vegna loftmengunar á hverja 100.000 íbúa. Þrátt fyrir þessa ógn er loftmengun ekki partur af Íslenskum lýðheilsuvísunum. Þetta sýnir hversu lítið vægi loftmengun fær, gefum henni gaum!
Það hefur ekki tekist að tryggja loftgæði í þéttbýli eins og reglugerðir kveða á um. Sveitarstjórnir og stofnanir ríkisins ættu að vinna markvisst að því að tryggja loftgæði með virkum aðgerðum.
Í þéttbýli er helsta uppspretta loftmengunar af mannavöldum samgöngur, annars vegar fíngerðar sótagnir sem myndast við bruna jarðefnaeldsneytis og hins vegar grófari agnir sem myndast við slit gatna (ráðandi þáttur er slit nagladekkja á slitlagi).
Á vef Stjórnarráðsins segir að „loftgæði á Íslandi séu almennt talin góð þrátt fyrir að sum loftmengunarefni eigi það til að fara yfir skilgreind viðmiðunarmörk nokkrum sinnum á ári.“ Nokkrum sinnum er mörgum númerum og oft. Leyfilegt er að fara 35 sinnum yfir sólarhringsmörk svifryks ár hvert. Á Akureyri fór styrkur svifryks að meðaltali 26 sinnum yfir leyfileg sólarhrings heilsuverndarmörk (50 µg/m3 ) á árunum 2017 til 2019.
Núgildandi reglugerðir um viðmiðunar- og heilsuverndarmörk eiga að stuðla að góðum loftgæðum fyrir almenning. Yfirvöld þurfa að geta brugðist hratt og örugglega við svo tryggja megi bestu loftgæði á hverjum tíma þannig að nánast aldrei sé farið yfir viðmiðunarmörk og allt gert til að koma í veg fyrir loftmengun af mannavöldum.
Loftmengun dregur úr lífsgæðum og lífslíkum fólks. Nægar heimildir ættu að vera í lögum og reglum svo ávallt megi tryggja loftgæði í þéttbýli eins og viðmið kveða á um. Virðum Parma-yfirlýsingin þar sem áhersla er lögð á að vernda heilsu barna gegn skaðlegum umhverfisáhrifum. Tryggjum loftgæði og leyfum leikskólabörnum í þéttbýli að komast út að leika í allan vetur.
Hólmfríður Sigþórsdóttir, líffræðikennari, umhverfis- og auðlindafræðingur & flokkráðsfulltrúi VG
Álfhildur Leifsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi í Skagafirði og formaður sveitarstjórnarráðs Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, ritari Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og bæjarfulltrúi á Akureyri